Leikskólar

Föstudaginn 07. desember 2007, kl. 14:11:24 (2905)


135. löggjafarþing — 39. fundur,  7. des. 2007.

leikskólar.

287. mál
[14:11]
Hlusta

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S):

Frú forseti. Menntastefna þjóðar er í senn samfélags-, menningar-, atvinnu- og efnahagsstefna hennar því að þekking er grunnur að öflugu samfélagi og um leið undirstaða framfara og atvinnusköpunar. Mikilvægasta auðlind þjóðarinnar býr í fólkinu og ekki síst í börnum hennar og unglingum. Í ljósi þessa er góður dagur á Alþingi í dag þegar hæstv. menntamálaráðherra mælir fyrir heildstæðum leik-, grunn- og framhaldsskólafrumvörpum. Ég vil því nota tækifærið og óska hæstv. menntamálaráðherra til hamingju með það stórvirki sem nú er lagt fram á Alþingi í formi metnaðarfullra lagafrumvarpa sem hafa það að markmiði að búa börnum og unglingum á Íslandi kjöraðstæður til náms og þroska. Verði frumvörpin að lögum er um að ræða heildstæða og viðamikla löggjöf í málefnum leik-, grunn- og framhaldsskóla. Áður hefur Alþingi samþykkt lög um háskóla sem þegar hafa öðlast gildi. Sú löggjöf er í þeim sama metnaðarfulla anda sem einkennir þessi frumvörp.

Frumvörpin voru unnin í víðtæku samstarfi eins og fram hefur komið við fjölmarga hagsmunaaðila á undanförnum missirum. Slík samvinna hefur mikið gildi út af fyrir sig. Hún varpar kastljósi á mikilvægi skólastarfsins auk þess sem hún framkallar hugmyndir í samstarfi og samvinnu hagsmunaaðilanna. Skýr stefna í skólamálum er afar mikilvæg en birtingarmynd þeirrar stefnu endurspeglast í frumvörpunum. Lagasetningin er svo hinn eiginlegi rammi sem skólastarfið byggir á. Góð löggjöf skiptir því miklu um áframhaldandi þróun skólastarfs.

Á grundvelli frumvarpa hæstv. menntamálaráðherra má efla skólastarfið og sækja fram í anda þeirrar hugsunar sem birtist þar um menntun barna og unglinga á Íslandi að hún verði til fyrirmyndar á alþjóðavísu. Í frumvörpunum er gert ráð fyrir virkum tengingum og samfellu milli skólastiga. Einnig því að sami skólastjórnandi geti stýrt sameiginlegum leik-, grunn- og tónlistarskóla svo dæmi sé tekið en þetta er sérstaklega sett fram í ljósi þess að víða eru sveitarfélög fámenn og nauðsynlegt að tryggja sveigjanleika starfseminnar af þeim sökum. Þá er gert ráð fyrir tengingu skólanna við tónlistar-, tómstunda- og íþróttastarf. Í því samhengi vil ég rifja upp mikilvægi góðrar tónlistarmenntunar og íþróttastarfs fyrir börn og unglinga.

Oft hef ég á undanförnum árum átt sæti í dómnefndum sem ætlað er að meta styrkumsóknir á grundvelli afburða námsárangurs og m.a. í framhaldsskólunum. Ég hef ekki vísindalega samantekt en ég veit af fenginni reynslu að skipulegt tónlistarnám og þátttaka í íþróttum hefur jákvæð áhrif á námsgetu að öðru leyti. Við eigum í þessari staðreynd ýmis sóknarfæri og frumvörp hæstv. ráðherra ýta undir samvinnu skóla á þessum sviðum.

Leikskólinn er skilgreindur sem fyrsta skólastigið. Ég veit ekki hvort við gerum okkur grein fyrir því hversu stórt skref þar er stigið. Í leikskólafrumvarpinu er fjallað um upphaf skólagöngunnar, fyrstu mótunarárin sem margir telja þau mikilvægustu í lífi hvers og eins. Skólaganga í leikskóla er ekki skyld en ljóst er að allflest börn njóta þeirrar þjónustu sem leikskólinn veitir og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að um 96% barna á aldrinum 3–4 ára eru í leikskólum.

Hér á landi er atvinnuþátttaka mest meðal þjóða heims. Í flestum tilvikum vinna báðir foreldrar á vinnumarkaði en yfir 90% karla og yfir 80% kvenna stunda störf utan heimilis. Þannig má segja að um leið og leikskólinn sinnir sínu lögbundna hlutverki þá er starfsemi hans forsenda fyrir því að foreldrar geti tekið þátt í atvinnulífinu. Leikskólastarfið er því afar mikilvægt í víðtækum skilningi. Með skilgreiningu á leikskóla sem fyrsta skólastigi hefur hæstv. menntamálaráðherra stigið stórmerkilegt skref sem ég trúi að verði til forustu á heimsvísu því að með aukinni þekkingu okkar og skilningi á þroska- og þróunarferli hvers manns þá skiljum við líka um leið mikilvægi fyrstu mótunaráranna á þessu æviskeiði einstaklinganna. Ég spái því sem sagt að aðrar þjóðir muni fylgja í kjölfarið eftir því sem þekking okkar á þessu eflist.

