Almannatryggingar o.fl.

Þriðjudaginn 11. desember 2007, kl. 10:34:07 (2993)


135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[10:34]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð og sjúkratryggingar, um heilbrigðisþjónustu og málefni aldraðra svo og lög um eftirlaun til aldraðra.

Talsmenn okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði hafa farið almennum orðum um frumvarpið og málflutningur okkar hefur gengið út á að fresta beri gildistöku þessara laga sökum þess hve illa er að undirbúningi staðið.

Í nefndaráliti frá meiri hluta heilbrigðisnefndar segir að markmiðið með lagabreytingunum sé að gera heilbrigðis- og tryggingakerfið auðskiljanlegra og aðgengilegra almenningi. Það er markmið sem er að sönnu virðingarvert en jafnframt er lögð áhersla á að leiðin að þessu marki sé að skilgreina hlutverk ríkisins á nýjan leik, að það verði skilgreint sem kaupandi að heilbrigðisþjónustu og inn í þennan farveg hefur umræða um frumvarpið farið og mun ég víkja að því síðar í ræðu minni.

Fyrst aðeins um þær meginbreytingar sem gert er ráð fyrir með þessum lagabálki. Hugmyndin gengur út á að félags- og tryggingamálaráðherra fari með lífeyristryggingar en heilbrigðisráðherra verði áfram með forræði yfir slysa-, sjúkra- og sjúklingatryggingum. Gert er ráð fyrir að skipta upp starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins og að hún færist að hluta til undir félags- og tryggingamálaráðuneytið og sjái um framkvæmd lífeyristryggingahluta almannatrygginga og laga um félagslega aðstoð. Að sönnu er hægt að taka undir þá hugmynd að færa málefni aldraðra undir félagsmálaráðuneytið þótt erfiðara sé að koma auga á hitt að nauðsynlegt sé að kljúfa Tryggingastofnun upp enda þótt hún kæmi til með að heyra undir fleiri en eitt ráðuneyti.

Ég ætla að staldra við eina fullyrðingu í meirihlutaálitinu þar sem sagt er að öldrun sé ekki sjúkdómur. Það er alveg rétt en staðreyndin er hins vegar sú að þegar að við eldumst og þegar við verðum mjög gömul þurfum við meira á heilbrigðisþjónustunni að halda. Við viljum vera laus við ríkið og sveitarfélögin eins lengi og við mögulega getum, við viljum lifa okkar sjálfstæða lífi á heimili okkar þar til við þurfum á aðstoð að halda sökum sjúkleika. Þetta er staðreynd. Vandinn í okkar kerfi er sá hve vanbúið það er til að sinna öldruðu, sjúku fólki.

Við höfum verið að færast inn í þann farveg á undanförnum árum, sem ég tel vera mjög gott, að sinna eigi öldruðu fólki eins og kostur er á heimilum þess. Þetta viljum við helst sjálf, fólk vill vera heima eins lengi og nokkur möguleiki er. Ágæt regla sem sett var á blað fyrir nokkuð hundruð árum, og ég held ansi góð, hljóðar svo: Það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra. (Gripið fram í.) Þúsund ár, tvö þúsund ár.

Það sem við viljum fyrir okkur sjálf eigum að reyna að gera gagnvart öðru fólki líka. Ég held að hugsunin sé sú að við viljum helst vera heima hjá okkur eins lengi og kostur er eða þar til heilsan brestur. Þessi staðhæfing í álitinu er því ekki alveg rétt vegna þess að þegar við skilgreinum almannaþjónustuna og samspilið við aldrað fólk þá er það svo að fólk þarf á henni að halda þegar það er orðið veikt. Þá þarf það á heimahjúkrun að halda eða að komast inn á stofnanir þar sem það fær góða sjúkraaðhlynningu. Vandinn í okkar kerfi er sá að við gerum þetta ekki nægilega vel.

