Almannatryggingar o.fl.

Þriðjudaginn 11. desember 2007, kl. 12:04:52 (3003)


135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[12:04]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég lýsi í upphafi máls míns eftir hv. þingmönnum Samfylkingarinnar sem forðast hafa umræðuna eins og heitan eld frá því að hún hófst síðdegis í gær og í allan morgun. Ef mig brestur ekki minni hefur aðeins einn af þingmönnum Samfylkingar komið í ræðustól og það er hv. þm. Ellert Schram sem kom í stutt andsvar síðdegis í gær við ræðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar. Ég veit ekki betur en Samfylkingin eigi varaformann í hv. heilbrigðisnefnd og annan fulltrúa þar að auki og ég hlýt að spyrja mig þegar við ræðum prinsippmál — og það gerum við í þrennu tilliti sem ég mun koma aðeins að síðar — skuli Samfylkingin spila renus og ekki láta sjá sig, ekki einu sinni í þingsal, hvað þá í ræðustól, þegar verið er að fjalla um þessi mál. Hvaða prinsippmál eru það sem rædd eru? Í fyrsta lagi það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kallaði smyglgóssið, það er 18. gr. frumvarpsins sem ekki er í neinu samhengi við efni frumvarpsins að öðru leyti. Verið er að smygla leið inn í frumvarpið fyrir hæstv. heilbrigðisráðherra til að taka í eigin hendur skipulag og stofnun nýrrar ríkisstofnunar áður en það er rætt á Alþingi, áður en komið er fram hvernig stofnunin, sem kölluð hefur verið Innkaupastofnun heilbrigðisþjónustu, á að vera, hvaða lagaumhverfi á að búa henni, hvaða hlutverki hún á að þjóna og hvernig skipulagi skuli háttað. Það kemur málinu sem hér er á dagskrá og lagafrumvarpinu ekki nokkurn skapaðan hlut við, að mínu viti. Það er algerlega óskylt flutningi verkefna á milli heilbrigðisráðuneytis og félagsmálaráðuneytis sem frumvarpið fjallar um að öðru leyti.

Þegar ég spurði hæstv. heilbrigðisráðherra að því í gær hver sú brýna nauðsyn væri til að setja ákvæðið til bráðabirgða inn í frumvarpið, hvort virkilega væri svo að það væri til þess eins að hæstv. ráðherra gæti skipað fyrirhugaðri stofnun stjórn og forstjóra áður en fram væri komið lagafrumvarp um hvernig stofnunin ætti að starfa, bjóst ég satt að segja ekki við því dæmalausa svari sem kom frá ráðherranum um það. Jú, það ætlaði hann gera og þess vegna væri brýnt að hafa 18. gr. þarna inni í frumvarpinu. Hann ætlaði að skipa fimm manna stjórn og auglýsa eftir forstjóra og ráða hann til fimm ára núna eftir áramótin. Svo gæti Alþingi bara beðið fram á vor og þjóðin fram á haust með það að stofnunin tæki til starfa.

Ég verð að segja eins og er að mér finnst þetta prinsippumræða sem Samfylkingin á og hlýtur að þurfa að taka afstöðu til og ég kalla enn og aftur eftir því hvar fulltrúar Samfylkingarinnar í heilbrigðisnefnd eru þegar umræðan fer fram. Við, þingmenn Vinstri grænna, höfum lagt til að smyglgóssið verði tekið út úr frumvarpinu, að 18. gr. verði tekin út, og fjallað verði um stofnunina eins og vera ber í sérstöku frumvarpi þar um nú á vorþingi og við erum tilbúin til þess. Enginn hefur hins vegar tekið undir það með okkur af ríkisstjórnarflokkunum. Kannski er það vegna þess að Samfylkingin er ekki með í umræðunni. Alla vega lætur enginn þingmaður Samfylkingarinnar sjá sig í þingsal.

Reyndar eru það fleiri sem tekið hafa sig út af mælendaskrá í málinu. Allnokkur mælendaskrá var hér í gær þegar skilið var við málið og fundi frestað en þegar komið var til þings í morgun var sú mælendaskrá fyrir bí fyrir utan tvo hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, þá Ögmund Jónasson og Steingrím J. Sigfússon. Þeir höfðu ekki látið taka sig út af mælendaskrá og ég spyr: Var það einhver dagskipan í ríkisstjórninni að menn skyldu taka sig út af mælendaskrá og ekki taka frekar þátt í umræðunni um þessi stóru mál?

Ég hef nefnt aðeins eitt mál af þremur sem ég tel algert prinsippmál í umræðunni og finnst nauðsynlegt að fjallað sé um af fulltrúum ríkisstjórnarinnar, ekki bara Sjálfstæðisflokksins, og fulltrúum stjórnarandstöðunnar sem hér hafa talað, heldur líka af hinum stjórnarflokknum, þ.e. Samfylkingunni. Á hæstv. heilbrigðisráðherra að fá heimild með 18. gr. til þess að ráða forstjóra til fimm ára og skipa einhendis fimm manna stjórn í stofnun sem ekki er til, í stofnun sem á ekki að búa til fyrr en með lagafrumvarpi á vorþingi og á ekki að taka til starfa fyrr en í síðasta lagi 1. september nk.? Það er fyrsta prinsippið.

