Leikskólar

Föstudaginn 07. desember 2007, kl. 14:28:00 (2906)


135. löggjafarþing — 39. fundur,  7. des. 2007.

leikskólar.

287. mál
[14:28]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum afar efnismikil frumvörp, fjögur talsins. Ég verð að lýsa þeirri skoðun minni að ég hefði kosið að fá að ræða þau hvert í sínu lagi. Ég tel efniviðinn þess eðlis að við hefðum átt nóg með að ræða þau hvert í sínu lagi. En við féllumst á að þetta yrði gert með þessu móti og því eru hér fluttar efnismiklar ræður og erfitt að fylgja einhverjum þræði eða bregðast við því sem sagt hefur verið.

Hæstv. menntamálaráðherra flutti klukkutíma langa ræðu um innihald þessara fjögurra frumvarpa. Hún var mjög efnismikil, eins og greinargerðirnar með frumvörpunum og eðlilegt væri að bregðast við mörgu af því sem hæstv. menntamálaráðherra sagði en ég reyni á mínum 40 mínútum eftir fremsta megni að gera grein fyrir sjónarmiðum sem við Vinstri hreyfingin – grænt framboð höfum í menntamálunum. Þó vildi ég, áður en ég hef mál mitt, segja að ég treysti því að hæstv. forseti Sturla Böðvarsson, úr því að hann er í salnum, heimili við 2. umr. að málin verði rædd hvert í sínu lagi. Ég tel að eftir 2. umr. hljóti að koma það mikið með málunum úr nefndum að einsýnt verði að ræða verði um þau hvert í sínu lagi þótt mælt sé fyrir þeim öllum saman.

Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir, varaformaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, fór í stórum dráttum yfir meginsjónarmið okkar til frumvarpanna. Við fögnum þeim að sjálfsögðu. Hér er um tímamótafrumvörp að ræða. Ég er líka mjög sátt við, og vil hæla hæstv. menntamálaráðherra fyrir það, að hún leggi þau fram núna þannig að þau geti farið í umsagnarferli strax í desember. Það er ekki nein tímapressa á að við ljúkum þessum málum í menntamálanefnd og það er gott til þess að vita að við finnum að við höfum nægan tíma til að vinna frumvörpin. Ég tel að hér eigi eftir að vinna mjög mikið verk, mikið starf, þótt mikið starf hafi nú þegar verið leyst af hendi í ráðuneytinu.

Meginstefnumið okkar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs ganga út á að skólakerfið eigi að vera fyrir alla. Það er hjartað í stefnu okkar í menntamálum, að samfélagið sé þess eðlis, þau séu það blönduð kjörin og aðstæður fjölskyldna að nauðsynlegt sé að við búum við skólakerfi í þessu velferðarsamfélagi, þessu ríka samfélagi sem er fyrir alla án gjaldtöku við hvert fótmál. Þá erum við að tala um öll skólastigin, leikskólastigið, grunnskólastigið og framhaldsskólastigið. Við höfum lagt fram nokkur þingmál til að styðja þessa pólitík okkar og þessa hugsjón okkar. Ég vildi sérstaklega nefna nýtt frumvarp sem við höfum lagt fram um námsgögn í framhaldsskóla, að stefnt verði að því að þau verði gjaldfrjáls. Ég tel tímabært að taka skref í þá átt.

Við lítum svo á að skólakerfið sé sameign okkar allra og það skuli fjármagnað af okkar sameiginlegu sjóðum. Þess vegna höfum við haldið því fram að áður en til gríðarlegra skattalækkana kemur á efnamikið fólk þá eigi að tryggja velferðarþjónustu, þar á meðal menntakerfi sem við getum verið stolt af, þar sem börnin eru ekki rukkuð, eins og ég sagði áðan, við hvert fótmál.