Við verðum vitni að því núna að á stofnunum aldraðra, á hjúkrunarheimilum eru að verða til aðstandendafélög sem boða til funda og rísa upp vegna þess að ekki er búið nægilega vel að öldruðu fólki. Hvernig stendur á því? Það skortir fjármagn og ekki er hægt að ráða fólk til starfa. Ekki er hægt að borga starfsfólkinu nægilega gott kaup, það er ekki hægt að tryggja því nægilega góð kjör. Þetta er vandinn en hvert er svar ríkisstjórnarinnar? Hvert skyldi vera svar Sjálfstæðisflokksins og Jafnaðarmannaflokks Íslands sem kallar sig svo? Jú, það er sú kerfisbreyting sem hér er verið að kynna, að búa til nýja sölumiðstöð fyrir sjúklinga þar sem heilbrigðiskerfið á allt að fara á markað. Hið góða við þetta kerfi er, segja menn, að það verði allt svo skýrt og klárt ef menn geri bara nógu skýra samninga. Vandinn er skortur á fjármagni og það er sá vandi sem ríkisstjórnin horfist ekki í augu við. Hvers vegna skyldi aðstandendafélagið á Skjóli vera að álykta? Hvers vegna skyldi aðstandendafélagið á Droplaugarstöðum vera að álykta? Vegna þess að ekki er hægt að sinna skyldfólki þessa fólks nægilega vel inni á þessum stofnunum því að þær skortir fjármagn.

Ég ætla að staldra aðeins við þá hugsun sem hér er og ég vék að áðan, að gera eigi kerfið skilvirkara og skilgreina hlutverk ríkisins sem kaupanda heilbrigðisþjónustu. Þessi hugmyndafræði fór að ryðja sér til rúms á síðasta áratug. Hugsunin var sú að hlutverk stjórnmálanna ætti að vera að skilgreina þarfir og ákveða hve mikið fjármagn ætti að renna til þeirrar starfsemi sem við yrðum ásátt um að koma á laggirnar til að sinna þessum þörfum. Pólitíkin ætti að ákveða hvað ætti að gera og hvað það ætti að kosta. Síðan skipti engu máli hver framkvæmdi, hvort það væri ríkisstofnun, stofnun á vegum sveitarfélags eða einkarekin stofnun. Þetta er sú hugsun sem býr að baki hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar. Sú hugmyndafræði gengur út á það núna, hún breyttist í kringum 1997 eða 1998 hjá Sjálfstæðisflokknum, að skattborgarinn eigi að fjármagna heilbrigðisþjónustuna en það skipti ekki máli hver framkvæmi hana svo fremi sem hún byggi á skýrum, góðum samningum. Þetta er hugsunin.

Við fengum að kynnast lagasmíð árið 1996 sem kom til framkvæmda í byrjun árs 1997 sem gekk út á nákvæmlega þetta. Farið var að breyta öllum hugsunargangi hjá hinu opinbera. Valdið átti að færast út á stofnanir sem áttu að fá ákveðna fjárupphæð til ráðstöfunar og þær áttu að vera sjálfráðar um það hvernig þær verðu þessum peningum. Kjarasamningar fóru inn í þennan farveg líka og farið var að tala um stofnanasamninga.

Hugmyndafræði þessi er ekki ný af nálinni og ekki bundin við Ísland eitt, þetta er hugsun sem er almennt ríkjandi í Evrópu núna og er mjög í tísku þar. Það eru líka tískusveiflur í pólitíkinni eins og támjóu skórnir á sínum tíma og háu hælarnir. Það verða til svona patentlausnir sem allt eiga að laga og þetta er ein af þeim, að búa til skýra samninga. Þeir eru óskaplega skýrir. Á öldrunarstofnunum á t.d. að segja í samningunum að fólk eigi að fá gott að borða, það eigi að vera súpa í hádeginu. Síðan á eftirlitsstofnun að koma til að ganga úr skugga um að það sé raunverulega súpa í pottinum en ekki bara naglasúpa. Smám saman færumst við yfir í farveg eftirlitsþjóðfélagsins. Skýrir samningar og síðan eftirlitsstofnanir sem eiga að sjá til þess að samningum sé fullnægt.

Út á það gengur hugsunin núna. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur skírskotað til þess að í Svíþjóð séu menn búnir að koma svona fyrirkomulagi upp. En hvernig hefur það gefist? Er hæstv. ráðherra kunnugt um að það er mjög gagnrýnt? Ætlar hæstv. ráðherra að reyna að koma sér fram hjá því að taka þessa umræðu við okkur á Alþingi? Á að koma sér fram hjá því að fara í saumana á þessum kerfisbreytingum á Norðurlöndum sem menn róma svo mjög og er reyndar ekki alls staðar búið að koma á, síður en svo.

Við þurfum að taka þessa umræðu ofan í kjölinn, skoða þessi kerfi áður en við rösum um ráð fram. Tillaga okkar er sú að sá hluti þessa frumvarps sem snýr sérstaklega að þessum kerfisbreytingum verði látinn bíða og okkur gefinn kostur á að taka þessa umræðu, skoða þessar breytingar með hliðsjón af reynslunni á Norðurlöndunum og annars staðar áður en við gefum hæstv. heilbrigðisráðherra Guðlaugi Þór Þórðarsyni óútfylltan tékka. Hann fer fram á það.