Annað prinsippmál sem við höfum rætt er kostnaður við heilbrigðisþjónustu og fyrirhugaður niðurskurður á heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu. Uppbygging hennar og hvernig hún er á vegi stödd — og ég verð að segja að því miður var það rangt sem fram kom hjá hæstv. heilbrigðisráðherra í andsvari sem hann gaf við ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar áðan, að ekki væri verið að skera niður í heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu. Herra forseti. Ég ætla að vitna í tvennt máli mínu til stuðnings, annars vegar viðtal við forstjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í Ríkisútvarpinu 3. desember sl. og hins vegar í plagg sem dreift var á fundi hv. heilbrigðisnefndar þegar fjallað var um fjárveitingar til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um fjárhag stofnunarinnar. Í viðtalinu við Guðmund Einarsson, forstjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, kom fram að fyrirséður halli á árinu 2007 var upp á 120 millj. kr. en jafnframt kom fram að fjárheimild til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hefur verið skert vegna endurgreiðsluhalla áranna 2003 og fyrr upp á 100 millj. kr. Hvað er það annað en niðurskurður? Hæstv. heilbrigðisráðherra fullyrti að enginn niðurskurður hefði verið á því sviði. Það er einfaldlega rangt. Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er gert að skera niður og hún fær skerta fjárheimild upp á 100 millj. kr. vegna halla áranna 2003 og fyrr. Hvað gerist svo? Hallinn á árinu 2006 var ríflega 80 millj. kr. Halli á árinu 2007 er upp á 120 millj. kr. og vegna þeirrar stöðu lögðum við þingmenn stjórnarandstöðunnar til við afgreiðslu fjáraukalaga að komið yrði til móts við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og hallinn einfaldlega klipptur af með 400 millj. kr. fjárframlagi á fjáraukalögum, en nei. Hvað halda menn að Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hafi fengið upp í hallann þegar atkvæði voru greidd um fjáraukalög? 10 millj. kr. Ég verð að segja, herra forseti, að það er ekki upp í nös á ketti í stöðu heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Í fjárlagafrumvarpinu sem við komum væntanlega til með að fjalla um á morgun eru nokkrar tillögur sem snerta Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, beint eða óbeint, m.a. til að styðja aldraða til sjálfstæðrar búsetu, ráðning klíniískra sálfræðinga til heilsugæslu, kaup og leiga á húsnæði í Árbæ og stofnkostnaður við heilsugæslustöð þar. Ætlaðar eru um 400 millj. kr. til eflingar heilsugæslunnar á næsta ári auk geðheilbrigðisþjónustu barna upp á 20 millj. kr.

Það er það sem meiri hlutinn leggur til en jafnframt 30 millj. kr. til hagræðingar og endurskoðunar rekstrarforma í heilsugæslunni. Hvað skyldi það nú þýða? Það þýðir auðvitað að útvista á þjónustu sem heilsugæslan hefur með höndum, breytt rekstrarform þýðir einkarekstur í stað samfélagslegs rekstrar. Í verkefnið á að setja 30 millj. kr. á næsta ári en til að greiða niður halla sem er upp á 400 millj. kr. og stofnunin þarf að burðast með, skuld við birgja og vaxtakostnaður vegna hennar, koma 10 millj. kr. á fjáraukalögum frá sömu ríkisstjórn.

Engin lagfæring er á hallarekstrinum, eins og ég nefndi áðan, og því blasir við niðurskurður á þjónustu. Enga viðbótarfjárveitingu er heldur að finna í fjárlagafrumvarpinu til að auka almenna læknis- og hjúkrunarþjónustu á heilsugæslustöðvunum. Það er mjög miður vegna þess að heilsugæslan er grunnþjónusta og að mínu viti óaðskiljanlegur hluti af velferðarkerfinu. Það er þjónusta sem þarf að efla en ekki skera niður og fyrir liggja mjög ítarlegar og vel grundaðar tillögur frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í því efni. Vegna þess að stofnunin situr uppi með 400 millj. kr. halla og vegna þess að ríkisstjórnin ætlar að setja 30 millj. kr. í breytingar rekstrarformum í heilsugæslunni er ekki nema eðlilegt að fram komi tillögur um niðurskurð. Við höfum varað við því að fjársvelti undangenginna ára, sveltistefnan gagnvart heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu, muni fyrr eða síðar leiða til stórfellds niðurskurðar.

