Tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands

Þriðjudaginn 11. desember 2007, kl. 16:29:28 (3017)


135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[16:29]
Hlusta

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það sem maður hefur orðið vitni að í dag gerir það að verkum að nú brennur á manni hve brýnt er að fara í þær breytingar sem fyrir liggur að gera á þingskapalögum. Sá málflutningur sem hér hefur verið stundaður, sem er ekkert einsdæmi, sýnir mikilvægi þess. Hann hefur ekkert með málfrelsi að gera og hvað þá lýðræði. En nóg um það.

Ég ætla að fjalla aðeins um svokallaðan bandorm. Það er margt ágætt í þessu frumvarpi. Má þar t.d. nefna tilfærslu matvælaeftirlits á einn stað. Því þarf að fylgja vinna við nýja matvælalöggjöf og um þetta virðist fagfólk sem gerst þekkir til á þeim vettvangi sammála og almennt mjög hlynnt þessari framkvæmd þótt auðvitað sé einhver hræðsla í hópnum varðandi flutning út á land, á Selfoss. Það þarf auðvitað að gæta þess í meðförum málsins að taka eins mikið tillit til starfsmanna og hægt er þegar svo viðamiklar breytingar verða.

Ég vil líka nefna flutning búnaðarháskólanna til menntamálaráðuneytis. Ég held að þar sé stigið mjög gott skref, að þar fáist betri yfirsýn og miklir möguleikar á samþættingu starfsemi skólanna við aðra háskóla í menntakerfi okkar. Menntamálaráðherra hefur þegar skipað nefnd sem á að fjalla um framtíð Hólaskóla á mjög jákvæðum nótum, til að efla og styrkja alla þá góðu starfsemi.

Ég tek alls ekki undir áhyggjur hv. þm. Jóns Bjarnasonar af því að samstarf atvinnugreinarinnar og skólanna sé í hættu við þessa breytingu. Miklu frekar held ég að samstarf þessara skóla við atvinnulífið muni aukast almennt. Við höfum mörg dæmi um í háskólasamfélaginu, mjög jákvæð og góð dæmi, um samstarf háskóla við atvinnulífið. Ég held að þetta muni bara efla tengslin og styrkja. Það hefur verið mikil gróska í háskólum og áhugaverðar stofnanir orðið til á þeim vettvangi. Má nefna skóla úti á landi eins og á Bifröst og Akureyri sem hafa gert góða hluti.

Fleira gott mætti telja sem ég ætla ekki að eyða tíma í sérstaklega. En ég ætla að fjalla um mál sem mikið voru rædd í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd þar sem ég á sæti og ekki var einhugur um. En það eru sérstaklega málefni skógræktar og landgræðslu.

Ég hafði í nefndinni fyrirvara við afgreiðslu málsins. Hans er reyndar ekki getið í álitinu. Ég áttaði mig ekki á því fyrr en of seint og tel það miður. En ég ætla að koma þeim fyrirvörum mínum á framfæri í stuttu máli.

Í athugasemdum við lagafrumvarpið segir að í þessu lagafrumvarpi hafi verið ákveðið að fara heildstætt yfir verkaskiptingu á milli ráðuneyta með það fyrir augum að hagræða, einfalda stjórnsýslu og skipa skyldum málaflokkum undir eina stjórn. Ég á svolítið erfitt með að sjá að í þeim málaflokkum sem ég tek fyrir sérstaklega sé verið að einfalda stjórnsýslu og skipa skyldum málaflokkum í sama farveg. Það kom glögglega fram í athugasemdum umsagnaraðila.