Hann óskar eftir því að nú fyrir jólin veitum við honum heimild til að setja á laggirnar sölumiðstöð sjúklinga, að hann fái heimild til að ráða forstjóra núna, skipa stjórn núna, enda þótt í frumvarpinu sé boðað að með vorinu komi frumvarp um hina eiginlegu stofnun. Hann vill líka fá óútfylltan tékka til að skapa þessari stofnun reglur. Hvers vegna segi ég þetta? Vegna þess að það í 18. gr. segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:

Starfrækja skal stofnun undir yfirstjórn heilbrigðisráðherra sem hefur m.a. það hlutverk að annast kaup, greiðslur og samninga um heilbrigðisþjónustu og framkvæmd þeirra málaflokka almannatrygginga sem heyra undir heilbrigðisráðherra.

Ráðherra skipar forstjóra stofnunarinnar til fimm ára í senn. Forstjóri skal hafa lokið námi á háskólastigi. Forstjóri ræður aðra starfsmenn stofnunarinnar og annast daglegan rekstur hennar.

Ráðherra skipar fimm menn í stjórn stofnunarinnar og skal einn skipaður formaður stjórnar og annar varaformaður. Ráðherra setur stjórninni erindisbréf.“

Þetta vill hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin að við samþykkjum núna. Ef við flettum upp á hvað segir um þessa grein, þá er það eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Í greininni er lagt til að kveðið verði á um í ákvæði til bráðabirgða að sett verði á fót stofnun sem heyri undir heilbrigðisráðherra og hafi m.a. það hlutverk að annast kaup, greiðslur og samninga um heilbrigðisþjónustu og sinni sjúkra- og slysatryggingum. Gert er ráð fyrir að nánar verði kveðið á um skipulag og hlutverk þessarar stofnunar í sérstöku frumvarpi sem lagt verði fram á vorþingi árið 2008.

Að öðru leyti vísast til almennra athugasemda við frumvarpið.“

Með öðrum orðum: Leggja á fram frumvarp á vorþingi um þessa stofnun sem við eigum væntanlega ræða í þingsal en áður ætlar hæstv. ráðherra að fá heimild til að ráða forstjórann og skipa stjórnina, áður en við tökum þessa umræðu. Hvers vegna segi ég þetta? Vegna þess að hæstv. ráðherra sagði það hér í umræðunni í gær. Ég er með útskrift af ræðu hans, andsvör við ræðu hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur í gær þar sem fram kemur að ráðherra ætlar að ráðast í að skipa forstjórann og stjórnina núna áður en við tökum þessa umræðu. Hvers konar vinnubrögð eru þetta eiginlega? Hvers konar lýðræði er þetta? Er ekki eðlilegt að við tökum þessa umræðu núna strax áður en við veitum hæstv. heilbrigðisráðherra Sjálfstæðiflokksins óútfylltan tékka?

Hæstv. forseti. Þar sem ég tel ekki miklar líkur á að ríkisstjórnin fallist á að fresta þessum bandormi sem unninn er á handarbakinu og allir þekkja og við erum að gagnrýna og viljum helst fá að fresta — ég held að við náum því vart fram að fresta öllum lagabálkinum, ég hef ekki trú á því — þá ætti það að vera til samkomulags að taka þá þætti út úr lögunum sem mestur ágreiningur er um. Ég er að reyna að færa rök fyrir því að um þessa tilteknu lagagrein er mikill ágreiningur. Ég sé ekki hvers vegna ekki væri hægt að fresta þessari lagagrein einfaldlega vegna þess að stofnunin á ekki samkvæmt því sem segir í frumvarpinu að taka til starfa fyrr en næsta haust, 1. september er dagsetningin. (Gripið fram í: Í síðasta lagi.) Í síðasta lagi, segir hæstv. ráðherra.

Er til of mikils ætlast að við fáum að taka þessa umræðu? (ÁMöl: Við erum að því.) Erum við að taka þessa umræðu? Ég tel þetta ekki nægjanlegt. Ég tel að það eigi að gefa okkur tækifæri til að fara í saumana á þessum málum. Það er nóg að senda hv. þm. Pétur H. Blöndal og fulltrúa frá Samfylkingunni í tveggja daga túr um Norðurlöndin og allt sé bara klappað og klárt eftir það. Halda menn að að hægt sé að sætta sig við slík vinnubrögð?