Síðan er það meginsjónarmið varðandi okkar menntastefnu að þar skuli ríkja þrjú grunngildi. Þau skulu vera í hávegum höfð í skólastarfinu, í fyrsta lagi sjálfbærni, í öðru lagi réttlæti og í þriðja lagi lýðræði. Þetta teljum við grundvöll fyrir menntastefnu sem sómi er að á 21. öldinni fyrir þetta lifandi samfélag sem við sjáum fyrir okkur. Skólakerfið á að vera lifandi samfélag skólafólks, nemendanna sjálfra og fjölskyldna þeirra. Þess vegna tökum við undir þau meginsjónarmið sem hæstv. menntamálaráðherra lýsti vel í ræðunni sinni þar sem talað var um aðkomu foreldranna að skólastarfinu í auknum mæli. Því samstarfi þarf að finna form. Það er meira en nauðsynlegt að finna samstarfi fjölskyldna og skóla form þannig að við förum inn á þá erfiðu braut að praktísera grasrótarlýðræði í skólastarfi, eins og við reynum að gera á öðrum sviðum mannlífsins.

Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir fór nokkuð mörgum orðum um nemendalýðræðið og talaði um að við værum því fylgjandi að víkka út ábyrgð nemenda. Ég tel einsýnt að við komum til með að ræða þennan þátt málsins afar vel í menntamálanefnd. Ég tel það algert grundvallaratriði að aðkoma nemenda að ákvörðunum í skólastarfinu sé tryggð og tel það í samræmi við þær ábendingar sem komu fram í mjög góðri skýrslu umboðsmanns barna sem birt var nýverið. Í henni er stór og mikill kafli um skólamál þar sem umboðsmaður fagnar því að sér hafi gefist tækifæri til að skoða innihald þessara frumvarpa áður en þau litu dagsins ljós í þinginu. Hún fjallar í skýrslu sinni um ákveðna þætti sem hún telur að þurfi að koma til skoðunar í meðferð þingsins og ég vil taka undir þau atriði sem umboðsmaður nefnir.

Hún fjallar sérstaklega um það sem ég ræddi um áðan, samstarf foreldranna í skólakerfinu. Hún nefnir sérstaklega í kaflanum um leikskólann, að það sé mikilvægt. Hún fjallar um kröfur um mönnun og húsnæði og aðbúnað í leikskólum enda sé dvalartími barna á leikskólum orðinn svo langur að mjög tímabært sé að huga að aðbúnaði barnanna. Húsnæðismálin eru þar meginatriði og ég tel mikilvægt að við skoðum það á hvern hátt aðbúnaður barna í skólum er almennt, ekki hvað síst á leikskólastiginu.

Umboðsmaður nefnir öryggismálin. Ég tel það líka þátt sem við þurfum að taka til skoðunar þegar við fjöllum um þessi frumvörp. Hún um talar einnig um mikilvægi þess að skilgreina rétt leikskólabarna til sérstakrar aðstoðar og þjálfunar. Mig langar til að staldra örlítið við þann punkt, virðulegi forseti, þ.e. skólakerfi sem er fyrir alla, óháð fötlun t.d., leggur okkur mjög ríkar skyldur á herðar sem er ekki einfalt að standa undir. Salamanca-yfirlýsingin, sem við höfum undirgengist, gerir ráð fyrir því að skólastarfi sé þannig fyrir komið að fötluð börn geti átt kost á að vera í almennum skólum en þó á eigin forsendum. Það þýðir auðvitað aukið starfslið. Fjöldinn allur af skólamönnum hefur skrifað um það greinar og lýst yfir sjónarmiðum varðandi þetta atriði, þ.e. eigi að framkvæma þá stefnu í raun. Þeir telja nauðsynlegt að til komi aukið fjármagn til að auka við starfslið sem þarf til þess að gera fötluðum einstaklingum kleift að vera í almennum skólum. Þar er átt við öll skólastigin, leikskólastigið, grunnskólastigið og framhaldsskólastigið og reyndar má nefna háskólastigið í þessu samhengi líka.

Til okkar í menntamálanefnd hafa komið skólamenn, nánast árvisst, fyrst og fremst í umfjöllun um fjárlög og það hefur ævinlega komið fram að skortur sé á fjármagni til að búa til aðstöðu sem er sæmandi fötluðum nemendum. Ég tel að heimsókn frá Félagi framhaldsskólakennara fyrr í vetur hafi staðfest þetta fyrir okkur. Þótt við höfum sagst vera öll af vilja gerð og vildum að framhaldsskólinn væri fyrir alla, þá segir Félag framhaldsskólakennara að mikið skorti þar á, t.d. á að fötluðu börnin, sem fá aukið fjármagn með sér samkvæmt reiknilíkani, hvort sem það er síðan nóg fjármagn eða ekki. Þetta aukafjármagn er nýtt í þeirra þágu en hins vegar sé afskiptur hópur hvað þetta varðar, þ.e. börn sem hafa greiningu upp úr grunnskóla varðandi ofvirkni eða athyglisbrest eða eitthvað í þá veruna, sem heyra ekki undir skilgreininguna fatlað barn. Þeim fylgir þar af leiðandi ekki aukið fjármagn samkvæmt reiknilíkani framhaldsskólanna.