Það sem hins vegar er eftirtektarvert og umhugsunarvert í tillögum sem kynntar hafa verið um niðurskurð á þjónustunni er að þetta eru tillögur þar sem ráðist er að rótum þess sem telst hvað best í heilbrigðisþjónustu okkar Íslendinga og það sem lyft hefur Íslendingum í fyrsta sæti, m.a. í mati á lífslíkum, ungbarnadauða og heilbrigði almennt. Þar er ég að fjalla um tillögurnar um að skera mæðraverndina, ungbarnaeftirlitið, heilsugæslu í skólum og þar með eftirlitið með bólusetningum barna og miðstöð heilsuverndar barna frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Það er alveg með ólíkindum að tillögurnar skuli koma fram. Ég yrði hins vegar ekki undrandi á því að hæstv. heilbrigðisráðherra tæki þessum tillögum fagnandi. Um er að ræða afmarkaða þætti í heilbrigðisþjónustu sem hugsanlega væri hægt að fela einkaaðilum að finna en það er dagskipunin úr heilbrigðisráðuneytinu. Það er alveg sama hversu oft hæstv. heilbrigðisráðherra reynir að neita því, það er staðreynd að ofan úr heilbrigðisráðuneyti kemur dagskipun á allar heilbrigðisstofnanir í landinu um að ef eitthvað er hægt að útvista á að láta ráðuneytið vita og það mun finna leið til að gera það. Til þess eru ætlaðar 30 millj. kr. á næsta ári, til að breyta rekstrarformum í heilbrigðisþjónustu. Eftir að Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins var hent út úr Heilsuverndarstöð Reykjavíkur, því fallega húsi sem verið hefur flaggskip í heilbrigðisþjónustu borgarbúa allt frá því að það var reist, hefur sigið á ógæfuhliðina í rekstri heilsugæslunnar.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að vitna í leiðara Morgunblaðsins 3. janúar 2007 um sölu Heilsuverndarstöðvarinnar þar sem verið var að flytja mjög svo sérhæfða og mikilvæga þjónustu við borgarbúa úr sérhæfðu húsnæði í keilusal upp í Mjódd með ærnum tilkostnaði vegna þess að húsnæðið var auðvitað alls ekki tilbúið undir svo sérhæfðan rekstur sem heilbrigðisþjónusta er. Í leiðara Morgunblaðsins sem ber yfirskriftina „Vond sala á góðu húsi“ er vitnað í viðtal við Reyni Tómas Geirsson, sviðsstjóra kvennasviðs Landspítalans sem sagði í viðtali við Morgunblaðið að ekki hafi verið gerð meiri mistök í heilbrigðiskerfinu en að selja hús Heilsuverndarstöðvarinnar. Í leiðaranum er bent á að starfsmenn voru auðvitað ekki spurðir og þeir sem sögðu sitt álit lýstu sig mótfallna flutninginum. Í leiðaranum er einnig bent á að notendur þjónustunnar voru alls ekki spurðir en þeir sem tjáðu sig um það voru allir á einu máli um að þeir vildu ekki fara úr húsinu. Í leiðara Morgunblaðsins segir, með leyfi forseta:

„Saga sölu Heilsuverndarstöðvarinnar virðist vera saga af alls konar kerfiskergju og stirfni sem hefur leitt til vondrar niðurstöðu, bæði fyrir þá sem starfa að heilsuvernd og fyrir notendur þjónustunnar. Og engin haldgóð skýring hefur fengist á því hvers vegna glæsilegu húsi, sem er einn af dýrgripum byggingarsögu Reykjavíkur og í göngufæri við framtíðaraðsetur stærsta sjúkrahúss landsins, var ekki sýndur sá sómi að hafa þar áfram heilbrigðisstarfsemi. Þeir sem báru ábyrgð á sölu hússins mættu gjarnan upplýsa það.“

Enginn þeirra sem báru ábyrgð á sölu hússins á sínum tíma er í þingsalnum. Ég verð að segja að það er um seinan að hlusta á útskýringar þeirra á því. Hins vegar er stór spurning til þeirra sem nú fara með völd og ábyrgð á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hvort ekki sé efni til þess að taka málið upp að nýju, að kaupa Heilsuverndarstöðina aftur af þeim einkaaðilum og fjárfestum sem hana keyptu og byggja heilsugæsluna á nýjan leik sem samþætta þjónustu á öllum sviðum. Þar mundi aftur vera á einum stað miðstöð ungbarnaeftirlits, miðstöð mæðraverdar, miðstöð heilsuverndar barna, miðstöð skólaheilsugæslu, miðstöð bólusetninga, þ.e. heildstæð þjónusta á einum stað í göngufæri frá stærsta sjúkrahúsi landsins.

Ég skoraði við 1. umr. fjárlaga á hv. formann heilbrigðisnefndar Ástu Möller að taka málið upp og reyna að snúa ofan af þeirri villu. Ég get tekið undir það sem hún sagði í gær í umræðunni um að það hafi verið mistök að gera Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins svo stóra eins og hún er. Hún er stærsta stofnunin á sínu sviði. Henni er ætlað að þjóna 193 þúsund íbúum í Þingvallasveit, Hafnarfirði, Álftanesi, Garðabæ, Kópavogi, Reykjavík, Seltjarnarnesi, Mosfellsbæ og Kjalarnesi. Það er gríðarlega stórt svæði og þar sem heilsugæsluþjónusta er í eðli sínu nærþjónusta tel ég að mikil miðstýring skaði þjónustuna frekar en hitt. Ég er sammála þeim sem talað hafa á undan mér og vitnað til þess hvernig heilsugæslan er rekin á Akureyri þar sem búið er að samþætta heilsuvernd, heilsugæslu, félagslega þjónustu og skólaþjónustuna á einum stað með sérstökum þjónustusamningi sem gerður var í krafti laga um reynslusveitarfélög á sínum tíma. Það hefur gefist afskaplega vel fyrir íbúa Akureyrar, sérstaklega á þá yngri, unglinga og börn sem eiga við erfiðleika að etja í skólum og í félagslegu tilliti, en einnig fyrir aldraða íbúa Akureyrar. Það er fyrirkomulag sem við ættum að taka okkur til fyrirmyndar á höfuðborgarsvæðinu. Vegna þeirra ógangna sem Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur ratað í með stórfelldum niðurskurði, með því að menn loka augunum fyrir 400 millj. kr. halla og með því að hafa til þessa ekki verið tilbúnir til að koma til móts við þörfina fyrir aukna starfsemi á þessu sviði, leyfi ég mér að skora á borgarstjórn Reykjavíkur að koma formlega að málinu, feta þar í fótspor Akureyringa og gera þjónustusamning um rekstur heilsugæslunnar með svipuðum hætti og þar hefur verið gert. Áskorun mín er ekki eingöngu til borgarstjórnar Reykjavíkur heldur til allra sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.