Við höfum reynt að afla okkur skýrslna frá Norðurlöndunum um fyrirkomulagið þar á síðustu dögum og þurfum á meiri tíma að halda til að skoða þessi mál og fara ofan í kjölinn á þeim. Það kerfi sem vísað er á í Svíþjóð hefur ekki reynst vel, það er bara staðreynd. Ég tala af nokkurri þekkingu um þetta vegna þess að ég hef reynt að leggja mig eftir því hvernig aðrar þjóðir skipa þessum málum. Ég er orðinn þreyttur á svona patentlausnum sem öllu eiga að bjarga. Muna menn eftir rafmagnseftirlitinu? Muna menn hvernig það átti að stórbæta rafmagnseftirlitið? Það var kerfi sem nánast flestir í þessum sal féllu fyrir á sínum tíma af því það hljómaði svo vel. (PHB: Hver er á móti því?) Ég er á móti því og ég tel að það hafi reynst afar illa. En vegna þess að hv. þm. Pétur H. Blöndal lýsir áhuga á þessari umræðu skal ég upplýsa hann um hana.

Fyrr á tíð voru allar íbúðir, öll fyrirtæki, allar nýjar byggingar skoðaðar af rafmagnseftirlitsmönnum. Síðan var búið til kerfi sem var á þá lund að allar nýbyggingar áttu að sæta úrtaksskoðun af svokallaðri skoðunarstofu, einkareknar skoðunarstofur sem komið var á fót áttu að annast þessa úttekt. Ég held að öllum sem þekkja til þessara mála beri saman um að rafmagnseftirliti á Íslandi hefur stórhrakað í seinni tíð og það sem meira er, það er orðið miklu dýrara en það var áður.

Við vöruðum við að það sem að öllum líkindum mundi gerast væri að þessi starfsemi, þetta eftirlit sem var um allt land, mundi færast til Reykjavíkur og komast á hendi eins eða tveggja fyrirtækja sem síðan færu um landsbyggðina með ærnum kostnaði til að annast þessa úrtaksskoðun. Þetta hefur gerst. Þetta er rándýr einoknarstarfsemi sem er stýrt héðan frá höfuðborgarsvæðinu. Það var varað við þessu og sérfræðingar innan úr kerfinu vöruðu við þessu líka. En á þinginu þótti þetta svo flott patentlausn nákvæmlega eins og er að gerast núna. Það á að laga allt með því að koma á fót sérstakri sölumiðstöð sem á að annast samninga við Droplaugarstaði, Skjól og Landspítalann og þá á allt að vera í fínu lagi. Skilja menn ekki hver vandinn er? Vandinn er peningarnir, fjármagnið og forgangsröðunin og það er hún sem veldur því að þessar stofnanir eiga nú í erfiðleikum.

Hvað er að gerast innan heilsugæslunnar? Við erum að fá upplýsingar um það núna á hverjum degi í fjölmiðlum, eða á Landspítalanum þar sem framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins, sem núna heitir Samtök atvinnulífsins, fer um gangana með niðurskurðarsveðju og krefst þess að menn skeri niður um nokkur prósent, bara samkvæmt reglustiku á hverri deild. Þetta er að gerast. Og ef við skoðum skýrslur um fjárhag Landspítalans kemur í ljós að á undanförnum átta árum hefur fjármagn til þeirrar stofnunar minnkað að raungildi. Þegar Ríkisendurskoðun fór í saumana á þeim málum fyrir nokkrum árum, ég held að það hafi verið árið 2005 og kannaði árin fram að þeim tíma frá 1999, komst hún að raun um að framleiðni vinnuafls á spítalanum hefði aukist um 12,6%. Hvað þýðir það? Sama fólk er að gera meira sem þessu nemur en það gerði nokkrum árum fyrr. (Gripið fram í: Betur.) Eða betur. Það er ekki bara það, álagið á deildum Landspítalans er víða orðið hættulega mikið. Þetta segja þeir sem best þekkja til og ég þekki nokkuð inn í þeirra raðir. Hv. þm. Ásta Möller, sem á sínum tíma var formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, gerir það líka. Hún þekkir líka hvert ástandið er, hvert álagið er á þessar stéttir, sjúkraliðana, á hjúkrunarfræðingana og læknana. Og áfram á að skera niður.

Nú þegar forsvarsmenn Landspítalans segja að þeir geti ekki meir, þetta sé orðið hættulegt, ef fjárlagafrumvarpið verði samþykkt óbreytt blasi við hættuástand á Landspítalanum. Hvert er svar ríkisstjórnarinnar? Setjum upp sölumiðstöð, lögum þetta með skýrum samningum. Hvað mundi breytast með því fyrirkomulagi? Ég veit hvað breytist, ábyrgðin, og út á það gengur málið. Ábyrgðin yrði sett fjær stjórnvöldum. Málið gengur út á það, að búa til sölusamninga, skýra samninga, segja menn, og síðan eiga menn að standa og falla með þeim samningum sem þeir gera. Það er málið. Þetta eru menn að reyna að gera.

