Leikskólar

Föstudaginn 07. desember 2007, kl. 18:21:27 (2917)


135. löggjafarþing — 39. fundur,  7. des. 2007.

leikskólar.

287. mál
[18:21]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Málin sem við höfum rætt um í dag, hvort sem það tengist PISA eða heildstæðri menntalöggjöf, eru miklu mikilvægari en svo að maður fari að karpa við Framsóknarflokkinn um hver eigi hvað og hvort menntastefna Sjálfstæðisflokksins hljóti falleinkunn. Menntastefna Sjálfstæðisflokksins birtist í þeirri uppbyggingu sem staðið hefur yfir í skólakerfinu á síðastliðnum árum. Svo einfalt er það.

Ég fagna því að hv. þingmaður segir: Skólakerfið okkar er gott í heild. Ég er fegin því að hv. þingmaður sjái að sér varðandi það sem hann sagði fyrr í dag, varðandi það að tala niður skólakerfið. Eins og fleiri en ég bentu hv. þingmanni á er ekki verið að tala niður skólakerfi okkar. Við eigum að treysta fagfólkinu. En við eigum að taka alvarlega ábendingar í svona könnunum. Þetta er ekki algildur sannleikur.

Ég gagnrýni að sjálfsögðu sjálfa mig og alla þá sem hafa komið að mótun menntakerfisins. Þetta snýst ekki bara um menntamálaráðuneytið heldur og sveitarfélögin, kennaramenntunarstofnanir, Kennarasamband Íslands og foreldrasamtökin. Við þurfum öll að sameinast um það að taka þær ábendingar sem koma fram í svona könnunum og nota sem ákveðið tæki til að drífa okkur áfram í að ná enn betri tökum á skólakerfinu. Við þurfum að efla lesskilning í landinu til að skólakerfið verði enn betra og við stöndum okkur betur í þeim samræmdu könnunum sem gerðar eru. Ég tel þær mikilvægar þótt ákveðin gagnrýni hafi verið sett fram á þær.

Það er ýmislegt sem hefur ekki komið fram. Menn hafa til að mynda ekki metið hvaða áhrif langvinnt kennaraverkfall hafði á nemendur á þessu tímabili. Að sjálfsögðu hafði langvinnt og erfitt kennaraverkfall áhrif á frammistöðu nemenda í þessu sem öðru eins og við vitum. Þess vegna skiptir miklu að við náum sátt um breytingar á menntakerfinu, jafnmikilvægar og þær sem við höfum (Forseti hringir.) verið að ræða í dag. Við eigum að sýna metnað í þá veru.