Sveitarfélög geta auðvitað slegið sér saman um slíka þjónustu þar sem það á við og ég vil í því tilliti nefna að rekstur heilsugæslustöðvarinnar á Seltjarnarnesi sem þjónar bæði Vesturbæ Reykjavíkur og íbúum Seltjarnarness. Það hefur gefist mjög vel. Heilsugæslan á Álftanesi og í Hafnarfirði hafði líka gefist mjög vel samþætt. Ég tel í rauninni nauðsynlegt að brjóta heilsugæsluna aftur upp í minni einingar til að tryggja að hún verði sú nærþjónusta sem hún er í eðli sínu. Það hefur sýnt sig að hún er best í því formi eins og við sjáum á Akureyri.

Ég hef gert Heilsuverndarstöðina við Barónsstíg að umtalsefni og ég tel, og ítreka áskorun mína til hv. formanns heilbrigðisnefndar, að taka málið upp og snúa við þessari vondu sölu á góðu húsi, eins og leiðari Morgunblaðsins kallaði það.

Ég verð að segja, herra forseti, að ég hef miklar áhyggjur af stöðunni eins og hún er núna. Ég gerði mér leið upp á Heilsuverndarstöð á sunnudaginn var, það er ekki langt frá þar sem ég bý. Á þessum reit eru einnig Austurbæjarskóli, Sundhöll Reykjavíkur og Heilsuverndarstöðin. Það eru þjónustustofnanir, merkar byggingar, sérhæfðar og allar einstakar á sínu sviði hvað innra skipulag og ytra útlit varðar. Það var líf og fjör í kringum Austurbæjarskóla þótt skólinn væri lokaður, fullt af krökkum á lóðinni og íþróttasvæðinu að leika sér og það var mikil umferð í kringum Sundhöll Reykjavíkur. Heilsuverndarstöðin hins vegar var myrkvuð, hún var tóm. Sett höfðu verið nokkur aðventuljós í glugga, að öðru leyti var ekkert þar um að vera. Ég verð að segja eins og er að ég óttast hugmyndir um að í Heilsuverndarstöðinni við Barónsstíg sé verið að undirbúa nýjan einkarekinn spítala með sama hætti og undirbúningur að einkaspítala er í fullum gangi í Garðabæ. Hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur bent á samhengið á milli niðurskurðar sem nú er í farvatninu til uppbyggingar Landspítalans annars vegar og áformanna sem eru um uppbyggingu á nýjum einkaspítala í Garðabæ. Ég verð að taka undir með hv. þingmanni að ég óttast að það sama geti verið upp á teningnum hvað varðar Heilsuverndarstöð Reykjavíkur.

Flogið hafa fyrir sögur um að hópur fjárfesta og lækna sé þar með í undirbúningi nýjan einkaspítala sem muni sérhæfa sig á sviði fæðingarhjálpar og þá er stutt í að hægt sé að taka þar aftur inn mæðraverndina og ungbarnaeftirlitið á sama gamla staðinn en bara ekki á vegum samfélagsins, heldur á vegum einkaaðila sem munu að sjálfsögðu gera arðsemiskröfu til þess fjármagns sem þeir hafa sett, bæði í kaup á húsinu og þann rekstur sem þar er fyrirhugaður.

Herra forseti. Þá er ég komin að þriðja prinsippliðnum í þessari umræðu, sem Samfylkingin spilar renus í og hefur ekki tekið þátt í með okkur, fulltrúum annarra þingflokka, um það frumvarp sem hér liggur fyrir og það er spurningin um einkarekstur í heilbrigðisþjónustu eða samfélagslegan rekstur. Það er mjög eðlilegt að sú umræða komi upp í framhaldi af 18. gr. sem er enn inni í frumvarpinu, smyglgóssið. Við höfum ítrekað lýst eftir því að 18. gr. verði geymd og að prinsippumræða um það sem hún felur í sér fari fram þegar frumvarp verður lagt fram um hlutverk og skipulag þeirrar stofnunar. En úr því að menn virðast ekki ætla að verða við því er algerlega nauðsynlegt að taka þá prinsippumræðu hér og nú. Ég verð að taka undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að sú umræða, um þetta smyglgóss, 18. gr., skyggir auðvitað á aðra þætti í frumvarpinu sem eru allrar umræðu verðir. En vegna þess að 18. gr. er þarna inni, eins algerlega óskyld málinu og hún nú er, þá er nauðsynlegt að taka þessa umræðu núna.