Ég er sannast sagna svolítið hissa á því að Samfylkingin skuli samþykkja þetta, að Samfylkingin skuli a.m.k. ekki vilja leyfa okkur að taka þessa umræðu og afla gagna erlendis frá. Hver er reynslan frá Svíþjóð? Hver er reynslan þar sem menn hafa farið út á þessar brautir? Er hún góð? Ég held að hún sé ekkert sérstaklega góð. Þurfum við ekki að ræða það og þurfum við ekki að kanna það? Á bara að gefa hæstv. heilbrigðisráðherra Guðlaugi Þór Þórðarsyni óútfylltan tékka? Hann má hafa þetta eins og hann vill, bara drífa í því að ráða forstjóra, skipa fimm manna stjórnarnefnd og síðan ætlar hann að setja reglurnar. Með vorinu megum við svo ræða afurðina á þinginu og stimpla hana. Svona vinnubrögð ganga ekki.

Ég bið þingmenn að íhuga það til samkomulags í þessu máli, hvað varðar þetta tiltekna frumvarp, að fresta gildistöku þessarar greinar, taka hana út úr frumvarpinu og gefa okkur tækifæri til að ræða hana betur vegna þess að við erum að tala um grundvallarbreytingar á heilbrigðiskerfinu sem hlýtur að vera lýðræðisleg sanngirniskrafa að við fáum að ræða betur.

Ég ætla að láta frekari umræðu bíða að sinni. Ég mun eflaust eiga eftir að taka aftur til máls um þetta frumvarp en hefði hug á að heyra álit hæstv. heilbrigðisráðherra á tillögu okkar um að fresta þessari lagagrein.

Eitt leikur mér líka forvitni á að heyra. Það hefur verið talað um það hér í þingsal og í fjölmiðlum að ríkisstjórnin og þá sérstaklega Sjálfstæðisflokkurinn sé að svelta heilbrigðiskerfið til einkarekstrar, til kerfisbreytingar. Ég hef t.d. heimildir fyrir því að á Landspítalanum standi fyrir dyrum að útvista læknaritarastarfinu. Það eigi að fara með læknaritarastarfið út fyrir veggi stofnunarinnar. Vegna þess að það sé betra? Nei, það er vegna þess að það er stefna Sjálfstæðisflokksins. Það er skipun frá Sjálfstæðisflokknum. Það er vegna þess að hæstv. ráðherra Guðlaugur Þór Þórðarson gaf þá skipun um leið og hann sté inn í ráðuneytið að nú ættu menn að einkavæða hvað best þeir gætu. Þetta var bara skipun. Þetta voru pólitísk boð sem gengu út í heilbrigðiskerfið, að menn skyldu vita það að hans lína væri sú að þar sem væri kostur að nota einkarekstur þá ættu menn að gera það, er það ekki rétt? (Heilbrrh.: Það er langt síðan ég hef hlustað á eins mikið rugl.) Það er langt síðan hæstv. ráðherra hefur hlustað á eins mikið rugl. Ég held ekki. (Heilbrrh.: Heldurðu ekki?) Nei, ég nefnilega held að þetta hafi verið sagt nákvæmlega svona enda er þetta stefna Sjálfstæðisflokksins. Er maðurinn að hnussa við henni? Að það sé algert rugl að Sjálfstæðisflokkurinn vilji beita aðferðum einkarekstrar í heilbrigðiskerfinu? Er það ekki stefna flokksins? Er það ekki stefna hæstv. ráðherra?

Vill hæstv. ráðherra koma í ræðustól og skýra fyrir okkur hver stefna ráðherrans og ríkisstjórnarinnar sé innan heilbrigðiskerfisins? Að gefnu tilefni vil ég spyrja: Er hæstv. ráðherra því fylgjandi að ritarar á Landspítalann séu sóttir utan veggja sjúkrahússins? Þar á bæ eru menn að ræða það að vegna fjársveltis hefur ekki verið hægt að sinna því starfi sem skyldi og nú er verið að hrekja menn í útvistun á því starfi. Hverjir skyldu helst hafa áhuga á því? Hvaða fyrirtæki skyldu það vera? Gæti verið að það tengdist lyfjaiðnaði? Gæti það verið? Getur verið að lyfjafyrirtækin hafi sérstakan áhuga á því að sjá Landspítala fyrir riturum? Hv. þingmaður Ásta Möller hristir höfuðið. En eigum við að skoða málið? Væri ráð að fjölmiðlar skoðuðu þetta mál hvort það gæti verið að gerast að lyfjafyrirtæki sem eru að setja upp ritaraþjónustu vilji hasla sér völl innan Landspítalans? Eigum við að skoða þetta? Ég held að núna væri ráð að opna heilbrigðisstofnanir landsins fyrir fjölmiðlum og þeir fari svolítið í saumana á því sem þar er að gerast.

