Skýrsla forsætisráðherra um starfsemi Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar

Fimmtudaginn 06. desember 2007, kl. 12:04:19 (2811)


135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

skýrsla forsætisráðherra um starfsemi Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar.

[12:04]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Það er mjög virðingarvert af forsætisráðherra þótt seint sé að gefa skýringar og upplýsingar varðandi Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf. Það eitt að ráðherra skuli nú gefa Alþingi skýrslu um málið sýnir að hann hefur miklar áhyggjur af þeirri gagnrýni sem fram hefur komið að undanförnu og ekki að ástæðulausu að mínu mati.

Fyrsta spurning mín til forsætisráðherra er þessi: Af hverju var þetta fyrirtæki ekki ohf., þ.e. opinbert hlutafélag með þær skyldur sem slíkt félagsform hefur, t.d. varðandi upplýsingaskyldu? Fyrirtækið er 100% í eigu ríkisins og margir lögfræðingar telja að það orki mjög tvímælis að hafa það ehf. Þá hafa sumir lögfræðingar haldið því fram að það standist ekki lög að ganga fram hjá Ríkiskaupum við sölu á eignum þróunarfélagsins. Óskar Ásgeirsson, sérfræðingur hjá Ríkiskaupum gagnrýndi fyrir skömmu söluna og taldi að ekki hefði verið farið að reglum. Vissulega þarf að skoða þetta mál betur með stjórnsýslulög í huga.

Þá dreg ég það stórlega í efa að það gangi upp að selja eignir ríkisins fyrir 16 milljarða án eðlilegs útboðs, og hvað með ákvæði EES-samningsins? Auglýsingar á eignum þróunarfélagsins voru engan veginn nógu góðar, sérstaklega hvað varðar skipulagsmál og ljóst er að fjöldi einstaklinga og fyrirtækja hættu við að gera tilboð í eignir vegna mjög óljósra þátta í skipulagsmálum.

Herra forseti. Ég fagna allri atvinnuuppbyggingu á flugvallarsvæðinu og sérstaklega því skólastarfi sem þar er í uppbyggingu. Hitt er annað mál hvernig staðið er að sölu á ríkiseignum. Það er t.d. ljóst að fermetraverð fasteigna á flugvallarsvæðinu er um það bil helmingi lægra en annars staðar á Suðurnesjum. Þannig keypti Base ehf. 22 byggingar á fermetraverðinu 44 þús. kr. hvern fermetra. Háskólavellir keyptu 96 byggingar á fermetraverðinu 89 þús. kr. Keilir keypti tvær byggingar á fermetraverðinu 48 þús. kr. Þjóðkirkjan keypti tvær byggingar á 105 þús. kr. fermetrann. Atlantic Studios 13 byggingar á 41 þús. kr. fermetrann. Samtals er hér um að ræða 135 byggingar, 193.855 fermetra, fermetrinn að meðaltali á 81 þús. kr. Nú er búið að selja um 75–80% af eignunum á svæðinu og áætlað verð fyrir allar eignirnar er 25 milljarðar. Þar á meðal er mikið land sem hægt er að byggja á sem ekki er reiknað á háu verði að því er mér sýnist.

Herra forseti. Hverjir eru svo þeir aðilar sem hafa fengið að kaupa þessar eignir á útsölu og hvernig tengjast þeir hver öðrum í gegnum pólitíkina og eignatengsl fyrirtækja sem þeir stjórna og sumir eiga? Það má spyrja og tala um þróunarfélagið sem stendur að sölunni. Þar er náttúrlega stjórnarformaður Magnús Gunnarsson og Árni Sigfússon sem tengjast Sjálfstæðisflokknum. Sigurður Valur Ásbjarnarson, formaður kjördæmisfélags sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi, er í varastjórn. Hverjir eiga Base ehf.? Það er Hringrás. Þar er stjórnarformaður Gunnar Jóhann Birgisson. Hverjir eiga N1? Þar er stjórnarformaður Bjarni Benediktsson, hv. alþingismaður. Síðan er ÍAV, það eru Íslenskir aðalverktakar, þjónusta. Meistarahúsið ehf. er þar líka. (Gripið fram í.) Þekki það ekki. Hótel Keflavík, þar er Steinþór Jónsson stjórnarformaður, bæjarfulltrúi og formaður umhverfis- og skipulagsnefndar í Reykjanesbæ. Fyrirtækið Rafholt er þarna líka og eignarhaldsfélag AV sem, eftir því sem ég best veit, er partur af Aðalverktökum. DM ehf. er flutningafyrirtæki sem ég þekki ekki til. Síðan er fyrirtækið Húsanes ehf. og fjármálastjóri þess fyrirtækis og eigandi er sjálfstæðismaður, sonur fyrrverandi bæjarstjóra í Reykjanesbæ og heitir Jóhannes Ellertsson. Síðan er fyrirtæki sem heitir Lykilráðgjöf ehf. sem er líka hluthafi í þessu og þar eru sjálfstæðismenn og einn fyrrverandi varabæjarfulltrúi sjálfstæðismanna sem heitir Ríkharður Ibsen. Þá er Sparisjóður Keflavíkur hluthafi í þessu og þar er stjórnarformaður Þorsteinn Erlingsson, bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ. Það má geta þess að Base ehf. er byrjað að selja eignir og seldu einum bæjarfulltrúa úr Reykjanesbæ, Garðari Vilhjálmssyni eign. Ég veit ekki hvers konar eign það var.

