Samgöngur til Eyja -- sala eigna á Keflavíkurflugvelli

Miðvikudaginn 05. desember 2007, kl. 13:53:31 (2647)


135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

samgöngur til Eyja – sala eigna á Keflavíkurflugvelli.

[13:53]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég get tekið undir það með hv. þingmönnum Sunnlendinga að það er dapurlega komið að samgöngumálum til Eyja sé þannig háttað þessa dagana eins og raun ber vitni og úr því þarf auðvitað að bæta bæði í bráð og lengd.

En ég ætla að taka upp ekki síður alvarlegt mál. Það varðar sjálfan grundvöll, starfsréttindi og stöðu þingmanna hér til upplýsinga um opinber málefni. Nú gerist það sem því miður hefur verið vaxandi tilhneiging til á undanförnum árum, að ráðuneyti virðast telja sig þess umkomin að ákveða sjálf í hvaða mæli þau skammta Alþingi upplýsingar um opinber málefni.

Fjármálaráðuneytið neitar fjárlaganefnd um upplýsingar um ráðstöfun opinberra eigna, um málefni opinbers fyrirtækis sem er 100% í eigu ríkisins. Þetta er algjörlega með endemum. Forseti hlýtur að standa hér með rétti þingmanna til að fá þessar upplýsingar. Hann er algjörlega ótvíræður og hann má aldrei skerða því þá er auðvitað hlutverk Alþingis stórlega laskað. Andi stjórnarskrárinnar, ákvæði 39. gr., 55. gr. og ákvæði þeirrar greinar stjórnarskrárinnar sem felur Alþingi ábyrgð á endurskoðun og eftirliti með opinberum fjármálum teiknar allur í eina átt, þ.e. að Alþingi á að hafa þarna alveg ótvíræða stöðu til allra gagna og allra upplýsinga. Sama hafa hefðir mótað hér á löngum tíma og sömu ákvæði geyma þingsköpin.

Við þingmenn ætlumst því auðvitað til þess að forseti standi með okkur, standi vörð um rétt þingmanna til þess að veita framkvæmdarvaldinu aðhald. Það er greinilega eitthvað óhreint mjög í pokanum úr því það þarf að pukrast svona með upplýsingar um opinber málefni eins og raun ber vitni. Þessar upplýsingar verða að koma fram í (Forseti hringir.) dagsljósið, virðulegi forseti.