Ég vil líka fá að vita eitt enn: Á sama tíma og framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins fer um ganga Landspítalans með niðurskurðarsveðju vil ég fá að vita hvað er að gerast gagnvart sérfræðingum í tryggingakerfinu. Eru sömu kröfur settar fram gagnvart þeim? Eru þar sömu kröfur um niðurskurð, um hagræðingu eða gæti verið að hugsunin gangi út á það að skera niður hjá heilsugæslunni, að skera niður hjá Landspítalanum, á sjúkrahúsinu á Akureyri, fyrir austan og um allt land en færa starfsemina til einkaaðila? Enda er það stefna Sjálfstæðisflokksins. Mér finnst það vera tíðindi ef hæstv. heilbrigðisráðherra er farinn að hnussa við þessari stefnu. Hann hefur aldrei heyrt meira rugl en að Sjálfstæðisflokkurinn vilji einkarekstur í heilbrigðiskerfinu. Finnst hv. þm. Ástu Möller það kannski rugl líka? Það væri fróðlegt að heyra. Vilja þau ekki gangast við eigin stefnu? Þjóðin fær staðfestingu á því, nánast hvern einasta dag, að það er verið að skera niður hjá sjúkrahúsunum, hjá heilsugæslunni og forsvarsmenn þessara stofnana koma fram í fjölmiðlum og vara við því sem er að gerast. Það á að fara að loka mæðraskoðun, það á að fara draga úr heimahjúkrun. Ég fagnaði því þegar hv. þm. Ásta Möller kom í ræðustól og mótmælti því í gær kröftuglega. Það var gott vegna þess að það að standa vörð um heilbrigðisþjónustuna í landinu á að vera þverpólitískt mál. Síðan getum við tekið þá umræðu og það er pólitík, hvernig hún er best skipulögð. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum sagt að heilbrigðisþjónustuna, þessa grundvallarþjónustu eigi ekki að skipuleggja eins og hvern annan atvinnurekstur.

Við erum ekki andvíg því að til séu sjálfstæðar stofnanir eins og SÍBS og Hrafnista, sprottnar úr samtökum sjúklinga og úr samtökum sjómanna, sjálfseignarstofnanir þar sem hver króna fer inn í reksturinn. Þetta er allt annað dæmi en það sem er að gerast núna innan veggja Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur eða í Mosfellssveitinni, það er allt annað. Þar á að setja upp sjúkrahús sem á að skila eigendum sínum arði og það er þarna sem skilin liggja. Hvers vegna komst Ríkisendurskoðun að þeirri niðurstöðu að Sóltún var dýrara fyrir skattborgarann en aðrar stofnanir fyrir aldraða? Hver var skýringin á því að skattborgarinn borgar meira til Sóltúns en til annarra öldrunarstofnana? Jú, það er vegna þess, sagði Ríkisendurskoðun, að Sóltún á að skila eigendum sínum arði, Öldungi hf. Þarna liggur munurinn og þarna liggja hin pólitísku landamæri. Það er þetta sem við erum að vara við. Við erum ekki andvíg Hrafnistu, því rekstrarformi sem þar er, alls ekki, það er ágætt. Það er ekki sett á laggirnar til að skila sjómönnum arði. Það er til að búa vel að íslenskum sjómönnum í ellinni. Það var hugsunin. Aðrir borgarar njóta einnig góðs af því og við borgum það með mikilli ánægju og viljum borga miklu meira. En þetta er að breytast.

