Skýrsla forsætisráðherra um starfsemi Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar

Fimmtudaginn 06. desember 2007, kl. 12:15:06 (2812)


135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

skýrsla forsætisráðherra um starfsemi Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar.

[12:15]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er engin deila um að það var mikilvægt verkefni að koma þeim eignum í not og í gagnið sem urðu eftir þegar bandaríski herinn fór af landi brott fyrir rúmu ári. Þáverandi ríkisstjórn valdi þá aðferð í anda hugmyndafræði sinnar að einkavæða málið og setja það hvað stjórn snertir í ákaflega þröngan flokkspólitískan farveg. Það var ekki búið til opinbert hlutafélag, heldur einkahlutafélag og það var sett undir stjórn trúnaðarmanna flokksins á vettvangi, bæði aðal- og varamanna. Það eru hinir mætustu menn að sjálfsögðu, og síðastur ætla ég að halla orði á Magnús Gunnarsson sem ég þekki að góðu einu.

En strax koma upp þær spurningar hvort það hafi yfir höfuð verið gáfuleg ráðstöfun að bæjarstjórinn í Reykjanesbæ yrði jafnframt settur í stjórn þróunarfélagsins sem átti að ráðstafa og fara með þessar miklu eignir. Eðli málsins samkvæmt hlaut hún að þurfa að eiga mikið samstarf og samskipti við bæjarfélagið, þótt ekki nema væri af skipulagsástæðum. Sú spurning vaknar að sjálfsögðu strax og það þarf ekki að taka fram að stjórnarandstöðunni var ekki boðin eða veitt nein aðild að þessu þó að þarna stæði fyrir dyrum ráðstöfun mikilla opinberra verðmæta.

Það er dapurlegt að þetta mál skuli hafa lent í farvegi sem hefur valdið deilum og skapað tortryggni. Það hljóta allir að sjá að hún er eðlileg þegar það gerist að þarna eiga aðilar í viðskiptum sem sitja öllum megin við borðið. Á mannamáli sagt gerist það ósköp einfaldlega að Sjálfstæðisflokkurinn selur sjálfum sér þessar eignir með býsna hliðstæðum hætti og annar ónefndur flokkur seldi sjálfum sér banka aðeins fyrr á þessari öld.

Ég verð þó að segja að það sem af er þessarar umræðu hefur ræða Samfylkingarinnar vakið einna mesta undrun. Þar var um að ræða einn samfelldan réttlætingarsöng. Meira að segja virðist hv. þm. Árni Páll Árnason ekkert sjá sérstaklega athugavert við það út frá hæfisforsendum að menn sitji öllum megin við borðið eins og hér hefur verið rakið óhrekjanlega.

Það leynir sér ekki í þessu tilviki eins og fleirum að Samfylkingin er komin í stjórn með Sjálfstæðisflokknum. Ég velti fyrir mér hvernig ræða Samfylkingarinnar hefði verið hér ef hún væri í stjórnarandstöðu og ræðumaðurinn hefði verið hv. þm. Lúðvík Bergvinsson. Ja, öðruvísi mér áður brá. Það er ákaflega óheppilegt að málið skuli hafa farið í þennan farveg, að ekki skuli hafa farið fram formlegt opinbert útboð sem væri hafið yfir vafa hvað það snertir að allir stæðu jafnt að vígi og að öllum reglum í þeim efnum væri fylgt. Auglýsing í dagblöðum er algerlega ósambærilegur hlutur við það. Það er engin leið fyrir aðra málsaðila sem höfðu áhuga á þessum eignum eða jafnvel sendu inn tilboð að sannreyna hvort þeir hefðu hlotið sanngjarna meðferð. Þarna er ekki um formlegt útboðsferli að ræða. Ekki fór fram hlutlaust og gagnsætt verðmat á þessum eignum.

Auk þess má spyrja af hverju þessi áhersla hafi verið á að selja þær. Ef markmiðið var að tryggja að þetta mundi ekki valda röskun á fasteignamarkaði var þá ekki eðlilegra og meira í anda markmiða bæði laganna og samningsins við þróunarfélagið að menn færu sér hægt í þeim efnum en aðalmarkmiðið væri að koma eignunum í gagnið? Það er ekki síður en annað talað um umsjón eignanna og að leigja þær út. Þær röksemdafærslur standast ekki að bullandi undirverð sé réttlætanlegt vegna þess að menn höfðu af því áhyggjur að ekki mætti standa þannig að málum að þetta hleypti fasteignamarkaði þarna í uppnám. Það er engin réttlæting fyrir því að selja þær einkaaðilum á bullandi undirverði með ekki meiri kvöð en svo að ekki má endurselja þær í fjögur ár að vísu — en þó má veita undanþágu frá því. Þeir hinir sömu einkaaðilar geta því farið að setja þessar eignir inn á markaðinn tiltölulega fljótt fái þeir leyfi til þess frá þróunarfélaginu. Þá er málið komið í hring og aftur farið að snúast upp í andstæðu sína gagnvart því að hleypa ekki fasteignamarkaðnum í uppnám.

Það er algerlega óumflýjanlegt, virðulegi forseti, að öll kurl komi til grafar í þessu máli. Það eiga allir rétt á því, (Forseti hringir.) líka þeir sem hér sæta gagnrýni að fá að hreinsa sig. Þess vegna dugar ekkert minna en tæmandi opinber rannsókn á því hvernig hér hefur verið staðið að málum.