Almannatryggingar o.fl.

Mánudaginn 10. desember 2007, kl. 18:19:23 (2992)


135. löggjafarþing — 40. fundur,  10. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[18:19]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg ljóst að nefndarálitið lýsir afstöðu minni hluta nefndarmanna í hv. heilbrigðisnefnd. Þar kemur skýrt fram sú afstaða að minni hlutinn telji hætt við því að slegið verði af faglegum kröfum um læknis- og hjúkrunarþjónustu á öldrunarstofnunum gangi ákvæði 20. gr. frumvarpsins eftir. Það stendur þarna alveg skýrum stöfum. Og hver er ástæðan? Ég get ekki eytt þessum misskilningi hv. formanns heilbrigðisnefndar með frekari svörum. Ég er búin að lýsa því, hv. þingmaður, að þau skil hvenær öldrun hættir að vera öldrun og verður sjúkdómur er hægt að teygja ef menn vilja. Það getur valdið togstreitu í fjárveitingum. Þegar hjúkrunarheimilin eiga að heyra undir eitt ráðuneyti og kostnaður og yfirstjórn heilbrigðisþjónustunnar á síðan að vera á hendi annars ráðuneytisins mun það kalla á togstreitu og auka flækjustigið eins og það var kallað í nefndinni.

Okkur þótti reyndar, sumum nefndarmönnum, sérkennilegt að það þyrfti að taka sérstaklega fram í lagatexta að heilbrigðisráðherra færi með yfirstjórn heilbrigðisþjónustu við aldraða. Af hverju ekki örvhenta eða í grænum skóm? Heilbrigðisráðherra á að fara með yfirstjórn heilbrigðisþjónustu í landinu, er það ekki? (Gripið fram í.) Já, og þess vegna er það að þegar verið er að flytja hjúkrunarheimilin undir félagsmálaráðuneytið (Forseti hringir.) erum við á rangri leið.