Nú hefur verið tekin ákvörðun um, eða ríkisstjórnin hefur tekið þá ákvörðun, kannski vegna seinagangs og aulaháttar í vinnubrögðum við Landspítalann að framkvæmdir þar eru ekki komið lengra á veg og því ekki hægt að nýta þær 700 millj. sem ætlað var til byggingarinnar núna, en þá á að fresta þeim. Margir hafa haft áhyggjur af þenslu á suðausturhorninu og hugsað sem svo að kannski væri ráðlegt að fara hægt í sakirnar í stórframkvæmdum og ég er t.d. þeirrar skoðunar. En mun það gerast? Nei, það mun nefnilega ekki gerast vegna þess að í staðinn verður byggt sjúkrahús í Garðabæ, einkarekið, og út á það gengur heila spilið. Sveltum Landspítalann og þá verður byggt í Garðabænum. Nú á að fara að opna í gamla heilsuverndarhúsinu við Barónsstíg. Hvað skyldi það eiga að heita, nýja einkarekna sjúkrahúsið? Heilsuverndarstöð Reykjavíkur t.d.? Ég held það. Ég held að það sé það sem þeir ætla að kalla fyrirtækið. Hver á að borga það? Við eigum að borga það. Hver borgar fyrir sneiðmyndatækin í Domus Medica? Við, við borgum hverja einustu krónu. (Gripið fram í: Mjög hagkvæmt.) Mjög hagkvæmt, segir hv. þingmaður. En það sem ég er að leiða rök að er að einkaaðilar eru farnir að stýra ferðinni. Þeir byggja sín sjúkrahús, sínar stofnanir og eru með Sjálfstæðisflokkinn sem er kominn inn á þá línu að skattborgarinn eigi að borga fyrir þetta allt, við stjórn en eigum við þá ekki að ráða hvað er gert? Eigum við ekki að stýra þessari þróun? (Gripið fram í.) Jú, segir hv. þingmaður en þannig gerist það ekki.

Þegar fólk fer til læknis sem kemst að þeirri niðurstöðu að senda þurfi sjúklinginn í myndatöku, t.d. í nákvæma sneiðmyndatöku, þá tekur læknirinn iðulega ákvörðun um að senda sjúklinginn í Domus Medica í stað þess að senda hann á Landspítalann. Sú ákvörðun er ekki bara læknisfræðileg, hún er fjárhagsleg vegna þess að með ákvörðun sinni er læknirinn að beina fjármagni skattborgarans upp í Domus Medica. Ég get sagt frá því að einn ágætur vinur minn sem lá mjög þungt haldinn á Landspítalanum vegna höfuðmeins og þurfti að fara í mjög nákvæma myndatöku var sendur upp á Domus Medica vegna þess að eins gott tæki var ekki að finna á Borgarspítalanum þar sem hann lá. Hver hafði borgað fyrir tækið? Við, skattborgarar. Það sem ég er að leggja áherslu á er að valdið yfir þessari þróun er að færast frá okkur og það er það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill. Hann vill færa þetta vald frá okkur. Hann vill láta ákvörðunarvaldið liggja hjá bisnessmönnum sem eru búnir að kaupa Heilsuverndarstöð Reykjavíkur, gamla húsið, og eru að setja þar upp einkaspítala eða reisa sjúkrahús í Garðabæ — bíðum bara með Landspítalann — þá verður hitt til, fjármagnið kemur samkvæmt forskrift Sjálfstæðisflokksins. En valdið og stýringin er orðin á forsendum fjármagnsins, ekki lýðræðisins. Hún er ekki tekin hér. Það er þetta sem við horfum upp á, þetta býr að baki þegar við segjum að það sé verið að svelta heilbrigðiskerfið til einkareksturs. Bara bíða, minni peningar og þá koma aðrir til sögunnar og síðan kemur nýja sölumiðstöð sjúklinganna, sem hæstv. ráðherra er að reyna að koma á fót, nýja SS-stofnunin og hún á að redda þessu. Þá verða svo skýrir samningar að heilbrigðiskerfið verður miklu betra.

En fá Droplaugarstaðir meira? Er hægt að leggja niður aðstandendafélagið þar, eða fær Skjól meira? Er ekki kominn tími til að ríkisstjórnin reyni að axla ábyrgð og hún tali við fólkið sem er að stofna aðstandendafélög vegna neyðarástands, er að leita til heilbrigðisnefndar þingsins og fjárlaganefndar og fær ekkert annað en neitun? Leiðarahöfundur Morgunblaðsins tók undir með aðstandendafélagi Droplaugarstaða fyrir nokkrum dögum. Er ekki ástæða til að við tökum þessa umræðu í stað þess að líma okkur við einhverja patentlausn sem Sjálfstæðisflokkurinn er að reyna að þröngva upp á þjóðfélagið með því að einkareka þetta kerfi?

