Leikskólar

Föstudaginn 07. desember 2007, kl. 12:25:19 (2900)


135. löggjafarþing — 39. fundur,  7. des. 2007.

leikskólar.

287. mál
[12:25]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég skil vel hugrenningar hv. þm. Karls V. Matthíassonar varðandi þetta mál. Ég vil undirstrika að þetta er gert, m.a. með það í huga að reyna að ná til þess sem kristnin m.a. felur í sér. Ég vil lýsa því sérstaklega yfir að ég er í sjálfu sér ekki mótfallin því að bæta við orðinu „kærleikur“. Ég held að það sé ágætistillaga varðandi breytingu á þessari grein.

Í skólum landsins á að fara fram fræðsla, uppeldi og menntun. Skólarnir okkar ganga út á það og það erum við sammála um. Hins vegar verður trúarbragðafræðsla að vera mjög sterk og öflug og við þurfum að kynna börnum okkar trúarbrögð. Þar leikur kristnin að mínu mati lykilhlutverk. Við megum alls ekki loka augunum fyrir þeirri sögu sem við byggjum á í menningu okkar og hefð, m.a. trúarhefð. Þau lög sem við höfum samþykkt á hinu háa Alþingi í hinum fjölbreytilegustu málaflokkum byggja m.a. á þeim grunni, þeirri rót sem kristnin hefur kennt okkur í gegnum árin, sem er m.a. kærleikur, umburðarlyndi, víðsýni o.s.frv.

Ég tel hins vegar greinina eins og hún er sett fram þarna vera rétta. Við lítum þar til þeirra breytinga sem hafa átt sér stað í samfélaginu á undanförnum árum en ekki síður til þess að Mannréttindadómstóll Evrópu gerði Norðmönnum það að þeir þurftu að breyta sínum lögum þar sem einmitt var fjallað um kristilegt siðgæði. Hins vegar er ekki með þessu, og ég undirstrika það, nein breyting hvað varðar kristilegt siðgæði og þá umræðu sem hefur verið í skólum landsins fram til þessa. Á því er engin breyting.