Tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands

Þriðjudaginn 11. desember 2007, kl. 18:21:29 (3031)


135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[18:21]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Þingflokkur Frjálslynda flokksins tók þá afstöðu varðandi þetta frumvarp að við styðjum það með fyrirvörum sem varða landgræðslu og skógrækt sem við teljum að hefði verið heppilegt að hafa í einu ráðuneyti. Í sjálfu sér tökum við ekki sérstaka afstöðu til þess hvort það ætti að vera landbúnaðar- eða umhverfisráðuneyti þó að það sé frekar skoðun manna að það hefði átt að vera landbúnaðarráðuneytið. Miðað við að öðru leyti tilurð, tilkomu og þróun mála teljum við frumvarpið eins og það er nú ásættanlegt þó að margt hefði betur getað farið. Þar af leiðandi erum við ekki sammála tillögu minni hlutans um að vísa beri málinu frá. Við teljum ekki vera fyrir hendi þær forsendur sem koma fram í tillögu minni hlutans, hv. þm. Atla Gíslasonar og Sivjar Friðleifsdóttur, til að frumvarpinu verði vísað frá með rökstuddri dagskrá þar sem segir að lagasetningin sem í frumvarpinu felst muni ekki hafa í för með sér þá skilvirkni, hagræðingu og einföldun sem að er stefnt.

Í gangverki eins og þessu er spurningin með hvaða hætti og hvernig hlutum verður komið hagkvæmast fyrir. Um margt má deila og það er mismunandi hvernig menn vilja skipa málum en í sjálfu sér verður ekki sagt annað en að almennt hafi vel tekist til í því frumvarpi sem hér er um að ræða.

Það er öldungis ljóst að þetta mun ekki frekar en önnur mannanna verk standa um eilífð og það verður að sjá hvernig til tekst. Það eru þó ákveðin atriði eins og ég benti á varðandi skógrækt og landgræðslu. Síðan er spurningin hvernig hefði átt að koma ferðamálum fyrir en í heildina litið verður að líta til þess að þokkalega hafi tekist til hvað varðar skilvirkni og hagkvæmni í ríkisrekstrinum. Við í þingflokki Frjálslynda flokksins lítum þannig á að það frumvarp sem hér er um að ræða sé ásættanlegt með þeim undantekningum sem ég mun víkja að síðar.

Að öðru leyti er gagnrýnt af minni hluta allsherjarnefndar sem skilaði áliti, hv. þm. Atla Gíslasyni og Siv Friðleifsdóttur, að ekki sé um að ræða nægilega vandaða málsmeðferð. Það getur verið spurning. Það var fjallað um þetta frumvarp ítarlega á þingi og síðan fékk það ágætismeðferð hjá allsherjarnefnd Alþingis. Í sjálfu sér er ekki hægt að taka undir að þar hafi ekki verið um að ræða eðlilega eða vandaða málsmeðferð þó að æskilegt hefði verið að fara ítarlegar yfir og skoða ákveðin mál nákvæmar. Hins vegar er rétt að ekki lá fyrir nákvæm kostnaðargreining um kostnaðinn sem mundi hljótast af framkvæmd frumvarpsins.

Í athugasemdum við lagafrumvarpið eins og það var lagt fram á Alþingi segir:

„Við myndun núverandi ríkisstjórnar var ákveðið að fara heildstætt yfir verkaskiptingu milli ráðuneyta með það fyrir augum að hagræða, einfalda stjórnsýslu og skipa skyldum málaflokkum undir eina stjórn.“

Meginatriðið í sambandi við það frumvarp sem hér er um að ræða var að fara heildstætt yfir verkaskiptingu á milli ráðuneyta. Að sjálfsögðu er það rétt sem hér hefur verið bent á að það var með tilliti til þess hvernig mál höfðu skipast við stjórnarmyndun. Eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir fór ítarlega í áðan var spurningin hvernig mál hefðu skipast þegar stjórnarmyndunarviðræður fóru fram. Málum er háttað svo sem um ræðir og lagt er til hér vegna þess að samningar milli Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar urðu með þeim hætti sem raun ber vitni. Þar af leiðandi var iðnaðarráðuneyti klofið frá viðskiptaráðuneyti þó að samanlagður stöðugildafjöldi þar væri ekki nema 28. Út frá hagkvæmni, hagræðingu og einföldun í stjórnsýslunni, svo sem kveðið er á um að hafi verið markmiðið með lagasetningunni, var því fjarri að ástæða væri til að kljúfa upp iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið með tilliti til þeirra sjónarmiða.

