135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 146/2007, um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

269. mál
[15:56]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég rita undir nefndarálit utanríkismálanefndar með fyrirvara eins og fram kom í ræðu framsögumanns, varaformanns utanríkismálanefndar. Ég ætla að gera lítillega grein fyrir því hvað veldur eða hverju sætir.

Það er kannski tvennt eða þrennt sem þar kemur við sögu. Í fyrsta lagi er þessi innleiðing áhugaverð vegna þess að hún sýnir að hið evrópska regluverk er kannski ekki eins óumbreytanlegt og niðurnjörvað og menn skyldu ætla vegna þess að Ísland fær í raun og veru þarna heilmikla viðurkenningu á sérstöðu sinni. Í raun er það þannig að það jaðrar við að vera álitamál hvort við þyrftum yfir höfuð að innleiða þessa tilskipun um viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda í þessum geira sem hér heyrir undir, a.m.k. á þessu stigi málsins.

Ísland verður í rauninni ekki nema óverulega eða óbeint bundið af þessu sökum þess að undanþága sem veitt er fyrir losun sem er neðan við tiltekin mörk á þessu sviði gerir það að verkum að við þurfum ekki að uppfylla mikið af þeim skyldum og kvöðum sem þessu fylgja í formi upplýsingagjafar og eftirlits og annarra slíkra hluta, þ.e. ef losað er minna en 25 þús. tonn eða öllu heldur ef tæknileg geta til losunar er undir þeim mörkum. Ef ég hef skilið þetta allt saman rétt, þá er því þannig farið. Það sýnir að oft eru möguleikar á því að fá sérstöðu viðurkennda og fá sveigjanlega framkvæmd á þessum sviðum.

Það er áhugavert, ekki síst þegar í hlut á orkumálasvið Evrópusambandsins en mjög hefur verið um það rætt hvernig Ísland tengist því og hvort sérstaða Íslands að ýmsu leyti í þessum efnum geri það ekki að verkum að við hefðum þess vegna getað samið okkur frá því regluverki í miklu ríkari mæli en raun ber vitni. Ég vísa þá að sjálfsögðu ekki síst til raforkutilskipunarinnar og innri markaðarins í raforkumálum sem Ísland er að sjálfsögðu ótengt sem einangraður orkumarkaður. En nóg um það.

Í öðru lagi er það hins vegar býsna stór ákvörðun út af fyrir sig að innleiða þessa tilskipun þó að hún snúi fyrst og fremst að aðilum sem framleiða orku eða hafa tæknilega getu til þess og skyldum aðilum vegna þess að þar með er sú ákvörðun tekin að við verðum með að þessu leyti og út af fyrir sig hefur kannski ekki annað staðið til eða verið í boði. Þótt það hafi lítil sem engin áhrif á okkur eins og málin standa í dag og miðað við núverandi innihald tilskipunarinnar og það svið sem hún tekur til í dag, þá er ekki þar með sagt að svo verði um alla framtíð og í raun og veru blasir hið gagnstæða við eins og hér var komið inn á í máli framsögumanns, að svo kann að fara að inn í þetta regluverk verði fært innan tíðar svið sem getur haft gríðarleg áhrif hér og þá einkum og sér í lagi flugstarfsemina.

Það mál er í ferli eins og menn vita í Evrópusambandinu og ómögulegt að segja nákvæmlega til um hvenær niðurstaða verður komin í það. En eins og málin standa í dag, þá er ástæða til að vera a.m.k. vel meðvitaður um hvað þar er á ferðinni og viðbúin því að niðurstaðan geti orðið þannig að Ísland þurfi verulega að takast á við þær kvaðir sem því mundu fylgja, með flugstarfsemi, jafngríðarlega umfangsmikil og hún er hér hjá okkur og vaxandi, hún lendir þarna undir með kröfum um að draga úr losun miðað við viðmiðun alllangt aftur í tímann.

Nú er að vísu mögulegt að þarna fáist aftur viðurkennd sérstaða okkar og kannski annarra eyjasamfélaga eða jaðarsvæða sem liggja afskekkt og eru mjög háð flugi. En um það getum við auðvitað ekkert fullyrt á þessu stigi málsins hvað af því kemst alla leið gegnum kerfið, gegnum hnot milli Evrópuþingsins og framkvæmdastjórnar o.s.frv.

Hér eru sem sagt á ferðinni breytingar sem ekki hafa mikil áhrif á Íslandi. Það eru fyrst og fremst varaaflstöðvar og mögulega fiskimjölsverksmiðjur og slíkir aðilar sem falla undir þessa flokkun. Hér eru ekki stór orkuver kynt með jarðefnaeldsneyti sem betur fer, eins og allir vita. En tilskipunin sem slík verður þá lögtekin hér og þar með erum við komin í þennan bát og hljótum að þurfa að vera með í róðrinum þar og eftir atvikum reyna að hafa einhver áhrif á stefnuna þannig að okkur verði lífvænt í þessu ferli öllu og kerfi.

Við eigum í sjálfu sér að líta það jákvæðum augum að við ætlum okkur að vera með í samræmdri viðleitni, hvort sem heldur er á evrópska vísu eða á heimsvísu, um að stemma stigu við losun. Það má enginn skilja orð mín svo að ég sé að biðjast undan því að Ísland taki þátt í því eða ætli okkur annan hlut. En það skiptir náttúrlega mjög miklu máli hvernig regluverkið er og hvernig það passar okkar aðstæðum og við þurfum þar af leiðandi að vinna að því að koma upplýsingum um þá hluti á framfæri á fyrstu stigum máls og snemma í ferlinu og um það hefur einmitt verið rætt talsvert á þessu hausti, að betrumbæta vinnubrögð í þeim efnum. Það eru nokkur slík mál á ferð gegnum evrópska regluverkið eða Evrópusambandsregluverkið sem við þurfum virkilega að hafa augun á á næstunni og þetta er eitt af þeim, eitt af því sem lýtur að heimildum til viðskipta með losun. Annað er augljóslega væntanleg ný tilskipun eða nýjar reglur á sviði raforkumarkaðsmálanna. Það má nefna þjónustutilskipunina og fleira í þeim dúr sem allt gerir það að verkum að við þurfum virkilega að fylgjast með og reyna að átta okkur á hvað í vændum er.

Það er reyndar athyglisvert að bera saman umfjöllun og umræður um þessi mál hér þessar vikurnar og þá miklu umræðu sem stendur t.d. núna í Noregi um það hver verði afdrif þjónustutilskipunarinnar hvað Noreg snertir, en þar eru uppi háværar kröfur eins og kunnugt er um að Noregur beiti í fyrsta sinn neitunarvaldi gagnvart innleiðingu hennar með þeim áhrifum sem það mundi auðvitað hafa á samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og allt ferlið.

En þetta, virðulegi forseti, voru helstu ástæður þess að ég kaus að setja fyrirvara á undirskrift mína undir nefndarálitið. Það er ekki vegna þess að ég telji að ástæða sé til í sjálfu sér að fresta þessari innleiðingu. Með því værum við í raun fyrst og fremst að bregða fæti fyrir samstarfsaðila okkar megin EES-samningsins sem falla undir þessa tilskipun og verða fyrir miklum áhrifum af henni, þ.e. Norðmenn og Liechtenstein og til þess er auðvitað engin ástæða, ekki nema menn hefðu þá hugmynd að Ísland ætti að standa varanlega utan við þetta sem ég held að sé ekki valkostur og væntanlega ekki í boði, heldur fremur að vera með. En vera vel á varðbergi og reyna að koma sjónarmiðum okkar á framfæri.