Almannatryggingar o.fl.

Þriðjudaginn 11. desember 2007, kl. 14:42:09 (3014)


135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[14:42]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Nú lýkur senn 2. umr. um þetta frumvarp, þennan lagabálk, sem tekur á ýmsum þáttum velferðarþjónustunnar sem heyra undir heilbrigðisráðuneytið annars vegar og félagsmálaráðuneytið hins vegar.

Um er að ræða umtalsverða uppstokkun í málaflokkunum og eins og fram hefur komið við umræðuna teljum við sem gagnrýnt höfum þetta frumvarp sitthvað vera til góðs. Við erum t.d. á þeirri skoðun almennt að það sé eðlilegt að færa málefni aldraðra undir félagsmálaráðuneyti þó að ég hafi lýst því yfir að ég hafi vara á ýmsum fullyrðingum sem fram koma í meirihlutaáliti með frumvarpinu þar sem m.a. er um það rætt að hár aldur og sjúkdómar eigi ekki endilega samleið. Staðreyndin er sú að þegar hár aldur og kerfið fara saman er það yfirleitt vegna sjúkdóma, vegna þess að heilsan hefur brostið.

Við erum búin að færa fyrir því rök að eðlilegast væri að skjóta þessu máli á frest, allri þessari löggjöf, og vinna heimavinnuna betur. Síðan höfum við staðnæmst sérstaklega við 18. gr. frumvarpsins sem er heimildarákvæði til handa hæstv. heilbrigðisráðherra til að setja á fót eins konar sölumiðstöð fyrir sjúklinga þar sem verslað verði með og gerðir samningar um heilbrigðisþjónustuna. Það sem verra er er að okkur er sagt að með vorinu líti dagsins ljós frumvarp um þessa stofnun en hæstv. heilbrigðisráðherra hefur lýst því yfir að áður en það frumvarp komi fram muni hann ráða forstjóra stofnunarinnar og skipa stjórn. Okkur þykir eðlilegt að þessari grein laganna verði skotið á frest (Gripið fram í: Það þarf að kostnaðarmeta.) og hún kostnaðarmetin, vissulega, og hinar pólitísku og faglegu hliðar málsins reifaðar.

Ég hjó eftir því að hæstv. iðnaðarráðherra sagði um þetta efni að enda þótt sinn flokkur stæði að þessu lagafrumvarpi í heild sinni, enda farið í gegnum ríkisstjórn, væri það þingsins að kveða endanlega upp úr um niðurstöðu í málinu og þá einnig, skildi ég, varðandi 18. gr. þótt hæstv. ráðherra gæfi ekki neinar afdráttarlausar yfirlýsingar á einn veg eða annan í því efni. Það er að sjálfsögðu rétt að þingið tekur endanlega ákvörðun um það.

Af þessu lagafrumvarpi hafa spunnist talsverðar umræður um einkarekstur og einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar. Við höfum bent á það að Sjálfstæðisflokkurinn hefur þann skýra ásetning að færa heilbrigðisþjónustuna að því marki sem kostur er út í einkarekstur. Mun honum takast það? Það er eðlilegt að menn spyrji þeirrar spurningar. Það er undir ýmsu komið. Það er undir því komið hvort Alþingi, þjóðfélagið að sönnu, sýnir andvaraleysi eða veitir Sjálfstæðisflokknum og einkarekstrarsinnum innan vébanda hans aðhald. Fyrst og fremst er það spurning um samstarfsflokkinn, Samfylkinguna.

Í ríkisstjórnum fá ráðherrar talsvert svigrúm til ákvarðanatöku innan síns málasviðs. Þess vegna höfðum við sem viljum standa vörð um almannaþjónustuna og að hún sé á vegum hins opinbera af því áhyggjur þegar Sjálfstæðisflokkurinn fékk heilbrigðisráðuneytið í sínar hendur.