Ég fagna því ef menn eru komnir almennt inn á þá skoðun að samfélagið eigi að greiða fyrir rekstur heilbrigðisstofnana þótt Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki alltaf verið á þeirri skoðun, a.m.k. ekki fyrr en 1997. Þar vísa ég í bækling sem fjármálaráðuneytið gaf út um einkarekstur þar sem tekið var fram að það ætti að láta notendur borga eins og kostur væri. Síðan breyttist hugsunin og nú vill Sjálfstæðisflokkurinn að samfélagið borgi. Ef við gefum okkur það að menn séu almennt komnir inn á þá skoðun þá er vandinn á hvaða forsendum á að gera þetta og hvernig á að taka þessar ákvarðanir. Út á hvað gekk deilan sem stóð milli sérfræðilækna og Tryggingastofnunar fyrir nokkrum missirum? Annars vegar var Tryggingastofnun sem sagði að fengju menn á annað borð fjármagn frá ríkinu þá yrðu þeir að hlíta samningum ríkisins í hvívetna. Sérfræðilæknar margir hverjir voru þessu andvígir. Þeir sögðu: Við eigum bara að fá tiltekna upphæð og síðan eigum við að vera sjálfráð um restina og þar á að virkja markaðslögmál og auglýsa eins og varaformaður Samfylkingarinnar vill, hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson. Hann vill endilega koma á svona bisnesskerfi gagnvart sjúklingum og er hvatamaður þess, hefur flutt þingmál um að það eigi endilega að láta tannlækna fara að auglýsa. Þetta er hugsunin, að ríkið borgi grunninn en síðan séu sérfræðingarnir sjálfráðir um hvað kemur ofan á eins og gerst hefur með tannlækna, nákvæmlega það. Það sem fólk er raunverulega að greiða tannlæknum hefur alltaf verið að minnka í reynd vegna þess að þeir hafa ekki verið bundnir samningum Tryggingastofnunar eins og aðrir sérfræðilæknar.

Er ég á móti því að heilbrigðisþjónustan fái að skipuleggja sig í einkapraxís? Nei. Má búa til einkaspítala? Já. Mega sérfræðingar reka eigin rekstur sjálfir og vera á markaði? Já. En ef þeir ætla að láta mig og þig borga og okkur öll þá viljum við setja reglurnar og út á það gengur þessi slagur. Hvernig ætlum við að hafa þetta fyrirkomulag almennt? Hvaða reglum á þetta að lúta? Það er þessi umræða sem Sjálfstæðisflokkurinn reynir alltaf að forðast, telur að með þessum patentlausnum, með þessum skipulagsbreytingum sé björninn unninn. Hann er það ekki vegna þess að slagurinn stendur um fjármagnið, hversu mikið og hvernig, á hvaða forsendum. Ég vara við því, hæstv. forseti, að við höldum lengra út á þessa braut og það er lágmarkskrafa að við fáum a.m.k. að taka um hana umræðu. Það er lágmarkskrafa að þessar djúptæku skipulagsbreytingar fari gegnum ítarlega umræðu.

Sjálfstæðisflokkurinn og varaformaður Samfylkingarinnar og ýmsir félagar þar innan búðar mega hafa sínar skoðanir um skipulag heilbrigðisþjónustunnar. Allt í góðu lagi með það. Við erum ýmsir á öndverðum meiði. En lágmarkskrafa er að við fáum að ræða málin og að sá sem ætlar að breyta kerfinu horfist í augu við það að sönnunarbyrðin hvílir á honum, ekki okkur. Sönnunarbyrðin hvílir á þeim sem ætla að halda inn á nýjar brautir með kerfið sem við erum búin að vera að byggja upp í áratuganna rás. Hann þarf að sýna okkur fram á að það sem hann boðar sé skynsamlegt og ég vek athygli á því að það sem hæstv. heilbrigðisráðherra boðar er að láta okkur samþykkja óútfylltan tékka. Hann þarf ekki einu sinni að taka umræðuna um það. Hann ætlar að setja þessari nýju stofnun reglur eftir sínum „behag“, ráða forstjóra, skipa stjórn og síðan á að koma og setja þetta undir stimpilpúða með vorinu. Finnst mönnum þetta vera boðleg vinnubrögð? Mér finnst það ekki.

Þess vegna ítreka ég, hæstv. forseti, um leið og ég lýk fyrri ræðu minni um þetta mál að 18. gr. í frumvarpinu verði hreinlega sett á ís. Það verði gert til samkomulags við okkur sem erum mjög gagnrýnin á hana, teljum hana mjög vafasama, að málið verði a.m.k. látið njóta vafans og okkur verði gefinn kostur á því að afla gagna erlendis frá, að við tökum það ekki bara sem hráan sannleika sem hæstv. ráðherra hefur borið á borð þegar hann hefur sagt: Allir eru að gera þetta. Það eru bara ekki nóg rök.