Umsagnaraðilar töldu einna alvarlegast að í frumvarpinu skuli því haldið fram að við undirbúning frumvarpsins í hlutaðeigandi ráðuneytum hafi verið haft víðtækt samráð við þær stofnanir sem í hlut eiga. Í greinargerð er fjallað um hið víðtæka samráð. En sé tekið mark á og hlustað á þá sem komu á fund nefndarinnar þá segir m.a. í athugasemdum frá Landgræðslunni að varðandi málefni Landgræðslu ríkisins sé þeirri fullyrðingu alfarið vísað á bug. Ef þessi fullyrðing ætti við rök að styðjast hvað varðar Landgræðslu ríkisins þá hefði væntanlega ekki verið ástæða til þeirra ítarlegu athugasemda sem þeir gerðu við frumvarpið og gerðu grein fyrir.

Hið sama gildir um ummæli og umsagnir frá Skógrækt ríkisins, frá Rannsóknastöðinni á Mógilsá og frá Skógræktarfélagi Íslands. Við lestur frumvarpsins er erfitt að sjá, t.d. varðandi málefni Skógræktarinnar, einföldun ferla og það að málefnið sé á sömu hendi. Það segir í athugasemdum með frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Þá munu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og umhverfisráðherra standa í sameiningu að gerð rannsóknarsamnings við Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins á Mógilsá til þriggja til fimm ára um rannsóknir í þágu skógræktar, í fyrsta sinn á árinu 2008. Fjármunir til hagnýtra rannsóknarverkefna á sviði landbúnaðar, sem nú eru á viðfangsefni Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins á Mógilsá, verða áfram hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti. Gert er ráð fyrir að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið í samráði við Bændasamtök Íslands og umhverfisráðuneyti geri samning til þriggja ára við Skógrækt ríkisins um að Rannsóknastöðin á Mógilsá annist tilteknar rannsóknir í þágu landbúnaðar fyrir a.m.k. andvirði þeirrar fjárhæðar árlega með sama hætti og verið hefur til þessa.

Loks munu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, umhverfisráðherra og forstöðumenn Skógræktar ríkisins og Landgræðslu ríkisins gera með sér samning um áframhaldandi umsjón tveggja síðasttöldu stofnananna á jörðum og jarðahlutum sem tilgreind eru í viðaukum við þann samning. Í samkomulaginu verða ákvæði þess efnis að landbúnaðarráðuneytið beiti sér fyrir því að lagt verði fram lagafrumvarp er kveði á um að forræði þeirra svæða sem nefnd hafa verið einu nafni „þjóðskógar“, færist til umhverfisráðuneytisins.“

Í reglum um stjórn og verksvið Rannsóknastöðvar Skógræktar ríkisins á Mógilsá segir að ráðherra skógræktarmála, sem verður þá væntanlega umhverfisráðherra, skipi sjö menn í fagráð til fjögurra ára í senn og fagráðið skuli taka ákvarðanir um rannsóknarverkefni og afgreiða rannsóknaráætlanir. Það skuli síðan fylgjast með framvindu rannsókna og koma með ábendingar þar að lútandi og tillögur um ný rannsóknarverkefni.

Maður spyr, virðulegi forseti, hvort þetta sé til að hagræða og einfalda stjórnsýslu og skipa skyldum málaflokkum undir eina stjórn. Hér er hrært saman fjármagni og mörgum ráðuneytum og stofnunum sem þurfa að gera með sér samstarfssamninga um hvernig staðið verði að hinum mismunandi verkefnum. Maður spyr sig hvort ekki hefði verið heppilegra að halda þessu áfram undir einni stjórn, og þá helst undir stjórn landbúnaðarmála þar sem málaflokkarnir eru svo nátengdir landbúnaði. Þannig verður stærri hluti allra verkefna hjá ráðherra landbúnaðarmála þar sem nytjaskógræktin verður þar en skógrækt er í sjálfu sér, virðulegi forseti, nytjaskógrækt. Eða er til eitthvað sem heitir ónytjaskógrækt? Ég held ekki.

