Tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands

Þriðjudaginn 11. desember 2007, kl. 18:38:26 (3032)


135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[18:38]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Við erum með til 3. umr. frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands. Um þetta mál hefur nú þegar farið fram allmikil umræða, bæði í þingsal og einnig á vettvangi þeirrar þingnefndar, allsherjarnefndar, sem hefur haft málið til meðferðar og nefndarálit bæði frá meiri og minni hluta bera þess glögglega merki.

Ég verð að segja fyrir mig að mér finnst ekki mikið hafa skýrst af þeim álitaefnum sem bent var á strax við framlagningu málsins. Það hefur ekki mikið skýrst í meðförum þingsins. Ég sagði við 1. umr. að mér fyndist margt óljóst í þeim málatilbúnaði sem stjórnarflokkarnir hafa viðhaft varðandi þetta mál og allmikil óvissa væri ríkjandi í mörgu tilliti.

Ég minnti líka á það að þegar á vorþingi eða sumarþingi þegar hæstv. forsætisráðherra mælti fyrir breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands þá lét hann þess getið í andsvörum að það væri sjálfsagt að taka málefnalegar athugasemdir og hugmyndir til gaumgæfilegrar skoðunar og jafnvel að taka eitthvert mark á slíku. Nú sýnist mér á öllu að það hafi í raun ekki verið gert. Það virðist vera alveg sama hvaða málefnalegu sjónarmið og rök koma fram í ýmsum álitamálum í þessu frumvarpi, stjórnarmeirihlutinn hefur ekki lagt við hlustir og í raun ekki viljað gera neinar efnislegar breytingar á því frumvarpi sem hér er til umræðu frá því að það var lagt fram. Það eru vissulega nokkrar breytingartillögur frá meiri hlutanum en þær sýnast mér allar vera smávægilegar og fyrst og fremst tæknilegs eðlis en engar raunverulegar efnisbreytingar sem taka mið af þeim athugasemdum eða sjónarmiðum sem hafa komið fram í umræðunni, bæði frá þingmönnum og enn síður að tekið hafi verið tillit til þeirra fjölmörgu athugasemda og umsagna sem hv. allsherjarnefnd bárust þegar hún var með málið til umfjöllunar.

Það er auðvitað hægt að fara yfir málið allt á nýjan leik frá síðustu umræðu en ég ætla ekki að gera það, herra forseti, heldur impra á nokkrum meginatriðum sem mér finnst mikilvægt að halda til haga í umræðunni. Ég ætla að byrja á því sem lagt er til í 1. þætti frumvarpsins en þar er um að ræða breytingar sem lúta að flutningi sveitarstjórnarmála frá félagsmálaráðuneyti til samgönguráðuneytis. Ég hef látið þau sjónarmið í ljósi við þessa umræðu að ég teldi að margar skynsamlegar röksemdir gætu verið fyrir þeirri breytingartillögu og m.a. vísað til þess að samgöngumálin séu í raun og veru eitt stærsta byggðamálið, eitt stærsta málefni í þeim tilgangi að efla byggð í landinu og styrkja og efla sveitarstjórnarstigið. Þess vegna væri hægt að flytja sannfærandi rök fyrir því að sveitarstjórnarmálin flyttust til samgönguráðuneytisins. Ég hef líka sagt og ég stend við það að mér finnst það hins vegar ekki vera neinn bragur á því nema byggðamálin fylgi í leiðinni. Ég er sannfærður um að byggða- og sveitarstjórnarmál eru náskyldir málaflokkar, hanga mjög mikið saman og það er skynsamlegt að skipa þeim saman í stjórnsýslu ríkisins.

Ég sagði það strax á vorþingi í umræðum um frumvarp til breytinga á lögum um Stjórnarráð að ég saknaði þess að sjá ekki byggðamálin fara með sveitarstjórnarmálunum. Því ef samgöngumálin, sveitarstjórnarmálin og byggðamálin væru öll saman þá yrði til almennilegt byggða- og samgönguráðuneyti. Ég skildi hæstv. forsætisráðherra þannig í andsvörum á vorþinginu að það yrði hlustað á allar skynsamlegar tillögur og það væri ekki loku fyrir það skotið að það væri hægt að gera einhverjar breytingar. Staðreyndin er hins vegar sú að stjórnarliðar virðast hafa tekið ákvörðun um það eða forustumenn ríkisstjórnarflokkanna strax við myndun núverandi ríkisstjórnar, að hafa þetta með þessum hætti og hér yrði varla hnikað til nokkrum stafkrók, sama hvaða röksemdir og umsagnir kæmu fram eða hvaða álit og skoðanir yrðu settar fram í þessu máli.

