Leikskólar

Föstudaginn 07. desember 2007, kl. 18:32:19 (2922)


135. löggjafarþing — 39. fundur,  7. des. 2007.

leikskólar.

287. mál
[18:32]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er kannski svolítið strembið hjá okkur, við erum að reyna að ræða hér fjóra hluti í einu í stuttu andsvari. Ég ætla því bara að halda mig við þetta síðasta í lokin. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin, við erum eiginlega algjörlega sammála um þetta nema kannski helst þetta með samræmdu prófin, þar er aðeins áherslumunur.

Um menntunina sem slíka þá er hún að sjálfsögðu mikilvægur þáttur í okkar velferðarsamfélagi í efnislegum skilningi. Það er alveg ljóst að hátt menntunarstig þjóða er eitt af því sem menn horfa til þegar metin er samkeppnisstaða þeirra í hnattvæddum heimi og allt þetta sem við þekkjum. Það kemur reyndar í ljós að Norðurlöndin standa þar mjög vel og skyldi það ekki vera vegna þess að þau eiga öflugt opinbert skólakerfi og öflugt norrænt, samábyrgt velferðarkerfi svona að því marki sem þau hafa komist til þroska hvert um sig sem slík, Ísland kannski skemmst og Finnar þar næst? Menntunin hefur svo gríðarlega djúprætta og mikla félagslega og mannlega þýðingu að það má bara aldrei gleymast og þess vegna er hættulegt að verða of upptekinn af hinum efnislega mælikvarða einum og gildi menntunarinnar fyrst og fremst til að útskrifa einstaklinga til þátttöku í atvinnulífinu og allt þetta tannhjól í gangverkið, sem oft vill svolítið bera menn af leið og bera menn ofurliði. Ég held t.d. að í þessari PISA-umræðu, þó að hún sé vissulega á sínum stað í skólakerfinu og ýmsar aðrar slíkar mælingar, séu menn oft að nálgast þetta út frá þessu sjónarhorni en séu ekki endilega að hugsa um gildi menntunarinnar fyrir einstaklinginn sjálfan, fyrir líf hans, í raun og veru óháð því hvernig hann notar menntunina eða hvort hann notar hana beinlínis við það sem hann síðan starfar við. Það er bara alveg fullgilt sjónarmið að menn langi til að mennta sig og fræðast og verða víðsýnni og öðlast þannig lífsfyllingu þó að þeir kjósi síðan að starfa við hluti á einhverju mjög þröngu sérsviði sem gerir mjög lítið með þá menntun sem þeir vildu afla sér sjálfs sín vegna sem einstaklingar og sem hluta af þroska sínum.