Þegar við ræðum þetta, skólakerfi fyrir alla, skólakerfi án aðgreiningar, þá verðum við að vita og viðurkenna að það kostar aukið fjármagn. Ég segi þetta vegna þess að mér finnst mikilvægt að menntamálanefnd átti sig á því að það er ekki hægt að skilja þessa þætti að. Við getum ekki litið svo á að þessi frumvörp séu einangruð og við getum fjallað um þau án þess að ræða um aukna fjármuni sem þurfa að koma til svo að þannig sé á málum haldið að sómi sé að.

Í frumvörpunum eru, eins og hæstv. menntamálaráðherra gat um, fylgiskjöl frá fjárlagaskrifstofu menntamálaráðuneytisins og sömuleiðis viðauki þar sem menntamálaráðuneytið og sveitarfélögin hafa skoðað frumvörpin sameiginlega. Ég tel það vera afar vel að menntamálaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga skuli hafa metið forsendur kostnaðaráhrifanna vegna frumvarpanna. Ég tel mjög mikilvægt að við viðhöldum þeirri venju að Samband íslenskra sveitarfélaga fái þá aðkomu sem hér er lýst í fylgiskjali II. Ég hef núna í höndum frumvarp til laga um grunnskólann. Það er mjög mikilvægt að sveitarfélögin finni að samkomulagið sem í gildi er milli ríkisins og sveitarfélaganna skili sér á þennan hátt, í fylgiskjali inn í frumvörpin, enda varðar málið fjárútlát sveitarfélaganna.

Það kemur reyndar fram í textanum að ákveðnir þættir séu óljósir í þessum efnum. Engu að síður er ljóst að það er kostnaðarauki samfara þessum frumvörpum sem við verðum að átta okkur á að tryggja að lagt verði til á fjárlögum.

En af því að ég er með skýrslu umboðsmanns barna þá langar mig til að stikla örlítið á þeim köflum þar sem hún nefnir. Ég lýsi því yfir að ég mun tryggja að þessi sjónarmið verði tekin til sérstakrar skoðunar í vinnu nefndarinnar. Umboðsmaður barna talar sérstaklega um börn í fjölmenningarsamfélagi og ég tel það mjög mikilvægt að við áttum okkur á því að þótt þessi ríkisstjórn hafi komið myndarlega til móts við þær þarfir sem eru til staðar varðandi íslenskukennslu fyrir útlendinga, bæði innan skólakerfisins og utan þess, þá vantar heildarstefnumótun í þeim efnum. Í Fréttablaðinu í morgun er athyglisverð forsíðufrétt um stöðu barna innflytjenda í skólasamfélagi okkar og sú litla frétt segir ansi mikið um það ástand sem er til staðar í samfélagi okkar. Það vantar sannarlega mikið á að nægilega sé komið til móts við börn innflytjenda og börn sem hafa ekki íslensku að móðurmáli í skólakerfinu. Ég hef ekki tekið greinina með mér eins og ég ætlaði en engu að síður er rétt að hugleiða forsíðufrétt Fréttablaðsins í dag í þessu sambandi.

