Leikskólar

Föstudaginn 07. desember 2007, kl. 18:23:39 (2918)


135. löggjafarþing — 39. fundur,  7. des. 2007.

leikskólar.

287. mál
[18:23]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessa umræðu mikið lengri. Ég vil enn og aftur ítreka að fyrr í dag var bent á þessa PISA-könnun og áréttað að við ættum að taka hana alvarlega.

Sjálfstæðismenn töldu að með því væri ég að tala niður menntakerfið. Ég var ekki að tala niður menntakerfið og ég frábið mér allan slíkan málflutning.

Ég bendi á að við framlagningu þessara frumvarpa er á vissan hátt, sérstaklega varðandi framhaldsskólana, verið að umbylta þeirri stefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft, sérstaklega varðandi miðstýringu í framhaldsskólum landsins. Nú er stefnt að því að minnka miðstýringuna. Ég fagna því að mörgu leyti en ég bið menn að fara samt varlega og hlaupa ekki algjörlega frá einum pólnum til annars.

Örstutt, varðandi fermingarfræðsluna, vegna þess að ég kom því ekki að. Ég beindi þeim tilmælum til menntamálaráðherra að draga til baka þau tilmæli sem hún beindi að skólastjórnendum grunnskóla. Það er einfaldlega þannig að tilmælin segja að óheimilt sé að veita leyfi til fermingarfræðslu. Hæstv. menntamálaráðherra hefur sagt, og ég fagna því, að bæði kirkjunnar menn og foreldrar hafi leyfi til þess að biðja. Eftir sem áður standa þessi tilmæli. Ég tel að það sé réttast, og þetta eru mjög vinsamleg ábending, að draga þau til baka. Ég get ekki lesið annan skilning í þau en að skólastjórnendur verði að fara að þeim tilmælum sem til þeirra er beint. Þeim ber að gera slíkt samkvæmt lögum.