Leikskólar

Föstudaginn 07. desember 2007, kl. 18:34:34 (2923)


135. löggjafarþing — 39. fundur,  7. des. 2007.

leikskólar.

287. mál
[18:34]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það mætti ætla að maður væri að stofna hér einhvern aðdáendaklúbb gagnvart hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni en ég hafði mjög gaman af að hlusta einmitt á þessa svona ákveðnu predikun hans. Það skiptir máli að þetta verði rætt, hvort sem það er innan menntamálanefndar eða hér í þinginu, að við hugsum um það, spáum í það eins og oft er sagt, hvert við erum að fara með menntunina sem slíka. Auðvitað skiptir hún máli varðandi hvaða möguleika við höfum í lífinu og hvort sem hugur fólks stendur til að fara í læknisfræði eða sálfræði eða hvað það er þá verðum við náttúrlega að veita þau tækifæri í gegnum menntakerfi okkar.

En það sem mér hefur þótt hvað ánægjulegast varðandi þróun menntakerfisins, og við getum verið stolt af mörgu, fjölgun háskólanema og þess háttar, er að við sjáum í auknum mæli eldra fólk, fólk á öllum aldri koma inn í menntakerfið aftur. Af hverju er það? Ég held að það sé ekki síst vegna þess að fólk finnur þörf hjá sér fyrir fræðslu, af því að það hefur gildi fyrir sálartetrið að lesa meira, öðlast meiri skilning, vonandi dýpri skilning á lífinu og tilverunni. Þess vegna finnst mér alltaf jafnánægjulegt þegar maður gengur hér um borg og bý og hittir fólk á góðum aldri, á öllum aldri, sem segir: Já, veistu nú, Þorgerður, ég er byrjuð að læra aftur. Ég er farin á námskeið, ég er farin í háskólann eða ég er farin í menntaskólann aftur. Mér finnst þetta stórkostlegt við okkar kerfi, að við erum að bjóða öllum einstaklingum að koma og læra og mennta sig. Samfélagið þarf á því að halda, vissulega út frá debet og kredit en ekki síst út frá þeim lífsgildum sem við viljum að efld séu hér og styrkt.