Umboðsmaður barna fjallar einnig um þátt sem mér þykir einn af hinum viðameiri varðandi skólastarf, þ.e. kröfurnar til starfsfólks í skólakerfinu. Kröfur til starfsfólks hafa verið að aukast á undanförnum árum. Með auknum kröfum til menntunar, til fjölbreytileika í skólastarfi og ýmissa nýjunga sem við höfum innleitt í skólastarf, auk kröfunnar um skóla án aðgreiningar, höfum við gert meiri kröfur til starfsfólksins, um sérþekkingu og menntun. Ég tel afar mikilvægt í því sambandi að það skuli eiga að taka menntun kennara til endurskoðunar á þeim nótum sem gerð er grein fyrir í frumvarpinu, um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

Þá ætla ég að leyfa mér að fjalla í nokkrum orðum, hæstv. forseti, um kjör starfsfólks skólanna. Við getum ekki horft fram hjá þeirri staðreynd að flótti hefur verið úr kennarastétt á undanförnum árum. Ef eitthvað er þá virðist sá flótti aukast frekar en hitt. Ég tel óhjákvæmilegt að fjalla um atgervisflóttann úr stéttinni í tengslum við þessi frumvörp og tel nauðsynlegt að við áttum okkur á þeirri staðreynd að við greiðum fólki mun hærri laun fyrir að passa peningana okkar en fyrir það að annast velferð og menntun barnanna okkar.

Á dögunum, í byrjun október, var haldin kjararáðstefna Kennarasambands Íslands. Hún var mjög fjölsótt og mönnum var mikið niðri fyrir. Á þeirri ráðstefnu kom afar margt fróðlegt fram sem ég held að við þurfum að hafa til hliðsjónar í umræðunni. Hve ríkur sem vilji okkar er til að bæta skólastarfið og gera góða löggjöf um skólastarf þá verður það marklaust hjal ef við ekki getum bætt kjör þeirra sem eiga að bera uppi starfið. Við erum að tala um eina fjölmennustu stétt á Íslandi.

Nú er það svo að meðallaun kennara eru 280 þús. kr. brúttó, 195 þús. kr. nettó. Þessi tala er lág. Hún er mjög lág þegar við skoðum hversu fjölmenn stétt kennara er og þegar við skoðum samanburð við aðrar stéttir. Eitt umræðuefnið á kjararáðstefnu kennara var milljarðurinn sem Háskólinn í Reykjavík fékk nú nýverið að gjöf, sem var að sjálfsögðu afar vel þeginn og kemur sér vel fyrir Háskólann í Reykjavík. En kennarar töldu ástæðu til að vekja athygli á því að það tæki kennara 427 ár að vinna fyrir þessari upphæð ef hann léti allar ráðstöfunartekjur sínar renna í slíkan sjóð, í milljarðasjóðinn. Með öðrum orðum kom fram að það væru 12 sinnum ævitekjur kennara sem reiddar voru fram sem gjöf athafnamanns til Háskólans í Reykjavík. Það tekur einn nýríkan Íslending innan við 10 ár að safna þessu saman af þeim aukakrónum sem flæða út úr sparibauknum og hann þarf ekki að nota sjálfur.

Ég vil segja í þessari umræðu, hæstv. forseti, að Alþingi Íslendinga, stjórnvöld, ríkisstjórn Íslands getur ekki reitt sig á velvild auðmanna til þess að reka skólakerfið okkar. Til að reka skólakerfið okkar með glæsibrag þurfum við styrk úr almannasjóði og við þurfum að veita það fé sem þarf til öflugs skólastarfs í gegnum þá sjóði. Dæmið um milljarðinn sýnir okkur tekjuskiptinguna í samfélaginu og það dregur fram hversu brýn þörf er á að fara að huga af alvöru að kjörum kennara, skólastjórnenda og annars starfsfólks í skólunum og það dregur athygli okkar að því að tryggja þarf stöðugleika í starfsmannamálum skólanna sem svo mjög er ábótavant núna.

Formaður Kennarasambandsins sagði á þessari ráðstefnu, kjararáðstefnu kennara, að það væri aðalatriði í komandi samningum kennara að allir peningarnir væru settir í launaliðinn, grunnlaunin hækkuð og hann talaði um áhersluatriði okkar vinstri grænna í þeim efnum, að kynbundnum launamun yrði útrýmt. Nú vitum við það af könnunum að kynbundinn launamunur fyrirfinnst líka í kennarastétt. Í kennarastétt þar sem konur eru mjög fjölmennar, og þetta er opinber stétt sem semur um kjör sín á opinberum vettvangi við opinbera aðila, skyldi maður ætla að ríkja ætti sem mestur jöfnuður en það gerir það ekki. Krafa kennara er alveg skýr, forsenda fyrir gæðum skólastarfs að þeirra mati eru starfsskilyrði sem eru viðunandi fyrir starfsfólkið og þá ekki hvað síst launin. Launin eru sett á oddinn núna, launaliðurinn og hækkun hans er númer eitt.