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir vék að því að það væri sjálfsagt vegna þess hversu fábrotið væri og lítið um að vera í iðnaðarráðuneytinu sem hæstv. iðnaðarráðherra Össur Skarphéðinsson væri svo mikið hér í þingsal sem raun ber vitni. Ég verð að lýsa því yfir að ég er mjög ánægður yfir því að hæstv. iðnaðarráðherra Össur Skarphéðinsson sé hér sem lengst og mest vegna þess að hann gerir þá ekkert af sér í iðnaðarráðuneytinu á meðan. Það er hins vegar annað mál að þó að iðnaðarráðuneytið sé ekki mannmargt eða stórt er mikil nauðsyn til að huga vel að málum og nýsköpun þar. Fyrir utan þá stóriðju sem hefur verið sett á laggirnar hefur verið nánast stöðnun og í mörgum tilvikum afturför hvað varðar íslenskan iðnað, því miður, og ástæðan er m.a. hágengisstefnan þannig að íslenskur samkeppnisiðnaður hefur átt mjög í vök að verjast. Þrátt fyrir fæð starfsmanna í iðnaðarráðuneytinu er virkilega mikið verk að vinna og nauðsyn að móta ákveðna iðnaðarstefnu með öðrum hætti en gert hefur verið af stjórnvöldum til þessa til að tryggja vöxt og framgang í íslenskum iðnaði þannig að íslenskur iðnaður stuðli að aukinni velmegun íslenskrar þjóðar. Þó að mér þyki í sjálfu sér persónulega vænt um að sjá hæstv. iðnaðarráðherra sem oftast í þingsölum hygg ég að hann hafi verk að vinna sem ætti að krefjast aukinna starfa hans sem mundi þá draga úr veru hans í þingsölum. Það er í sjálfu sér annað mál.

Út af ummælum hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur vil ég taka fram að þó að ekki séu ýkja margir starfsmenn í iðnaðarráðuneytinu er þar gríðarlega mikið verk að vinna. Það er nauðsynlegt að taka upp nýja iðnaðarstefnu og þá sérstaklega með tilliti til þess með hvaða hagkvæmni er hægt að auka iðnaðarframleiðslu í landinu og stuðla að því að íslenskur samkeppnisiðnaður fái það starfsumhverfi sem gerir honum kleift að þróast, þroskast og dafna. En þá verður að sjálfsögðu að vera ákveðinn umbúnaður í því sambandi, eins og t.d. gengisstefna með eðlilegum hætti og vaxtastig og lánakjör sömuleiðis en á þetta allt saman hefur skort undanfarin ár.

Það kemur manni nokkuð á óvart þegar maður fer að skoða stjórnsýsluna og hvað um er að ræða varðandi fjölda starfsmanna í Stjórnarráðinu að eitt ráðuneytið sker sig algerlega úr hvað snertir fjölda starfsmanna, utanríkisráðuneytið. Þar eru 103 starfsmenn, 98,5 stöðugildi. Það ráðuneyti sem næst kemur er menntamálaráðuneytið með 75 starfsmenn, 71 stöðugildi, og menn sjá að það er vægast sagt mjög sérstakt hvað varðar fjölda starfsmanna Stjórnarráðsins að stjórnarráðsstarfsmenn sem heyra undir utanríkisráðuneytið skuli vera langsamlega flestir af öllum ráðuneytunum. Miðað við það hvernig þeim hlutum á að vera háttað og mikilvægi mismunandi málaflokka er með öllu óeðlilegt að málum skuli vera komið þannig fyrir að utanríkisráðuneytið skuli hafa langsamlega flesta starfsmenn Stjórnarráðsins af öllum ráðuneytunum. Ég get ekki á það fallist að þar með hafi verið hagrætt og einfaldað í stjórnsýslunni og málum skipað sem hagkvæmast og skilvirkast.

Menn verða að líta til hvers málaflokks fyrir sig og gildis hvers ráðuneytisstarfs fyrir sig. Ég get ekki varist þeirri hugsun að þegar um utanríkisráðuneytið er að ræða hafi menn farið offari hvað varðar útþenslu þess ráðuneytis og að það sé verkefni stjórnsýslunnar, framkvæmdarvaldsins í landinu, að skoða með gagnrýnum huga hvort ekki sé nauðsynlegt að breyta um starfshætti í því ráðuneyti og fækka hreinlega starfsmönnum í samræmi við það sem eðlilegt getur talist fyrir þjóð eins og Íslendinga sem telur rúmlega 300 þús. og hefur ákveðna hagsmuni hvað varðar utanríkissamskipti — en ekki aðra.