Þess vegna tel ég það vera rétt sem ýmsir ræðumenn hafa sagt nú við umræðuna að forustumenn stjórnarflokkanna hafi samið um þessa skipan mála þegar ríkisstjórnin var mynduð. Það var pólitísk nauðsyn að hvor flokkur um sig fengi jafnmarga ráðherrastóla, en hvað gerist síðan við skiptingu ráðuneytanna á milli flokkanna frá því að Framsóknarflokkurinn var í hjónabandi með Sjálfstæðisflokknum? Það gerist að Sjálfstæðisflokkurinn lætur af hendi eitt ráðuneyti frá því sem hann hafði, þ.e. samgönguráðuneytið sem fer yfir til Samfylkingar en fær á móti tvö ný ráðuneyti í sinn hlut, þ.e. landbúnaðarráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið. Tilfærslan varð sem sagt sú að Sjálfstæðisflokkurinn fékk tvö ný ráðuneyti en lét eitt af hendi og þegar stærðfræðingurinn gengur í salinn dettur mér það í hug að Sjálfstæðisflokkurinn hafi nettó bætt við sig einu ráðuneyti og miðað við að fjöldi ráðherra er óbreyttur þá hlýtur það að þýða að Samfylkingin fékk einu ráðuneyti minna en Framsóknarflokkurinn hafði. Nú kann vel að vera að þingmönnum þyki þetta sjálfsagt af því að Sjálfstæðisflokkurinn sé stærri og það kann vel að vera en þetta er ekki í samræmi við það sem haldið hefur verið fram.

Samfylkingin fór vitaskuld með skarðan hlut frá borði í þessum viðskiptum og til þess að þetta liti vel út á yfirborðinu þá tóku menn sig til og sameinuðu landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið í eitt ráðuneyti þannig að það verður að telja það sem eitt, skiptu síðan upp iðnaðarráðuneytinu og viðskiptaráðuneytinu þannig að hægt væri að telja það sem tvö eða það væru a.m.k. tveir stólar, svo þessu sé til haga haldið.

Ég hef hins vegar sagt það að ef menn hefðu farið í raunverulega heildstæða endurskoðun á Stjórnarráðinu, eins og segir í greinargerð með frumvarpinu að sé verið að gera og ég tel að sé ekki rétt, þá hefðu menn að sjálfsögðu hugsað sem svo: Eigum við ekki að taka atvinnuvegina alla í eitt ráðuneyti? Eigum við ekki að hugsa auðlindamálin alveg með nýjum hætti og taka auðlindanýtinguna, auðlindamálin ásamt með umhverfismálunum í eitt ráðuneyti? Þá hefði verið hægt að taka orkumálin inn í umhverfis- og auðlindaráðuneyti og byggðamálin sem eru í iðnaðarráðuneytinu í byggða- og samgönguráðuneytið og þá væri svo sem ekkert eftir í iðnaðarráðuneytinu því iðnaðurinn hefði þá farið í nýtt atvinnuvegaráðuneyti og þá hefði verið hægt að leggja niður þetta iðnaðarráðuneyti og stólinn undan Össuri Skarphéðinssyni um leið. En það var auðvitað ekki það sem til stóð þegar samið var um myndun hæstv. ríkisstjórnar á flekasvæðinu á Þingvöllum í vor.