Hvers vegna er ég að tala um þetta hér, hæstv. forseti, eins og það sé verkefni ríkisstjórnarinnar að semja beint við kennarana? Auðvitað er það ekki svo en það breytir því ekki að ríkisstjórnin varð þess valdandi á sínum tíma, síðast þegar kennarar fóru í verkfall, að sett voru lög á kennara. Það er ekki lengra síðan en í nóvember 2004 og þó svo að gerðir hafi verið samningar í framhaldi af þeim lögum þá held ég að engum blandist hugur um að þeir samningar voru gerðir undir pressu af þeirri lagasetningu sem ríkisstjórnin þvingaði fram á Alþingi Íslendinga. Þetta voru því ekki frjálsir samningar heldur samningar sem voru þvingaðir fram.

Formaður Kennarasambandsins heldur því fram í formannspistli í nýjasta eintaki Skólavörðunnar sem var að koma út, 7. tölublaði Skólavörðunnar, að með lagasetningu þessari hafi þáverandi ríkisstjórn ákveðið að lögbinda að laun í grunnskólum skyldu vera það lág að engar líkur væru á að nokkur sátt gæti náðst milli sveitarfélaganna og þeirra starfsmanna sem við kjörin áttu að búa. Formaður Kennarasambandsins, Eiríkur Jónsson, segir, með leyfi forseta:

„Þessi sama lagasetning varð þess síðan valdandi að kjörin í leik- og tónlistarskólum tóku mið af þeim kjörum sem með óbeinum hætti voru lögþvinguð í grunnskólunum. Það eru því stuðningsmenn áðurnefndra laga sem ættu nú að stíga fram og bæta fyrir mistökin sem þeir gerðu haustið 2004.“

Það er því alveg ljóst í mínum huga að þáttur ríkisvaldsins í kjörum kennara er verulegur. Ég tek undir orð formanns Kennarasambandsins og ég hef miklar áhyggjur af því að áfram eigi að halda kennurum niðri í kjörum vegna þess að nú er talað um óstöðugt ástand í efnahagslífinu, nú er talað um að verðbólgudraugurinn sé á næsta leiti og þessi söngur sem venjulega er kyntur upp þegar stórir kjarasamningar eru í nánd er auðvitað farinn að heyrast svo um munar. Ég tel nauðsynlegt að ríkisstjórnin lýsi yfir einhverjum vilja í þessum efnum. Ég tel að ríkisstjórnin og hæstv. menntamálaráðherra þurfi að gefa út yfirlýsingu um að ekki verði búið við það öllu lengur að kennarastéttin sé láglaunastétt. Það verður að taka hraustlega á í þeim kjarasamningum sem eru yfirvofandi til þess að það sé trúverðugt sem við ætlum að fara að gera með þessum nýju frumvörpum. Það er algerlega lífsnauðsynlegt að við áttum okkur á því að gæði skólastarfs og fjármögnun skólanna verður ekki slitin úr samhengi.

Svo ég vitni áfram til formannspistils Eiríks Jónssonar í nýjustu Skólavörðunni þá segir hann að starfsmannavandi skólanna verði ekki leystur með því að hræra endalaust í einhverjum vinnutímaskilgreiningum. Hann verði einungis leystur með því að hækka kaupið og segir síðan áfram, með leyfi forseta:

„Vegna afskipta ríkisvaldsins af samningamálum í grunnskólum og þar með óbeint í leik- og tónlistarskólum er eðlilegt að ríkið komi að þessum málum á öllum skólastigum enda ber menntamálaráðherra og þar með ríkisstjórnin höfuðábyrgð á menntamálum þjóðarinnar. Við höfum ítrekað heyrt um mikilvægi skólastarfs og nauðsyn þess að í skólunum starfi vel menntað og ánægt starfsfólk. Við þurfum ekki fleiri yfirlýsingar í þá veru. Við þurfum raunhæfar aðgerðir og úrbætur og það strax.“

