Almannatryggingar o.fl.

Þriðjudaginn 11. desember 2007, kl. 11:31:45 (3001)


135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[11:31]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra heilbrigðismála vill ekki að aðrir leggi sér orð í munn en skirrist ekki við það sjálfur að viðhafa slíkt. Ég hef sagt um Landspítalann að framlög til spítalans hafi ekki aukist að raungildi, hafi minnkað að raungildi og (Gripið fram í.) er þar að vísa í skýrslur Ríkisendurskoðunar. Fyrir 50 árum var framlagið til Landspítalans miklu minna en það er nú en þá voru Íslendingar helmingi færri. Okkur fjölgar, umfang starfseminnar vex. Það á við um Landspítalann eins og aðrar stofnanir. Ríkisendurskoðun horfir til framleiðni, hvað viðkomandi starfsemi er að fá að raungildi. Ég er hér með uppgjör Landspítalans frá síðasta ári þar sem farið er mjög rækilega yfir þessi mál og ég vísa í þessi gögn. Ég vísa í úttektir Ríkisendurskoðunar þegar ég fullyrði að menn hafi sett kröfur um framleiðniaukningu gagnvart Landspítalanum. Þarna hefur átt sér stað niðurskurður að raungildi, ekki í krónum talið heldur að raungildi. Ég hef talað um þetta og að forsvarsmenn Landspítalans og forsvarsmenn heilsugæslunnar hafi nefnt að þeir geti ekki rekið starfsemina með óbreyttu fjárframlagi.

Hv. þm. Ásta Möller og hæstv. heilbrigðisráðherra fara að mínum dómi með villandi málflutning varðandi fjárframlög til þessara stofnana. Það er alveg rétt að (Forseti hringir.) viðbótarfjármunir komu á fjáraukalögum til að rétta af en gagnvart … (Gripið fram í.) Það er ekki nægjanlegt. Samkvæmt því sem forsvarsmenn Landspítalans segja þarf 600–1.000 millj. til að halda uppi óbreyttri starfsemi á komandi árum.