Menn hljóta að spyrja sig: Hvert stefnir með þessa fyrirhuguðu stofnun samkvæmt 18. gr.? Hvaða hlutverk er henni ætlað? Það er ekki nema von að menn horfi til þeirrar stefnumörkunar Sjálfstæðisflokksins sem illu heilli var afhent heilbrigðisráðuneytið við myndun núverandi ríkisstjórnar. Það er ekki nema von að menn spyrji hvort þarna sé í undirbúningi stofnun sem eigi að fá það hlutverk að einkavæða í heilbrigðiskerfinu, koma þar upp einkarekstri hvar sem mögulegt er vegna þess að ekki aðeins má finna slíkt í yfirlýsingum hæstv. heilbrigðisráðherra í gegnum tíðina og í fundarsamþykktum Sjálfstæðisflokksins eins og á landsfundum, heldur vil ég rifja upp ummæli hæstv. forsætisráðherra í Valhöll fyrir þingbyrjun í september sl. þar sem hann lýsti því yfir að breytinga yrði að vænta í heilbrigðiskerfinu, breytinga í ætt við stefnu Sjálfstæðisflokksins voru hans orð. Þá erum við komin að þeirri spurningu hvert við ætlum að stefna með heilbrigðiskerfið okkar. Ætlum við að halda áfram að byggja upp heilbrigðisþjónustu á Íslandi eftir því sem kallað hefur verið norræna módelið eða ætlum við að fara amerísku leiðina, byggja upp tvöfalt heilbrigðiskerfi þar sem þeir sem fjármuni hafa geta keypt sig fram fyrir aðra og notið betri þjónustu, þar sem jafnræðisreglunni sem norræna módelið byggir er ýtt til hliðar á, sem er að allir eigi að hafa sama aðgang að góðri heilbrigðisþjónustu án tillits til efnahags og búsetu og að heilbrigðisþjónustan skuli greidd af skattfé landsmanna úr sameiginlegum sjóðum.

Ameríska módelið byggir hins vegar á því og tvöfalda kerfið að þar eru einkasjúkratryggingar sem menn verða að kaupa sér fyrir fram til að tryggja sig ef þeir veikjast eða þeir verða að slíta upp budduna og greiða beint úr eigin vasa, jafnvel þegar þeir eru komnir á nærbuxunum inn á gang eins og við höfum orðað það. Menn verða að taka prinsippafstöðu til þess hvora leiðina þeir vilja fara og ég lýsi í þessari umræðu enn og aftur eftir Samfylkingunni og hv. þingmönnum Samfylkingarinnar. Hvaða leið vilja þeir fara í þessu? Hvaða leiðsögn ætlar Samfylkingin að veita hæstv. heilbrigðisráðherra við framkvæmd 18. gr. verði hún lagfærð? Menn verða að fá svör við þessu, herra forseti.

Það eru miklir erfiðleikar í heilbrigðisþjónustunni vegna sveltistefnu undanfarandi ára. Ekki þarf að lýsa ástandinu á stóra sjúkrahúsinu okkar, flaggskipinu Landspítalanum. Við höfum eytt nokkrum tíma í að lýsa ástandinu eins og það er í heilsugæslunni, a.m.k. á höfuðborgarsvæðinu þar sem tæp 200 þúsund manns eiga að njóta hennar en gera alls ekki í sama mæli og aðrir landsmenn þar sem 8.500 manns a.m.k. eru án heilsugæslu og það þarf í rauninni ekki að tíunda miklu frekar þá erfiðleika sem uppi eru. En þegar spurt er: Hvað ber að gera? þá er töfraorðið alltaf einkarekstur, einkareksturinn á að bjarga öllu saman. Svo segja menn að þetta sé alls ekki einkavæðing og þetta sé alls ekki ameríska módelið heldur eitthvað allt annað og klæða þessar hugmyndir sínar um einkarekstur í mjög aðlaðandi búning fyrir alla hlutaðeigendur, söluvænan búning.

Í gær var talað um að það væri gott að nýta kosti einkaframtaksins. Ég veit ekki betur en hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hafi orðað það akkúrat þannig. Hann hefur lært það af Sjálfstæðisflokknum, að nýta kosti einkaframtaksins í heilbrigðisþjónustunni. Það á að auka fjölbreytni í þjónustunni með þessu móti, segja menn. Talað er um að aukin samkeppni á sviði heilbrigðisþjónustu muni minnka tilkostnað og lækka verð. Loks á þessi einkarekstur líka að auka á valfrelsi sjúklinga, að ég tali ekki um að hann á líka að hækka laun starfsmanna. Hvernig í ósköpunum eiga menn að vera á móti þessum fínu hugmyndum?

Ég vil taka það skýrt fram, herra forseti, að ég hef ekkert á móti einkarekstri og prívatrekstri þegar um er að ræða sölu og kaup á gallabuxum eða tannkremi en þegar kemur að því að setja heilbrigðisþjónustu á markað eins og hverja aðra vöru þá spyrjum við vinstri græn þriggja einfaldra spurninga: Er það betra og hagkvæmara fyrir sjúklingana sem eiga að nota þjónustuna að taka upp einkareksturinn en samfélagsreksturinn? Er það betra og hagkvæmara fyrir þá sem eiga að greiða kostnaðinn af þjónustunni, þ.e. ríkið og sveitarsjóði? Og í þriðja lagi, er það betra og hagkvæmara fyrir þá sem starfa við þjónustuna á sjúkrahúsunum, í heilsugæslunni og á öldrunarstofnununum? Ef svarið við öllum þessum spurningum er já, að útvistun og einkarekstur einhverrar tiltekinnar þjónustu sé betri og hagkvæmari, bæði fyrir sjúklinga, ríkissjóð og sveitarsjóði og fyrir þá sem starfa við þjónustuna, mun ekki standa á okkur vinstri grænum að styðja við slíkar breytingar. En ef svarið við einni af þessum spurningum er nei, munum við ekki styðja þá breytingu. Mér segir svo hugur um að svarið við þessum þremur spurningum hvað varðar mæðraverndina, ungbarnaeftirlitið, skólaheilsugæsluna, muni í öllum tilvikum verða nei. Einkarekstur í mæðravernd, ungbarnaeftirliti og skólaheilsugæslu mun ekki verða betri og hagkvæmari fyrir sjúklinga, mun ekki verða betri og hagkvæmari leið fyrir ríkissjóð og mun ekki verða betra fyrir þá sem við þjónustuna starfa.