Eins og ég gat um, virðulegi forseti, styðjum við þingmenn Frjálslynda flokksins þetta frumvarp í heild, teljum það ásættanlegt með þeim undantekningum að við teljum að ekki hafi verið farið rétt að varðandi skógrækt og landgræðslu. Ég vil leyfa mér að vísa til þess sem skógræktarstjóri ríkisins segir í sambandi við þetta mál, með leyfi forseta:

„Að mati Skógræktar ríkisins er hér í uppsiglingu eitt allsherjarstjórnsýslulegt klúður á málaflokknum skógrækt, sem draga mun úr mætti skógræktarstarfs í landinu um ókomin ár. Greinilega er ekki pólitísk samstaða um flutning á forræði yfir málaflokknum til umhverfisráðuneytisins og felst málamiðlunin í því að kljúfa hann upp. Forræði skógræktarmála í Stjórnarráðinu verður þar með óljósara og má gera því skóna að skógræktarmál verði nokkurs konar „einskis manns barn“ í stjórnkerfinu. Skorum við á Alþingi að taka þessar athugasemdir alvarlega og láta slíkt ekki gerast.“

Í umsögn frá Bændasamtökum Íslands segir, með leyfi forseta:

„Stjórn BÍ leggst eindregið gegn því að landgræðsla og skógrækt flytjist frá landbúnaðarráðuneyti til umhverfisráðuneytis. Verkefni á báðum sviðum hafa verið að flytjast til bænda, og horft er til þess að landgræðsla og skógrækt geti orðið vaxandi þættir í tekjuöflun sveitanna í framtíðinni.“ — Síðan er vikið að ræktun nytjaskóga og öðru í því sambandi.

Í áliti meiri hluta allsherjarnefndar kemur ekki fram neinn sérstakur rökstuðningur með því fyrirkomulagi sem hér er um að ræða. Í meirihlutaálitinu segir einfaldlega þetta:

„Í fimmta þætti eru lagðar til breytingar í þeim tilgangi að færa stjórnsýslulegt forræði og ábyrgð á Skógrækt ríkisins og Landgræðslu ríkisins frá landbúnaðarráðuneyti til umhverfisráðuneytis.“

Það er ekkert annað sagt í meirihlutaálitinu en lýsing á því hvað eigi að gera, enginn rökstuðningur. Þrátt fyrir að fram hafi komið margvísleg andmæli gegn þessu ráðslagi sér meiri hluti allsherjarnefndar ekki ástæðu til að sinna því í nokkru eða rökfæra á hvaða grunni sú skipan sem hér er lögð til varðandi landgræðslu og skógrækt byggist.

Ég hlustaði með athygli á ræðu hv. þm. Jóns Gunnarssonar áðan þar sem hann fjallaði um þessi málefni, skógrækt og landgræðslu, og hversu rangt væri farið að í þeirri aðferðafræði sem gert væri ráð fyrir í þessu frumvarpi. Ég tek undir þau sjónarmið og þau orð sem hv. þm. Jón Gunnarsson viðhafði áðan varðandi þessi atriði, hann flutti ræðu sína mjög skörulega og sjónarmið hans eru algerlega í samræmi við þau sjónarmið og þær skoðanir sem þingflokkur Frjálslynda flokksins hefur mótað hvað þessi atriði varðar. Við teljum óeðlilegt að skipa málum þannig að það sé verið að skipta upp á milli ráðuneyta þessum mikilvægu málaflokkum.

Það eru 650 bændur í landinu sem vinna í verkefninu Bændur græða landið. Af hverju heyrir það verkefni þá ekki undir landbúnaðarráðuneytið? Er einhver skynsamleg skýring á því að fela þessi verkefni umhverfisráðuneytinu? Ég get ekki séð að svo sé.

Skógfræðingafélag Íslands benti á að það sem skipti mestu máli væri að þessi mál heyrðu í heild sinni undir eitt ráðuneyti en væri ekki skipt upp. Það tökum við í þingflokki Frjálslynda flokksins undir, það skiptir meginmáli hér. Sá sem hér stendur telur að það hefði verið eðlilegt og rétt að báðir þessir málaflokkar, skógrækt og landgræðsla, hefðu heyrt að öllu leyti undir landbúnaðarráðuneyti og svo sem hv. þm. Jón Gunnarsson kom að í ágætri ræðu sinni áðan er sá háttur víðast hvar í okkar heimshluta, þ.e. að þessir málaflokkar heyra undir landbúnaðarráðuneyti viðkomandi landa. Þannig tel ég að rétt hefði verið staðið að þessu máli. Ég varð mjög ánægður með að hlusta á þessa ágætu ræðu hv. þm. Jóns Gunnarssonar og það að a.m.k. einn af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins á nú þegar fulla samstöðu með okkur í Frjálslynda flokknum. Vonandi verða þeir fleiri þegar fram í sækir.

Eins og ég gat um áðan teljum við í þingflokki Frjálslynda flokksins að frumvarpið sé, með þeim athugasemdum sem ég hef gert grein fyrir, ásættanlegt. Við munum styðja það frumvarp sem hér er um að ræða með þeirri undantekningu að við teljum ekki eðlilega aðferðafræðina varðandi skógrækt og landgræðslu.