Það eru til mörg markmið með skógrækt. Við viljum búa til viðarafurðir til iðnaðarnota, rækta illa farið eða eytt land til gróðurþekju og bæta jarðveg og vatnsbúskap. Menn búa til skjólbelti, binda land og auka gæði þess. Við ræktum líka útivistarskóga, sem er svokölluð yndisskógrækt. Allt er þetta meira og minna nytjaskógrækt þótt mismunandi aðilar komi þar að.

Af 40.000 jólatrjám sem seld eru á íslenskum markaði fyrir jólin eru 10.000 íslensk. Fjölskyldan fer í skóginn og heggur sér tré. Mörg skógræktarfélög standa að þessu og nýta þannig skóginn. Hvar á að draga mörkin milli nytjaskógar og ekki nytjaskógar?

Þá komum við kannski að stóra atriðinu upp á framtíðina sem er kolefnisbindingin. Þar með er náttúrlega öll skógrækt miklu verðmætari nytjaskógrækt en hún gefur af sér í dag.

Stefna stjórnvalda sem að kynnt var hér í þinginu fyrir nokkrum dögum og fylgt verður eftir á fundi umhverfismála á Balí er að mörgu leyti skynsamleg. Þar er komið inn á mikilvægi nýtingar náttúruauðlinda og þegar kemur að nýtingu náttúruauðlinda þá eru engin landamæri. Það er gott að hafa það í huga að þar eru engin landamæri og kannski vaknar sú spurning einn daginn hvort sú umhverfisvæna orka sem við framleiðum á Íslandi og getum framleitt í meiri mæli eigi ekki að standa undir iðnaðarframleiðslu í stað þess að framleiða hráefni með kola- og olíustöðvum annars staðar í heiminum. Í Þýskalandi er t.d. verið að reisa yfir 20 kolastöðvar til rafmagnsframleiðslu. Ætli við ættum ekki að líta okkur nær í þeim efnum? Það er líka talið að aukin kolefnisbinding með skógrækt muni ná til allt að 50% af markmiðum okkar í framtíðinni varðandi bindingu kolefnis.

Virðulegi forseti. Margir koma að skógrækt í landinu. Við erum með um 800 skógarbændur, í landshlutaverkefnum sem skipta miklu máli, sem hefur verið mikill kraftur í á undanförnum árum. Við erum með þetta um allt land. Við erum með skógræktarfélög og landshlutaverkefni og það hefur hreinlega orðið bylting á þessum vettvangi. Það hefur allt orðið undir einni stjórn sem þetta hefur verið í einum farvegi.

Við erum að taka ákveðna áhættu með þeim breytingum sem verið er að gera í dag. Skógræktarfélögin á Íslandi hafa áhyggjur af framvindu starfsemi sinnar. Við erum að tala um 61 félag í landinu með 7.500 félagsmenn. 300 svæði og 20.000 hektarar lands í ræktun. Þetta er samstarf margra aðila. Þetta er samstarf þessara félaga, einstaklinga innan þeirra, landeigenda og ekki síst bænda sem eru landeigendur í mörgum tilfellum. Með þeim breytingum sem til standa verður þetta sett undir tvær stjórnir. Af því hafa þessir aðilar miklar áhyggjur.

Það á sér vart hliðstæðu í Evrópu að málaflokkurinn sé klofinn með þeim hætti sem lagt er til. Þau lönd sem við berum okkur saman við, svo sem England og Skotland, hafa sérstaka löggjöf um þetta. Það á við í Evrópusambandinu almennt og í Finnlandi, Noregi, Svíþjóð, Þýskalandi, svo ég nefni einhver lönd, heyrir þessi málaflokkur undir landbúnaðarmál. Það er eingöngu í Danmörku sem umhverfisráðuneytið hefur með þetta að gera, af þeim löndum sem við berum okkur við.

