Meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Fimmtudaginn 06. desember 2007, kl. 15:28:54 (2837)


135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra.

182. mál
[15:28]
Hlusta

Frsm. heilbrn. (Ásta Möller) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti hv. heilbrigðisnefndar um frumvarp til laga um brottfall laga nr. 39/1964, um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra.

Heilbrigðisnefnd hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðrúnu W. Jensdóttur, Áslaugu Einarsdóttur og Vilborgu Hauksdóttur frá heilbrigðisráðuneyti. Þá barst umsögn frá landlæknisembættinu.

Í frumvarpinu er lagt til að lög um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra, nr. 39/1964, verði felld úr gildi þar sem þau séu tákn síns tíma. Ýmis lagaákvæði taka nú til þeirra einstaklinga sem framangreind lög gilda jafnframt um.

Má hér nefna lög um Lýðheilsustöð, nr. 18/2003, en samkvæmt lögunum er starfandi áfengis- og vímuvarnaráð sem hefur það hlutverk að efla og styrkja áfengis- og vímuvarnir og sinna eftirliti með því að ákvæðum laga og reglugerða um áfengis- og vímuvarnir sé framfylgt. Samkvæmt lögunum er einnig starfandi svokallaður Forvarnasjóður en það kemur í hlut Lýðheilsustöðvar að ráðstafa fé úr sjóðnum til verkefna á sviði áfengis- og vímuvarna í samráði við ráðherra að fengnum tillögum áfengis- og vímuvarnaráðs. Einnig má nefna lög um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, en samkvæmt lögunum kemur það í hlut þeirra að veita aðstoð við áfengissjúka og annast vímuefnavarnir. Þá má nefna lög um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, lög um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997, og lögræðislög, nr. 71/1997. Samkvæmt síðastnefndu lögunum er heimilt að svipta mann lögræði með úrskurði dómara ef þörf krefur ef hann sökum ofdrykkju eða ofnotkunar ávana- og fíkniefna er ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum eða fé. Í slíkum tilvikum er sjúklingur vistaður tímabundið á geðdeildum sjúkrahúsa.

Nefndin telur að ákvæði laga um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra, nr. 39/1964, séu úrelt og leggur til að frumvarp þetta verði samþykkt óbreytt.

Árni Páll Árnason var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita Ásta Möller, Ágúst Ólafur Ágústsson, Þuríður Backman, Pétur H. Blöndal, Valgerður Sverrisdóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Ellert B. Schram og Auður Lilja Erlingsdóttir.