Ég minni á það, sem nefnt var í umræðunni í gær, hvaða breyting fylgdi í kjölfar þess að fella niður skólatannlækningar. Við stöndum nú frammi fyrir tillögu um að fella niður skólaheilsugæslu og í umræðu um frumvörp hæstv. menntamálaráðherra á föstudaginn var minntist ég einmitt á tillögu heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu um að efla skólaheilsugæslu í grunnskólum á öllu þessu 200 þúsund manna svæði og ekki aðeins í grunnskólum heldur líka fimm ára áætlun sem Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur gert um að taka upp heilsugæslu í framhaldsskólum á þessu svæði og minnti á nauðsyn þess að gera það á landinu öllu.

Þegar sjálfræðisaldur var hækkaður úr 16 árum í 18 gleymdist nefnilega að gera ráð fyrir kostnaði við að tryggja þeim börnum, sem samkvæmt breytingu á sjálfræðisaldri eru það nú til 18 ára aldurs og skólakerfið og foreldrar bera ábyrgð á sem slíkum, að heilbrigðisþjónustan ber líka ábyrgð á þeim sem börnum allt til 18 ára aldurs. Í lögum um heilbrigðisþjónustu segir að börn skuli njóta heilbrigðisþjónustu og heilsuverndar, sem þýðir að taka þarf og taka ber upp skólaheilsugæslu í framhaldsskólum af því að um helmingur nemenda í framhaldsskólunum er undir 18 ára aldri og á þess vegna rétt á sömu heilsugæslu og heilsuvernd og nemendur í grunnskólunum. Í stað þess stöndum við frammi fyrir tillögu um að leggja alla heilsugæslu í skólum af á þessu þéttbýlasta svæði landsins. Ég vara við því að stefna ríkisstjórnarinnar í málefnum heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu og í heilbrigðismálum almennt stefnir í þá átt að þessari mikilvægu þjónustu verði útvistað, verði hent út eins og heilsugæslunni var hent út úr Heilsuverndarstöðinni til þess eins að teppaleggja þar fyrir einkavæðingu á þessu sviði.

Við vinstri græn teljum að áður en lengra er haldið á braut einkarekstrar í heilbrigðisþjónustunni sé nauðsynlegt að gera rannsókn á árangri einkareksturs og á áhrifum markaðsvæðingarinnar í samfélagsþjónustunni, bæði félagslega og fjárhagslega, og við höfum lagt fram þingsályktunartillögu um þetta efni á hv. Alþingi. Það er nefnilega alls ekki nóg að fullyrða bara að einkareksturinn sé hagkvæmur, að samkeppni skili lægra verði og fjölbreyttari þjónustu og allar þær umbúðir sem ég nefndi áðan. Þetta eru allt saman mælanlegar stærðir og rannsóknir hljóta að þurfa að sanna hver raunveruleikinn er í ljósi reynslunnar, vegna þess að við höfum einkarekstur á ýmsum sviðum í heilbrigðisþjónustu okkar og það á að vera hægt að mæla það algerlega hvort það er hagkvæmt og þá með hvaða hætti og að hve miklu leyti.

Sá einkarekstur sem er í heilbrigðisþjónustunni hjá okkur hefur orðið til af tilviljunum einum. Það er ekki þannig að gerð hafi verið ákveðin stefnumörkun um að nú skuli tilteknum þáttum útvistað vegna þess að það sé svo miklu hagkvæmara eða bæti þjónustuna, sé betra fyrir starfsfólk, sjúklinga eða ríkissjóð. Það er ekki svo. Þvert á móti er það svokölluð bestu bita aðferð „cherry picking“, eins og það heitir á fagmáli í þessum efnum, sem hefur leitt til þess að bestu bitunum, þeim einföldustu, þar sem biðlistar eru og um er að ræða tiltölulega einfaldar aðgerðir, er ýtt út af sjúkrahúsunum. Einhver einkaþjónustuaðili poppar upp og segir: Halló, við skulum sjá um þetta, og svo gera þeir það. Þetta er svolítið eins og Litla gula hænan, sem hefur líka verið hér til umræðu.

Það er sem sagt þessi tilviljanakenndi einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni sem enginn vandi er að mæla árangurinn af. Það er það sem við vinstri græn höfum verið að kalla eftir, að það fari fram raunveruleg rannsókn á því hvort slíkur einkarekstur sé hagkvæmur. Við getum litið til Svíþjóðar í þessu efni, reyndar líka til Noregs og Bretlands þar sem tilraunir voru gerðar fyrir síðustu aldamót með einkarekstur heilu sjúkrahúsanna. Þar er nú, dag frá degi verið að gera heildardæmið upp og mat og niðurstöður á mati á árangri þessara tilrauna eru alls ekki einhlítar.

Til að mynda er niðurstaðan varðandi tiltekið sjúkrahús í Svíþjóð að þjónustan hefur ekki reynst vera betri. Kostnaðurinn fyrir Stokkhólmslén, sem ber kostnað af rekstri þessa sjúkrahúss sem er nú á vegum einkaaðila og hefur verið frá árinu 1999, ef mig brestur ekki minni, er mun meiri en hann var fyrir breytinguna og öryggi starfsmanna, þ.e. atvinnuöryggið hefur versnað.