Heili ungbarna er eins og svampur, hann mótast. Í dag getum við séð þetta myndrænt í heilanum. Það eru tengingar að eiga sér stað á hverjum einasta degi í leikskólanum. Þessar tengingar eru svo grundvöllur fyrir áframhaldið þannig að við byggjum á svo miklu þarna og ég ætla að segja núna: Hæstv. menntamálaráðherra, til hamingju með þetta.

Í frumvörpunum er sem sagt áherslan á börnin. Það er áhersla á velferð og hagsmuni barna en um leið er hvatt til aukins samstarfs milli foreldra og nemenda og annarra hagsmunaaðila. Það er skerpt á stjórnskipan skólanna. Fram kemur að menntamálaráðuneytið ber ábyrgð á málaflokknum og setur leikreglur en sinnir um leið eftirfylgni með því að þær leikreglur séu virtar og þá einkum með svokölluðu ytra gæðamati sem ég kem að síðar.

Þá er einnig skerpt mjög á ábyrgð sveitarfélaga í tilvikum leik- og grunnskóla. Þeim er gert að setja almenna stefnu um skólamál og sinna gæðamálum og gæðamati. En það sem er einkennandi fyrir frumvarpið er aukið faglegt vald sem fært er til einstakra skóla, stjórnenda þeirra og starfsmanna, ábyrgð og vald sem er fært nær barninu, fjölskyldum þeirra og í tilviki framhaldsskóla og grunnskóla að auknu leyti til nemendanna sjálfra. Skólar, stjórnendur þeirra og starfsmenn, fá aukið frelsi og sveigjanleika til að sinna hlutverki sínu og móta áherslur í starfi við hagsmunaaðila. Um leið er gert ráð fyrir lögbindingu gæðakerfis starfseminnar með innra og ytra gæðamati sem er markvisst og stöðugt ferli. Hverjum skóla er ætlað að stunda kerfisbundið innra gæðamat á grundvelli námskrár, stefnu sveitarfélags og á grundvelli laga og reglna ráðuneytis menntamála. Um leið er sveitarfélögum og menntamálaráðuneyti gert að framkvæma kerfisbundið ytra mat á grundvelli hlutverks, stefnu og markmiða starfsins, sveitarfélögum að sjálfsögðu þegar um er að ræða leik- og grunnskóla en ekki framhaldsskóla, a.m.k. ekki enn þá.

Gæðamatið hefur tvíþætt hlutverk. Það er annars vegar eftirlitshlutverk og hins vegar umbótahlutverk eða uppbyggingarhlutverk. Gæðamatið sem slíkt stýrir því að við skilgreinum hvað betur má fara. Báðir þessir þættir eru nauðsynlegir allri starfsemi en miklir framþróunarmöguleikar felast í markvissu gæðastarfi og þar er þessi umbótaþáttur spennandi því að hann stuðlar að uppbyggingu og þróun starfsins. Þá er í frumvarpinu fjallað um sprotasjóð til að styðja þróun og nýsköpun í skólum.

Ég hef aðeins fjallað um leikskólastigið. Ég þekki það minnst í sjálfu sér en er alveg heilluð af því af því vegna þess að ég þekki svolítið rannsóknir um þroska barna á þessum aldri. En yfir að grunnskólastiginu. Þar þótti mér afar vænt um að sjá að samræmda könnunarprófið í 10. bekk er framkvæmt fyrir áramót. Þar með geta niðurstöður prófsins nýst til að byggja enn frekar upp á komandi missiri. Þetta er mjög skynsamleg ráðstöfun og ég styð hana heils hugar.

Við ræddum í morgun um PISA-rannsóknina en hún er eins og kunnugt er gerð í 57 löndum og við berum okkur saman við hina. Sem betur fer, og ég endurtek það, sem betur fer erum við Íslendingar þannig í stakk búnir að við sættum okkur helst ekki við neinar samanburðarupplýsingar nema við séum í fremstu sætum, en ég er ein þeirra sem skoða PISA-könnunina og skil í henni tækifærin vegna þess að við höfum þegar byggt upp innviðina sem þarf til að ná enn betri árangri. Ég ætla ekki að endurtaka PISA-umræðuna frá því í morgun en ég sé í henni mikil tækifæri. Áfram tölum við um skýrari verkaskipti og ábyrgð og réttindi foreldra, samfelldara starf og styrkingu á sjálfstæði skólanna. Mér þykir vænt um að sjá í frumvörpunum, sem vonandi verða að lögum, mikla áherslu á sköpun og skapandi þátt, bæði í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum. Í leikskólunum tölum við sérstaklega um skapandi starf og leiki. Í grunnskólunum erum við farin að tala um nýsköpun og enn þá frekar í framhaldsskólunum. Þá er ég líka hrifin af því að kveðið er á um sérstaka móttökuáætlun fyrir nýja nemendur í grunnskólunum og ég held að það sé vel.