Ef við komum að Landgræðslunni í þessu samhengi að þá er eitt af stærstu verkefnum hennar Bændur græða landið. Það hófst fyrir 17 árum og er samstarfsverkefni Landgræðslu ríkisins við bændur og landeigendur um landgræðslu á heimalöndum þeirra. Þátttakendur í dag eru 650. Það eru margir. Þar eru margar jarðir undir. Þetta eru fjölþætt verkefni sem miða að því að endurheimta sködduð vistkerfi og gera þau starfhæf á ný m.a. með líffræðilegum fjölbreytileika, kolefnisbindingu og vatnsmiðlun í huga. Hverjir eru mestu ræktendurnir og hverjir þurfa að nýta landið? Það eru auðvitað bændur.

Öll fagsvið Landgræðslunnar hafa komið að þessu verkefni. Þetta er eitt af mikilvægustu verkefnum Landgræðslu ríkisins. Það byggir að öllu leyti á jákvæðu samstarfi við grasrótina og mikið traust hefur skapast milli starfsmanna Landgræðslunnar og landeigenda. Öll samskipti vegna annarra verkefna, svo sem gæðastýring í sauðfjárrækt og annað sem að þessu lýtur, eru miklu liprari. Þjónusta og ráðgjöf Landgræðslunnar fyrir þátttakendur í Bændur græða landið -verkefninu varðar öll starfsvið stofnunarinnar og er órjúfanlega samþætt starfi hennar að gróðurvernd, stöðvun jarðvegsfoks og endurheimt skaddaðra vistkerfa. Það kom fram hjá landgræðslustjóra að nánast öll verkefni Landgræðslunnar eru tengd bændum eða eru í samvinnu við bændur, uppgræðsla, landnýting, beitarþol og svo má lengi telja. Aftur spyr ég: Erum við með þessum breytingum að einfalda stjórnsýslu?

Í athugasemdum með frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Í 5. þætti frumvarpsins er lagt til að stjórnsýslulegt forræði og ábyrgð á Skógrækt ríkisins og Landgræðslu ríkisins færist frá landbúnaðarráðuneyti til umhverfisráðuneytis.“

Aftur komum við að því að það þarf að fara að vinna að samkomulagi milli ráðuneyta. Fjármagnið er öðrum megin en verkefnin hinum megin:

„Samkomulag er á milli viðkomandi ráðuneyta um að fjármunir til verkefnisins Bændur græða landið, sem ætlaðir eru til uppgræðslu á heimajörðum bænda og eru nú á fjárlagalið Landgræðslunnar, verði á forræði og fjárlagalið sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis. Ráðuneytið mun gera samning til þriggja ára um að Landgræðslan annist framkvæmd og eftirlit með þeim verkefnum á sama hátt og stofnunin hefur gert til þessa.

Enn fremur verða fjármunir til framkvæmda á grundvelli laga nr. 91/2002, um varnir gegn landbroti, innan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis. Ráðuneytið mun gera samning við Landgræðslu ríkisins til þriggja ára um óbreytt hlutverk Landgræðslunnar varðandi yfirstjórn og framkvæmd varna gegn landbroti.“

Aftur hlýt ég að spyrja: Erum við með þessum breytingum að einfalda stjórnsýslu og skipa skyldum málaflokkum undir eina stjórn? Það er vandséð, virðulegi forseti.

Ég vil aðeins, til að styðja mál mitt, koma að umsögnum þeirra sem komu fyrir landbúnaðarnefnd vegna þessa máls. Ég gríp niður í þessar umsagnir, með leyfi forseta, hér og þar.

Að mati Skógræktar ríkisins er verið að flækja málin að óþörfu og fjarlægjast höfuðmarkmið lagafrumvarpsins meira með því að kljúfa forræði fyrir einni stofnun milli tveggja ráðuneyta. Þeir segja hér:

„Erfitt er að koma auga á að hagræðing og einföldun á stjórnsýslu felist í þessum breytingum hvað þá að verið sé að skipa skyldum málaflokkum undir sömu stjórn. … Hver er ráðherra skógræktarmála þegar umhverfisráðherra hefur að nafninu til forræði yfir Skógrækt ríkisins en sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur forræði yfir stærstum hluta fjárveitinga til málaflokksins og flestum verkefnum hans?“