Hverjir eiga Háskólavelli? Það er fasteignaþróunarfélagið Klasi hf. Það er Glitnir, fasteignafélagið Þrek ehf., fjárfestingafélagið Teigur ehf. og Sparisjóðurinn í Keflavík. Eigandi fasteignafélags Þreks eru sömu aðilar og eiga Húsanes. Þar er aftur kominn Jóhannes Ellertsson. Eigandi fasteignaþróunarfélagsins Klasa er Sigla ehf. og þar er bróðir fjármálaráðherra í fararbroddi. Tengslin við Sjálfstæðisflokkinn eru því víða.

Hverjir eiga Keili? Það er Bláa lónið og Base ehf. Þeir eiga Keili ásamt Flugstoðum ohf. og þar er varaformaður hv. alþingiskona, Arnbjörg Sveinsdóttir. Síðan kemur Geysir Green Energy og þar er í stjórn Hannes Smárason ásamt fleirum og Reykjanesbær er þar hluthafi. Það er Glitnir Bank, það eru Háskólavellir, það er Háskóli Íslands, það er Hitaveita Suðurnesja, þar sem Árni Sigfússon er stjórnarformaður.

Eins og sjá má eru mikil eignatengsl og pólitísk tengsl hér á ferðinni. Fyrir utan þetta eru mörg fyrirtæki önnur þar sem sömu aðilar tengjast með ýmsum hætti, t.d. Nesvellir ehf., Nesvellir íbúðir ehf. en þar eru Þrek ehf. og Klasi hf. að byggja húsnæði fyrir aldraða í Reykjanesbæ, án útboðs. Í Fasteign ehf. eru sömu aðilar í stjórn, þ.e. Árni Sigfússon, Gunnar Einarsson, Sigurður Valur Ásbjarnarson og varamaður í stjórn er Böðvar Jónsson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra.

Hitaveita Suðurnesja og Fiskmarkaður Suðurnesja tengjast þessu líka. Það má geta þess að stjórnarformaður í Hitaveitu Suðurnesja á síðastliðnum vetri, Ellert Eiríksson, seldi hlut Hitaveitu Suðurnesja í Sparisjóði í Keflavík á genginu 6,7 sama dag og Verkalýðs- og sjómannafélagið í Keflavík seldi eins bréf á genginu 8,1. Hitaveitan tapaði á þessum gjörningi 50–60 millj. kr. á þessum eina degi. Sá sem keypti — takið þið nú eftir — var Fiskmarkaður Suðurnesja þar sem sami stjórnarformaður Ellert Eiríksson er stjórnarformaður og Þorsteinn Erlingsson sem er stjórnarformaður í Sparisjóðnum, út á þann styrk, og stóreigandi í Fiskmarkaði Suðurnesja, bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ.

Það er auðvitað ljóst að kaupsamningar liggja ekki frammi fyrir okkur alþingismenn. Við fáum þá væntanlega á næstunni. En kostnaðurinn við þessa gjörninga að laga húsnæðið þarna er áætlaður 7–8 milljarðar kr. (Gripið fram í: Og hreinsun.) Og hreinsun vissulega. Það er dálítið skrýtið þetta yfirklór hv. þm. Árna Páls Árnasonar, að reyna að hreinsa þennan gjörning af sjálfstæðismönnunum og hvernig staðið hefur verið að málum uppi á velli vegna þess að þetta hefur ekki verið gert með eðlilegum hætti á einn eða neinn hátt.

Herra forseti. Umræðan um framgang sölu eigna á Keflavíkurflugvelli á vegum Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf. er mjög gagnleg. Enda er nauðsynlegt að alþingismenn sem eiga m.a. að ákveða tekjur og gjöld ríkissjóðs frá ári til árs fái allar staðreyndir upp á borðið. Það er mín skoðun að mun betur hefði mátt standa að málum í mörgum tilfellum og nauðsynlegt að fá á hreint hvort farið hafi verið að lögum og reglum. Þau pólitísku tengsl á milli manna sem komið hafa mest að málum og ég hef gert grein fyrir í ræðu minni, hljóta að teljast óeðlileg og sérstaka athygli vekur hlutur bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ og einstaklinga sem sitja í ríkisstjórn eða eru tengdir ráðherrum í ríkisstjórn Íslands.