Það er því ekki endilega svo að það sé eins og talsmenn einkarekstrarins hér og einkavæðingarstefnunnar og Sjálfstæðisflokksins fullyrða að það sé betri tími með blóm í haga fyrir alla aðila, sjúklinga, þá sem borga brúsann og starfsmenn, ef heilbrigðisþjónustunni er útvistað. Þess vegna er það að við höfum gert kröfu til þess og leggjum fram tillögu á hv. Alþingi um að það verði gerð rannsókn á árangrinum.

Það er alveg deginum ljósara, herra forseti, að það vantar meira fjármagn í heilbrigðisþjónustuna. Í okkar huga eru margar aðrar leiðir til þess að bæta hana en einkarekstur og einkavæðing. Við vörum sterklega við því að það muni leiða til aukins misréttis og tvöfalds kerfis ef áfram verður gengið í þá átt.

Það er eðlilegt að taka þetta hér upp, þessa umræðu, grundvallarumræðu við afgreiðslu þessa frumvarps, vegna 18. gr. og þess smyglgóss sem hæstv. heilbrigðisráðherra er að reyna að koma í gegn hér á Alþingi, umræðulítið eða umræðulaust. Við vinstri græn látum það ekkert yfir okkur ganga. Við tökum þessa umræðu hér og nú, fyrst að menn vilja ekki verða við þeim tilmælum okkar að fresta 18. gr. fram á vorið þangað til þeir eru tilbúnir með frumvarp sem segir til um hlutverk og skipulag þessarar stofnunar.

Ég lýsi enn og aftur eftir afstöðu þingmanna Samfylkingarinnar í þessu efni. Hvar eru hv. þingmenn Samfylkingarinnar við þessa umræðu? Er ekki nóg að gert að láta heilbrigðisráðuneytið í hendurnar á Sjálfstæðisflokknum? Ætla þeir að láta þá algjörlega afskiptalausa þar líka? Eru þeir tilbúnir til þess að láta heilbrigðisráðherra fá þennan óútfyllta tékka sem 18. gr. er? Hvar er hv. varaformaður Samfylkingarinnar? Og varaformaður hv. heilbrigðisnefndar Alþingis, Ágúst Ólafur Ágústsson? Hvar skyldi hann vera? Hver skyldi vera hans afstaða varðandi 18. gr.? Ég hlýt, herra forseti, að lýsa eftir því.

Við teljum að það sé til nóg af peningum í samfélaginu. Þetta er spurning um það hvernig þeim er varið og við viljum benda á það að með því að efla heilsugæslu sem fyrsta skrefið, sem fyrstu móttökuna, sem fyrsta viðkomustaðinn þegar fólk verður veikt, með því að efla þá þjónustu og heilsuvernd almennt þá verður heilbrigðiskerfið ódýrara.

Það kerfi sem hér er á höfuðborgarsvæðinu er gríðarlega dýrt. Það eru 8.500 manns án heimilislæknis, án heilsugæslu og fara beint til sérfræðinga eða á Læknavaktina og borga auðvitað sjálfir miklum mun meira og hærra verð, en það sem meira er er að samfélagið allt borgar líka miklu hærra verð.

Þetta er leið ríkisstjórnarinnar, að varpa heilbrigðisþjónustunni í smábitum út á markaðinn og nýta síðan tekjuafgang af fjárlögum til þess að lækka skatta hjá þeim sem mest hafa handa í milli en það er ekki leið okkar vinstri grænna. Þvert á móti þá viljum við ekki aðeins efla hátæknisjúkrahúsið þar sem mjög mikilvægar lækningar eru stundaðar heldur viljum við einnig efla heilbrigðisþjónustuna í heilsugæslunni sem þá nærþjónustu sem hún á að vera eðli máls samkvæmt.

Þegar kemur að því á morgun að afgreiða fjárlög fyrir árið 2008 munum við endurflytja tillögur okkar hér, vinstri græn, um eflingu heilbrigðisþjónustunnar um land allt. Við erum þar með sérstaka áhersluþætti. Við erum með Landspítalann, við teljum alls ekki nóg að gert að klippa halann sem nú er í skuldastöðunni hjá Landspítalanum eins og gert var með fjáraukalögum. Það var mjög gott og við lýstum yfir ánægju með þá ákvörðun en það er ekki nóg að klippa halann af vegna ársins 2007 og ætla spítalanum svo að fara að safna skuldum strax 1. janúar. Þess vegna munum við, herra forseti, leggja fram tillögur um það að auka fjárveitingar til starfsemi Landspítalans. Við munum líka leggja fram tillögur um að efla og auka starfsemi, sérstaklega heilsugæslunnar og heilbrigðisstofnunar Austurlands á Egilsstöðum og við munum líka leggja fram tillögur okkar um bæta heilbrigðisþjónustuna og heilsuverndarþjónustuna í Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Það er nefnilega svo, herra forseti, að sú mikla þjónusta sem Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er ætlað að sinna hefur setið illilega eftir. Þjónustan hefur ekki fengið að þróast í takt við íbúafjölgun á svæðinu, í takt við breytta aldursskiptingu og í kjölfar þess að hér hefur veruleg breyting orðið á t.d. íbúasamsetningu með tilliti til þjóðernis, þ.e. tungumálakunnáttu, túlkaþjónustu, þörfina fyrir túlkaþjónustu, og það er mikill munur á milli þeirra fimmtán heilsugæslustöðva sem eru á höfuðborgarsvæðinu hvað þetta varðar.