Þetta er mjög gild spurning. Í sömu umsögn segir jafnframt:

„Umhverfisráðherra verður titlaður ráðherra skógarmála en það verða orðin tóm.“

Skógfræðingafélag Íslands sendi einnig umsögn:

„Skógfræðingafélag Íslands telur skynsamlegra að öll stjórnsýsla sem snertir skógrækt á vegum ríkisins verði vistuð í einu ráðuneyti. … Skógfræðingafélag Íslands telur að æskilegt sé að bæði fjárveitingar til þjóðskóganna og stofnunin í heild verði í sama ráðuneyti og Skógrækt ríkisins fari áfram ótvírætt með forræði yfir þjóðskógunum. … Skógfræðingafélag Íslands telur mikilvægt að tryggja fjármögnun á þeim verkefnum sem þegar eru í gangi hjá Rannsóknastöð skógræktar og vistun stöðvarinnar verði á sama stað og fjárveitingarnar verða.“

Síðan höfum við umsögn Landssamtaka skógareigenda:

„Stjórn Landssamtaka skógareigenda leggur á það mikla áherslu að landshlutabundnu skógræktarverkefnin verði áfram hjá landbúnaðarráðuneytinu eins og ráðgert er. Þau hafa frá byrjun eingöngu verið verkefni bænda sem hafa það að markmiði að byggja upp skógarauðlind samhliða því að efla atvinnu í dreifbýli. Við bendum á að um 80% af allri nýskógrækt fer fram hjá bændum innan landshlutabundnu skógræktarverkefnanna. Þessi verkefni eru einhver best heppnuðu byggða- og skógræktarverkefni seinni ára.

Með því að skipta málaflokknum skógrækt niður á tvö ráðuneyti drögum við í efa að markmið um hagræðingu og einfalda stjórnsýslu náist eins og getið er um í fylgiskjali frumvarpsins.“

Frá Skógræktarfélagi Íslands kemur ályktun sem ég ætla að vitna í, með leyfi forseta:

„Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands, haldinn á Egilsstöðum 17.–19. ágúst 2007, beinir því til ríkisstjórnar Geirs H. Haarde, að við þær breytingar sem fram undan eru á skipan Stjórnarráðs Íslands verði tryggt að þær veiki ekki það öfluga starf sem fram fer í landinu í skógrækt og landgræðslu. Jafnframt verði rannsóknastarf í þágu málaflokksins eflt.“

Í framhaldi af ályktuninni segir í umsögn félagsins, með leyfi forseta:

„Skógræktarfélag Íslands leggur því til að málaflokkurinn í heild sinni tilheyri aðeins einu ráðuneyti þar sem skyldur og markmið eru skýr og yfirstjórn og ábyrgð haldist í hendur.“

Hægt væri að lesa áfram úr slíkum umsögnum frá mismunandi aðilum alls staðar að af landinu, virðulegi forseti. Athugasemdir og áhyggjur manna af því að breytingarnar verði þessum mikilvæga málaflokki ekki til framdráttar. Það er viðbúið að þetta geti orðið dýrara í framkvæmd og muni hægja á starfsemi, að stjórnsýslan verði flóknari og ekki verði af sú hagræðing sem átti að vera markmið frumvarpsins.

Virðulegi forseti. Á þeim forsendum sem ég hef rakið hef ég miklar efasemdir um að rétt sé að málaflokkar skógræktar og landgræðslu fari frá landbúnaðarráðuneyti til umhverfisráðuneytis. A.m.k. virðist ljóst að ákveðið óhagræði fylgi því að slíta starfsemi þeirra sem að þessum málaflokkum koma svo mikið í sundur og erfitt er að sjá hagkvæmni þess. Eins og ég hef áður vikið að er margt gott í frumvarpinu en ég set fyrirvara við þennan þátt þess.