Þá aftur að þessari spurningu: Mun flokknum takast að færa heilbrigðiskerfið út í einkarekstur? Ég held að það sé mjög auðvelt að gera það ef við sýnum andvaraleysi. Hvers vegna er það auðvelt og hvernig er það gert? Jú, fyrst er skapaður lagarammi. Á Íslandi eru aðstæður fyrir hendi. Við erum með kerfi sem byggir á eins konar kokkteil, blöndu af einkarekinni þjónustu og almannaþjónustu á vegum hins opinbera. Menn hafa verið sæmilega sáttir við þessa blöndu, spurningin er hvar við drögum línurnar. Ætlum við að færa meiri heilbrigðisrekstur yfir í hendur einkafyrirtækja? Við erum með efasemdir um það.

En það mun gerast ef framlag til heilbrigðisþjónustunnar er skorið niður vegna þess að einkareksturinn er fyrir hendi. Hann á samningana. Hann færir kröfur sínar á ríkisvaldið og þar eru stjórnarflokkarnir báðir á þeirri skoðun að skattborgarinn eigi að borga brúsann, almenningur eigi að greiða í gegnum skatta kostnað við heilbrigðisþjónustuna.

Ég gat um það áðan að þegar við tökum ákvörðun um það, þingið, fjárveitingavaldið, að skjóta á frest stækkun Landspítalans svo að dæmi sé tekið er ekki þar með sagt að ekki verði reistur spítali. Hann verður bara reistur í Garðabæ og hann verður opnaður í heilsuverndarstöðinni á nýjum forsendum, á forsendum einkafjármagnsins sem síðan kemur með reikninginn í fjármálaráðuneytið. Aðgerðaleysi eða niðurskurður gagnvart opinberri heilbrigðisþjónustu er ávísun á einkarekstur ef búið er að skapa nauðsynlegan lagaramma. Og hann er fyrir hendi á Íslandi.

Hér á að stíga enn eitt skrefið í þessa áttina með sölumiðstöðinni. Sölumiðstöðin á að annast samninga við bæði opinbera aðila og einkaaðila. Þar eiga allir að sitja við sama borð. Engan greinarmun á að gera á milli einkaaðila og opinberra aðila. Það er þetta sem við eigum við þegar við tölum um að verið sé að verslunarvæða heilbrigðisþjónustuna. Það er verið að setja hana í pakkningar, allt sé mælanlegt í krónum og aurum. Þetta er viðskiptavæðing heilbrigðisþjónustunnar sem við teljum mjög varasama.

Ég velti því fyrir mér þegar Læknafélagið kýs til forustu ágæta manneskju sem er þó mjög höll undir einkavæðingarhugsunina og talar þannig að margir læknar séu einnig á þeirri skoðun — aðrir hópar innan læknastéttarinnar eru því vissulega andvígir, en þetta eru viðhorfin sem heyrast frá forustu Læknafélagsins — hvort læknar sem búa við allgóðan hlut á Íslandi og hafa talsvert svigrúm hafi fyllilega gert sér grein fyrir hvert stefnir. Það mun henda þá nákvæmlega það sama og hefur gerst í Evrópu þar sem farið hefur verið út á þessar brautir. Smám saman hafa sérfræðingarnir glatað sjálfstæði sínu. Þeir enda eins og aðrar heilbrigðisstéttir sem launafólk inni á einkareknum sjúkrahúsum. Þá velti ég fyrir mér hvort þessi stétt, læknarnir, hafi hugsað þessi mál alveg til enda. Ég er ekki viss um það.

Ég fagna því að hæstv. iðnaðarráðherra hefur talað fyrir hönd síns flokks í þessu máli. Við gagnrýndum það fyrr við umræðuna að fulltrúar Samfylkingarinnar hefðu ekki látið sjá sig við hana. Iðnaðarráðherra kom í þingið og blandaði sér í umræðuna. Það þykir mér gott. Ég óska ekki eftir neinum frekari svörum frá honum á þessu stigi, alls ekki. Ég biðla hins vegar til stjórnarflokkanna um að skoða hvort þeir væru til viðtals um að skjóta 18. gr. þessa lagafrumvarps á frest. Ég held að það geri ekkert nema gott, það væri enginn skaði að því í reynd. Það eina sem við erum að óska eftir með því er að við tökum þá umræðu þegar fyrir þinginu liggur umrætt frumvarp um þessa nýju sölumiðstöð, sjúklingasölumiðstöð. Við viljum ekki að henni verði komið á fót án umræðu. Þetta er okkar ósk.