En víkjum aðeins að framhaldsskólunum. Í frumvörpunum, af því að þau eru tekin fyrir í heild sinni, er kannski helsta breytingin í framhaldsskólunum og það segi ég án þess að vilja rýra allar hinar breytingarnar sem ég hef þegar nefnt, alla vega í leikskólanum. En þegar maður horfir til framtíðar þá er líka svolítið spennandi að horfa til fortíðar í leiðinni og ég ætla að leyfa mér það. Ég ætla að leyfa mér að líta til miðalda og þess sem kennt var á miðöldum í háskólanum sem grunn, af því að ég er að tala um framhaldsskólana, að frekara framhaldsnámi. Það var þannig í grunnnáminu í gamla daga, þ.e. á miðöldum, að grunnnámið sem var byrjað á var latína og grísk málfræði. Þar er fjallað um uppbyggingu málsins. Þetta er þáttur í því sem kallað er þrívegur. Þrívegur fól í sér þrennt. Í fyrsta lagi uppbyggingu málsins og þá í gegnum latnesku og grísku. Í öðru lagi mælskulist en hún fjallaði um framsetningu máls, bæði í ræðu og riti. Í þriðja lagi rökfræði, svokölluð þrætubók var kennd ekki einungis til að færa málið í ræðu og rit heldur líka að nota málið til að fylgja málum eftir. Þetta var alger grunnur og kallaður þrívegur. Síðan kom fjórvegurinn og þannig var litið á að fjórvegurinn væri ekki síst fyrir þá sem ætluðu sér í nám í háskóla á sviði heimspeki og guðfræði. En í fjórvegi, í því fornámi sem tók við af þríveginum, var eftirfarandi kennt: Flatarmálsfræði, tölvísi, stjarnfræði og tónlist. Og ég kem aftur að tónlistinni af því að ég held að hún sé grundvallaruppbyggingarformúla fyrir heilatengingarnar sem ég ræddi um áðan. Þetta voru þrívegur og fjórvegur í gamla daga en í dag, og ég fagna því líka, er í frumvarpi menntamálaráðherra um framhaldsskólann kveðið sérstaklega á um íslensku, stærðfræði og ensku. Ég sé í því ákveðið samspil við það sem var vegna þess að þetta eru þeir þrír þættir sem við — og nú tala ég sem fyrrverandi háskólarektor, háskólarektorar fjölluðu á sínum tíma mikið um hver væru mikilvægustu skilaboðin í sambandi við framhaldsskólana og þá til menntamálaráðuneytisins líka — við vorum öll sammála um að þessar þrjár undirstöðugreinar væri í ljósi nútímans langmikilvægastar, íslenska, stærðfræði, enska, og að hver og einn einasti nemandi sem færi í gegnum framhaldsskólana hefði mjög sterka þekkingu á þessum sviðum. Síðan fagna ég fjölbreytninni að öðru leyti sem er í framhaldsskólafrumvarpinu og ég sé að yfirbragðið er fjölbreytt og þar er sveigjanleiki og það að við ætlum að leyfa börnum að njóta sín, eða kannski frekar unglingum, nemendum að njóta sín vegna þess að fjölbreytni í menntuninni er lykilatriði í þessu frumvarpi, betri og fjölbreyttari framhaldsskóli. Brottfall hefur verið áhyggjuefni og ekki síður brottfall drengja og ég tel að frumvarpið gefi okkur mikil tækifæri til að minnka það verulega og stuðla að því að allir fái framhaldsskólapróf.

Í frumvarpinu um menntun kennara og skólastjórnenda er lagt til að efla kennaramenntun, lengja hana og efla ekki síst faglega þekkingu þeirra sem stunda kennaranám. Gott kennaranám er grunnur að virkri þátttöku við uppbyggingu í skólastarfi og frumvörpin gera vissulega ráð fyrir mikilli uppbyggingu.

Virðulegi forseti. Frumvörpin eru tvímælalaust til þess fallin að efla og styðja það góða starf sem þegar er unnið í skólum víða um land. Í þeim er skýr skilgreining á ábyrgð ríkis, sveitarfélaga og skólastjórnenda og þar er lagt upp úr gæðum og gæðamati. Verði frumvörpin að lögum er til góður rammi til að bæta enn starfsemi skólanna og efla enn frekar árangur. Ég styð frumvörpin heils hugar. Í þeim er yfirbragð sem mér er að skapi. Yfirbragðið er eftirfarandi: Þar er skapandi hugsun gert mikið og hátt undir höfði sem og skapandi starfi. Þar er gert ráð fyrir auknu frelsi skólanna á öllum skólastigum. Þar er gert ráð fyrir flæði milli skólastiga, sveigjanleika og öflugu gæðastarfi. Það er hvatning okkar allra til að efla skólana, til að efla einstaka skóla og til að hvetja nemendur til árangurs. Hér er kominn grundvöllur fyrir mun hærra menntunarstigi þjóðarinnar sem ég segi að eigi eftir að efla hagsæld hennar um ókomin ár.