Leikskólar

Föstudaginn 07. desember 2007, kl. 18:25:46 (2919)


135. löggjafarþing — 39. fundur,  7. des. 2007.

leikskólar.

287. mál
[18:25]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég get náttúrlega ekki að því gert ef hv. þingmaður hefur notað óheppileg ummæli í dag. Fleiri en ég, fleiri en einn, fleiri en tveir og fleiri en þrír túlkuðu orð hans á nákvæmlega sama hátt og ég, þ.e. að hann hafi verið að tala niður, að framsóknarmenn hafi verið að tala niður skólakerfið. Mér fannst það miður. En gott og vel. Þetta var óheppilegt orðalag hjá hv. þingmanni.

Hins vegar er ekki verið að umbylta stefnunni sem hefur verið í gildi. Það er verið að breyta mjög miklu, það er algjörlega rétt. Við erum að fara úr mikilli miðstýringu yfir í meira frjálsræði. Það er alveg rétt. En af hverju er skólakerfið sem við búum við enn þann dag í dag uppbyggt eins og það er? Það er byggt upp á því tímabili er við höfðum bara einn háskóla. Við höfðum bara einn háskóla. Þá var ekki jafnmikið kallað eftir því að námsframboðið í skólunum væri jafnfjölbreytt og það þarf að vera í dag. Við verðum að taka tillit til þess að öll sú breyting sem hefur átt sér stað, ekki síst í atvinnulífinu en einnig á háskólunum, kallar á breytingar á öðrum skólastigum, ekki síst á framhaldsskólastigi.

Við leitum því eftir því að framhaldsskólarnir móti námsframboðið í takt við breytta tíma. Í takt við mun fjölbreyttara nám á háskólastigi og kröftugra og fjölbreyttara atvinnulíf en var á árum áður. Þetta verða menn að skilja. Þetta er lykillinn að breytingunum á skólakerfinu, sérstaklega því að minnka miðstýringuna. Við treystum fólkinu í skólunum til að móta námsframboðið til að það sinni þörfum nemenda en ekki síst þörfum háskóla og atvinnulífs.