Almannatryggingar o.fl.

Þriðjudaginn 11. desember 2007, kl. 14:37:32 (3012)


135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[14:37]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það liggur alveg skýrt fyrir að þessi ríkisstjórn er ekki að fara út á braut einkavæðingar. Af því að hv. þingmaður talaði hér um að spítölum og heilbrigðisstofnunum væri fjár vant — ekki skal ég draga úr því, þó taldi ég að það hefði verið sterk viðleitni í fjárauka- og fjárlagafrumvarpi sem við höfum rætt hér á undanförnum vikum að klippa víða af skuldahala sem slíkar stofnanir og reyndar ýmsar menntastofnanir hafa verið að burðast með illu heilli og eru leifar Framsóknarflokksins.

Það er grunnhlutverk ríkisins í fyrsta lagi að sjá til þess að peningar skattborgaranna séu nýttir með sem bestum hætti og sýna sem mest aðhald í rekstri. Í öðru lagi er grunnhlutverk ríkisvaldsins að tryggja ákveðna grunnþjónustu gagnvart borgurunum. Hér er um að ræða góða heilbrigðisþjónustu, gott menntakerfi, samgöngur o.s.frv.

Ef við skoðum spítalana, sem allt hefur verið í uppnámi hjá ef marka má hv. þingmann og ræður hans á síðustu árum, blasir samt við að við búum hérna við t.d. einn, eða tvo litla á alþjóðlegan mælikvarða, hátæknispítala. Ef maður skoðar árangur þessara spítala í samanburði við alþjóðlega miklu stærri hátæknispítala kemur í ljós að lifun, þ.e. hlutfall þeirra sem lifa af alvarleg áföll, hvort heldur eru hjartaáföll, heilablæðingar eða bílslys, sem sagt hörmungar sem fólk lendir í, er á þessum ágætu starfsstöðvum okkar með því hæsta sem þekkist. Það er hægt að taka kannski 20 helstu tegundir áfalla sem fólk lendir í sem ekki er orðið gamalt og þá kemur í ljós að Ísland er alls staðar á topp 5 til topp 10. Það er árangur sem lítil þjóð getur verið stolt af og bendir ekki til þess að hér sé allt á heljarþröm út af fjárskorti. Það hefur verið sammæli allra (Forseti hringir.) flokka, hverjir sem hafa verið í ríkisstjórn, að standa vörð um þetta.