Ég efast ekkert um vilja hæstv. ráðherra í þessum efnum þegar hún lýsir sýn sinni til öflugs skólastarfs en hún verður að átta sig á að það verður ekki slitið úr sambandi við kjör kennarana. Það er líka dálítið skondið til þess að vita að á Alþingi situr fjöldinn allur af þingmönnum sem hafa fengist við kennslu, um það bil 38% þingmanna hafa fengist við kennslu. Meiri hluti menntamálanefndar er skólafólk eða hefur fengist við kennslu, sex af níu nefndarmönnum ef mér telst rétt til. Ég tel því að þau sjónarmið sem ég hef orðað hér eigi hljómgrunn í menntamálanefnd og ég kem til með að tryggja það að þetta verði eitt af þeim stóru atriðum sem við skoðum eða fjöllum um þegar nefndin fær málin inn til sín og við hefjum að funda um þau.

Hæstv. forseti. Samræmd könnunarpróf eða samræmdu prófin. Ég get ekki skilið svo við þessa umræðu að nefna þau ekki. Ég held að það fyrirkomulag sem hér er lagt til sé til bóta frá því sem nú er haft á. Þó er ég eiginlega sannfærð um að við eigum eftir að fá inn á okkar borð fleiri hugmyndir frá skólafólki sem gætu verið mjög spennandi. Ég lít svo á að sú hugmynd sem rædd er í grunnskólafrumvarpinu sé ein möguleg leið en ég treysti því að menntamálanefnd fái frelsi til að fara ofan í saumana á öðrum hugmyndum sem ég þekki og veit að eru á sveimi í samfélaginu og ekki síst meðal skólafólks. Við höfum þar ákveðið verk að vinna að skoða þær hugmyndir sem eru úti í samfélaginu og jafnvel gætum við átt von á að einhverjar breytingartillögur kæmu frá nefndinni, mögulega breytingartillögur sem leiði til þess að einstaklingsmiðuð próf verði þróuð áfram. Ef við ætlum í alvöru að tryggja einstaklingsmiðað nám þurfum við kannski fyrr en okkur grunar að fara að stíga skrefið til einstaklingsmiðaðra prófa líka.

Mikilvægt er að taka nýjungar í kennsluháttum til umræðu líka í þessu sambandi. Skólarnir hafa á undanförnum árum lagt inn á braut nýjunga eftir því sem fjárhagur þeirra hefur leyft og ég veit til þess að fjöldinn allur af hugmyndum hefur verið til staðar í skólunum en kannski ekki svigrúm til að fara út í allar þær nýjungar af fjárhagslegum ástæðum. Eina nýjung langar mig til að nefna sérstaklega. Mér þykir það líka viðeigandi út af niðurstöðu PISA-könnunarinnar sem rætt var um áðan og við fjölluðum lítillega um í morgun. Þar eru vísbendingar um að ákveðnir þættir í náttúrufræði séu veikir hjá íslenskum nemendum en það er nýjung í íslenskum skólum, og ég veit um einn og kannski tvo eða þrjá skóla í viðbót sem eru að reyna að koma slíkri nýjung af stað, en það er útikennsla í náttúrufræði. Það er alveg til fyrirmyndar þegar skólar fá tækifæri og eiga möguleika á að koma jafnkraftmiklum hugmyndum í verk eins og útikennslu í náttúrufræði. Náttúruskóli Reykjavíkur er nýjung sem verið er að prufukeyra í ákveðnum skólum borgarinnar og ég tel nauðsynlegt að gert verði ráð fyrir því í skólunum og lögunum að skólarnir hafi möguleika á svona nýjungum og mér sýnist þannig búið um í texta frumvarpanna að það sé beinlínis gert ráð fyrir slíku.