Það hefur ítrekað komið fram í umræðunni bæði frá — gengur nú einn hv. þingmaður og hæstv. ráðherra Samfylkingarinnar í salinn og er það þeirri sem hér stendur mikið fagnaðarefni. Því hér hef ég, hæstv. iðnaðarráðherra, lýst eftir afstöðu Samfylkingarinnar til 18. gr. þess frumvarps sem hér er á dagskrá og hefur verið lýst sem smyglgóssi, efni sem á ekkert skylt við frumvarpið að öðru leyti, og sem óútfylltum tékka til handa hæstv. heilbrigðisráðherra sem hyggst, verði þessi 18. gr. að lögum, byrja á því að skipa forstjóra, auglýsa eftir forstjóra og ráða forstjóra til fimm ára á stofnun sem ekki er til og skipa henni fimm manna stjórn, án þess að í 18. gr. sé að finna minnstu leiðbeiningar um það hvernig eigi að fara með það vald sem stjórn og forstjóri, eðli máls samkvæmt, hafa.

Ég hef spurt í þessum ræðustóli nokkrum sinnum, hæstv. iðnaðarráðherra, hvernig það sé, hvort Samfylkingin hafi, með því að afhenda Sjálfstæðisflokknum heilbrigðisráðuneytið við myndun ríkisstjórnarinnar þar með gefið hæstv. heilbrigðisráðherra og Sjálfstæðisflokknum algjört alræðisvald í þessum efnum. Hvort þeir ætla ekki einu sinni að reyna að leiðbeina samstarfsflokknum í ríkisstjórninni þannig að ekki gleymist nú alveg jafnaðarstefnan sem Samfylkingin oft hefur á vörum þegar um annað er að ræða.

Ég hef lýst furðu minni yfir að það skuli ekki einn einasti hv. þingmaður Samfylkingarinnar hafa tekið þátt í þessum umræðum. Ekki einn einasti að undanteknum hv. þm. Ellerti Schram sem kom í stutt andsvar við ræðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar í gær. Það eru hér þrjú stór prinsippmál sem verið er að ræða um. Það er þessi 18. gr. sem við leggjum eindregið til að verði tekin út úr frumvarpinu. Hún á ekki heima þar. Hún á ekki erindi þar. Hún á að koma til umræðu þegar frumvarp um þessa stofnun verður kynnt hér á Alþingi í vor. Við höfum líka lýst eftir afstöðunni til annars prinsippmáls sem er fyrirhugaður einkarekstur og útvistun í kerfinu sem er eðlilegt að taka hér til umræðu núna í ljósi 18. gr. Ég lýsi hér eftir afstöðu Samfylkingarinnar í þeim efnum.

Loks hef ég lýst eftir afstöðu Samfylkingarinnar til þeirra niðurskurðartillagna sem uppi eru varðandi heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Það er mér mikið gleðiefni að það er kominn málsmetandi samfylkingarmaður í salinn og ég vænti að það muni ekki standa á svörum frá þeim hv. þm. og hæstv. ráðherra, Össuri Skarphéðinssyni, hér frekar en fyrri daginn.

Herra forseti. Ég hef ekki lokið máli mínu því ég var þar komin þegar hæstv. ráðherra gekk í salinn, að ég var að fjalla um þá umræðu sem hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins, einir tveir, tóku hér upp í gær, að það væri mikill munur á þjónustunni hvað hún væri ofboðslega góð, í Salahverfinu í Kópavogi, í heilsugæslustöðinni. Það var á máli þeirra að skilja að það væri einfaldlega vegna þess að sú stöð væri einkarekin. Ríkið borgar auðvitað en það er einkarekstur á þeirri stöð sem og í stöðinni við Lágmúla. Þetta eru tvær stöðvar af fimmtán á höfuðborgarsvæðinu sem eru í svokölluðum einkarekstri.

(Forseti (MS): Forseti biðst afsökunar á að trufla hv. þingmann en nú líður að þeim tíma sem til stóð að gera hlé á þessum fundi. Forseti spyr því hv. þingmann hvort hún eigi mikið eftir af ræðu sinni eða hvort um það sé að ræða að hv. þingmaður ljúki ræðunni á næstu örfáu mínútum.)

Herra forseti. Mér sýnist ég eiga töluvert efni eftir hvað varðar heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu, þær niðurskurðartillögur sem kynntar hafa verið og þá stöðu sem þar er uppi sérstaklega vegna umræðna um að einkareksturinn eigi að bjarga þar öllu með tilvísun í Salastöðina og ég var þar komin í máli mínu. Ég vænti þess líka, hæstv. forseti, að fá tækifæri til þess að hlusta á talsmann Samfylkingarinnar í þessum efnum þannig að, nei, herra forseti. Ég á ekki von á því að ljúka máli mínu á næstu tveimur mínútum.

(Forseti (MS): Ef það hentar hv. þingmanni þá hyggst forseti gera hlé núna, eða vill hv. þingmaður halda örlítið áfram?)

Nei. Það hentar ágætlega.

(Forseti (MS): Þá verður gert hlé á þessum fundi. Fundi verður framhaldið aftur klukkan tvö. Fundi er frestað.)