Mig langar til að nefna eitt atriði í viðbót sem hæstv. menntamálaráðherra nefndi svo að segja í framhjáhlaupi í ræðu sinni og það er raunfærnimatið en ég hef mikinn áhuga á því mati og fullorðinsmenntun. Ég tek undir þau sjónarmið sem við höfum verið að reyna að ryðja braut í skólakerfi okkar og ekki bara þar heldur í samfélaginu að við séum að læra allt lífið. Ég hef leyft mér að líta svo á að með setu minni á hv. Alþingi Íslendinga sé ég í sjálfu sér að taka út mína háskólamenntun, fer í nýjan kúrs nánast við hvert nýtt mál sem kafað er djúpt í. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og stjórnmálaflokkurinn höfum unnið menntastefnu sem gerir ráð fyrir að löggjöf um fullorðinsfræðslu verði endurbætt mikið og við þurfum í því sambandi að hafa raunfærnimatið og fullorðinsfræðsluna í huga þegar við skoðum á hvern hátt við búum skólakerfið okkar út, leikskólana, grunnskólana og ekki síst framhaldsskólana. Það skiptir máli að við áttum okkur á að við erum að leggja grunninn að framtíð þjóðarinnar með skólakerfinu og færni einstaklinganna til framtíðar skiptir okkur öll verulegu máli. Ég tel líka að fólk sem ekki hefur átt þess kost að öðlast menntun í kraftmiklu eða öflugu skólakerfi en starfar úti á akrinum, fólk á öllum aldri, þurfi að fá viðurkenningu á því starfi sem það hefur unnið og á þeirri menntun sem það hefur aflað sér í gegnum starf sitt. Nauðsynlegt er að skólakerfið viðurkenni að fólk öðlast færni með starfi sínu og að sú færni verði viðurkennd, hún sé metin formlega og verði formlega viðurkennd. Þetta skiptir máli fyrir sjálfsmynd fólks og hvernig fólki tekst að vera þátttakendur í samfélaginu og sinna lífi sínu og lifa hnarreist ævina á enda. Raunfærnimatið er verulega öflugt og þýðingarmikið tæki sem ég tel eðlilegt að við skoðum í þessu sambandi til að tryggja því fólki sem þarf að fara í gegnum slíkt mat tækifæri til þess og það eigi þess kost að fá viðurkenningu á þeirri færni og menntun sem það í sjálfu sér hefur öðlast í gegnum það að vera nýtir þjóðfélagsþegnar starfandi í ólíkum greinum.

Hæstv. forseti. Ég hef farið vítt og breitt í ræðu minni og kannski fremur óskipulega, óskipulegar en ég hafði vonað, en þegar maður er með mikið undir fer maður úr einu í annað. Það sem mig langaði til að segja að lokum varðar tilhneigingu núverandi ríkisstjórnar, a.m.k. Sjálfstæðisflokksins og síðustu ríkisstjórnar, til að opna á einkarekstur í grunnskólanum og ekki bara í grunnskólanum heldur í skólakerfinu öllu. Við samþykktum breytingu á lögum um grunnskóla árið 2006 þar sem í 56. gr. er gert ráð fyrir að einkaaðilar eigi þess kost að fá viðurkenningu á námi sem boðið yrði á grunnskólastigi og gert er ráð fyrir því að grunnskólar af því tagi, einkareknir grunnskólar sem hljóta viðurkenningu samkvæmt lögunum frá menntamálaráðuneytinu, eigi rétt á framlagi úr viðkomandi sveitarsjóði til starfsemi sinnar vegna nemenda sem hafa lögheimili í því sveitarfélagi sem skólinn starfar í. Getið er um það í lagagreininni að framlagið skuli nema að lágmarki 75% af vegnu meðaltali heildarrekstrarkostnaðar allra grunnskóla sem reknir eru af sveitarfélögum í landinu á hvern nemanda samkvæmt árlegum útreikningi Hagstofu Íslands. Þetta hlutfall gildir fyrir skóla með allt að 200 nemendur en framlagið skal vera að lágmarki 70% fyrir hvern nemanda umfram þann fjölda. Með þessari lagagrein, 56. gr. laganna, var opnað á einkarekstur sem hefur möguleika á að vera stærri að umfangi en verið hefur hingað til. Ekki hafa margir aðilar kvatt sér hljóðs á þessu sviði eða farið út í rekstur af þessu tagi en engu að síður er þarna möguleiki sem ég held að geti, ef ekki er þeim mun betur á málum haldið, stofnað til eða leitt af sér ákveðinn ójöfnuð í menntun barna okkar. Ég tel mjög nauðsynlegt að varast það að ýta um of undir að einkaskólar líti dagsins ljós.

Ég tel eitt tæki öðru fremra vera það kraftmikið að við eigum að nýta það að þessu leyti og það er fjölbreytni í skólastarfi. Við þekkjum öll einkarekna skóla sem kenna sig við Hjallastefnuna, það er afskaplega skemmtileg og spennandi uppeldisstefna sem rekin hefur verið af miklum krafti og sett fram af mikilli fagmennsku af upphafsmanni þeirrar stefnu og ég vil meina að hún auðgi skólastarf til mikilla muna. Ég hef hins vegar leyft mér að gera athugasemdir við að sú stefna skuli endilega þurfa að vera rekin í einkaskólum. Ég vil leyfa mér að halda fram því sjónarmiði að stefna af því tagi eigi að rúmast innan opinbera kerfisins og ekki bara Hjallastefnan heldur aðrar skólastefnur eftir því sem fólk óskar og ég nefni kannski sérstaklega í því sambandi Waldorf-stefnuna, stefnu Rudolfs Steiners. Þegar við skoðum þessi frumvörp og þá sérstaklega grunnskólafrumvarpið og leikskólafrumvarpið verðum við að átta okkur á að nýjar uppeldisstefnur hafa verið að ryðja sér til rúms og þær hafa verið að sanna ágæti sitt á síðustu áratugum. Það er orðið algerlega nauðsynlegt að við búum til rými fyrir þessar uppeldisstefnur innan opinbera kerfisins þannig að það verði ekki eingöngu efnameiri foreldrar sem hafi tök á að senda börnin sín í skóla sem reknir eru samkvæmt hugmyndum einkaskólanna eða samkvæmt hugmyndum sérstakrar uppeldisstefnu eins og Hjallastefnunnar. Ég tel verulega mikilvægt að opna á fjölbreytni af því tagi í skólastarfinu og það sé tímanna tákn.

Hæstv. forseti. Ég tók með mér í ræðustól smárit frá Sambandi ungra sjálfstæðismanna sem gefið var út 2004 og fjallar um breytt rekstrarform og betri menntun. Þar eru þrjár, fjórar greinar sem fjalla um einkaskóla og á hvern hátt ungir sjálfstæðismenn sjá fyrir sér að auka megi veg þeirra í skólakerfinu. Þar sem hæstv. menntamálaráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir á grein í þessu smáriti vil ég segja að þær hugmyndir sem ungir sjálfstæðismenn og eldri reyndar líka hafa talað fyrir í þessum efnum fara ekki algerlega hönd í hönd með þeim hugmyndum sem mér finnst vera í þessu frumvarpi. Ég er því að vona að hæstv. menntamálaráðherra hafi áttað sig á að til þess að víðtæk sátt náist um þessi frumvörp hafi verið þörf fyrir hana og ríkisstjórnina að feta ekki ýtrustu stefnumið eða hugmyndir sem fyrirfinnast í Sjálfstæðisflokknum heldur að reyna að sigla þarna einhvern meðalveg. Mér sýnist það á frumvörpunum og ég vona í einlægni að við eigum eftir að taka þessa umræðu í nefndinni vel ofan í grunninn þannig að við náum sátt um niðurstöðu á svipaðan hátt og mér sýnist hafa náðst um 10 spora samkomulagið sem hæstv. menntamálaráðherra gerði á endanum v ið Kennarasambandið en það 10 spora samkomulag er grunnurinn að þessum frumvörpum. Það kom ekki til af góðu að farið var út í það á endanum, það var vegna deilna um áform hæstv. menntamálaráðherra um styttingu framhaldsskólans. Það eimir enn þá eftir af hugmyndum um styttingu framhaldsskólans í frumvarpinu um framhaldsskólann en hefur þó verið farið miklu meira inn á þá braut en stefndi í á sínum tíma að búa til sveigjanleika á milli skólastiganna sem ég tel hafa verið rétta niðurstöðu. Sú niðurstaða náðist vegna samvinnu, vegna ákveðins samkomulags við kennara og ég vona og treysti að við náum ákveðnu samkomulagi og ákveðinni málamiðlun um þetta frumvarp í menntamálanefnd þó að ólík sjónarmið séu á milli þeirra sem standa yst á hægri kanti og hinna sem standa yst á vinstri kantinum.