Í þeim athugasemdum sem fram hafa komið við þetta frumvarp má segja að mestur ágreiningur sé gerður um þann þátt sem lýtur að flutningi landgræðslu og skógræktar, að undanskilinni ræktun nytjaskóga, til umhverfisráðuneytis og breytingar er lúta að því að skýra valdmörk sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis og umhverfisráðuneytis. Ég vil taka undir með þeim þingmönnum sem hafa vitnað í ræðu hv. 7. þm. Suðvesturkjördæmis, Jóns Gunnarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins sem flutti prýðilega ræðu við umræðuna fyrr í dag og gerði þar grein fyrir efasemdum sínum og fyrirvörum og í raun andstöðu við þennan þátt frumvarpsins. Það gerði hann með mjög sannfærandi hætti, hann vísaði til fjölmargra umsagna um málið, gerði m.a. að umtalsefni að það væri mjög flókið mál og nánast ógerningur að skilja á milli þess sem hér er kallað nytjaskógar eða nytjaskógrækt. Hann spurði reyndar hvað það væri sem væri kallað ónytjaskógar eða ónytjaskógrækt og taldi að það væri ekkert sem gæti fallið undir þá skilgreiningu og ég er sammála honum í því nema ef vera skyldi asparrækt í þéttbýli sem hægt væri að kalla ónytjaskógrækt. Hann flutti prýðileg rök fyrir máli sínu og þarf ekki að endurtaka það hér. Ég vil í þessu samhengi engu að síður vísa til þeirra fjölmörgu umsagna sem hafa komið um málið frá Skógrækt ríkisins, frá Landgræðslunni, frá Bændasamtökunum, frá Félagi skógfræðinga, Skógræktarfélaginu og fleiri aðilum. Mér virðast þær allar vera á einn veg, þ.e. það er lagst gegn því að málaflokknum Skógrækt og landgræðslu, málaflokkunum sé skipt upp á milli tveggja ráðuneyta og flestir tala enn fremur um að það sé skynsamlegt að þessi málaflokkur sé undir landbúnaðarráðuneytinu.

Þá hlýtur maður að velta því fyrir sér, hvers vegna í ósköpunum er ekki hlustað á þessi viðhorf? Þessi viðhorf koma fram í umsögnum frá aðilum, (Gripið fram í.) Alþingi hefur beðið um viðhorf þessara aðila, hefur sent frumvarpið til umsagnar til fjölmargra aðila til að fá viðhorf þeirra til þessa álitamáls. Væntanlega hefur aldrei staðið til að taka nokkurt mark á umsögnum sem gengu á annan veg en þann sem mælti frumvarpið upphaflega fyrir um. Það er því í raun verið að draga fólk á asnaeyrunum eins og þessa umsagnaraðila. Það stóð aldrei til að gera neitt með þessar umsagnir og mér finnst það mjög ámælisvert, herra forseti.

Í frumvarpinu er talað um að það hafi átt að fara heildstætt yfir verkaskiptingu milli ráðuneyta með það fyrir augum að hagræða, einfalda stjórnsýslu og skipa málaflokkum undir eina stjórn, eins og hér segir í greinargerð. Mér finnst því mjög ámælisvert að sú er alls ekki raunin. Það er alls ekki verið að skipa skyldum málaflokkum undir eina stjórn, þvert á móti er verið að taka slíka málaflokka og kljúfa þá í sundur. Og, eins og ég segi, allir umsagnaraðilar mæla gegn þessari leið og flestir þeirra leggja til að umræddir málaflokkar séu vistaðir áfram í landbúnaðarráðuneytinu. Undir þau sjónarmið vil ég taka í þessari umræðu.

Þegar á það er líka bent að þessi sjónarmið fara inn í raðir þeirra sem að öðru leyti styðja þetta frumvarp, og vísa ég þar á meðal til afstöðu þingmanna Frjálslynda flokksins sem telur frumvarpið ásættanlegt að þessu atriði frátöldu og ég vísa enn og aftur til hv. þm. Jóns Gunnarssonar, 7. þm. Suðvest. úr Sjálfstæðisflokknum sem hefur sömuleiðis þennan fyrirvara, þá er það í mínum huga algerlega óskiljanlegt að nefndin skuli ekki taka mið af þessum athugasemdum og a.m.k. fresta þeim breytingum sem þetta varða til að fara betur ofan í þær.

Það stingur líka í augu þegar maður fer í gegnum frumvarpið, nefndarálitin og umsagnirnar, að í greinargerð með frumvarpinu segir að haft hafi verið víðtækt samráð um innihald og efni þessa frumvarps en síðan kemur fram í hverri umsögninni á fætur annarri að það stenst ekki skoðun. Í umsögn frá Skógræktinni segir m.a., með leyfi forseta:

„Í lögum um landshlutaverkefni í skógrækt, nr. 95/2006, er landbúnaðarráðherra nefndur sjö sinnum og landbúnaðarráðuneytið tvisvar. Þessu þarf væntanleg að breyta en ekki er þó gert ráð fyrir því í bandorminum. Þeir sem sömdu skógræktarkafla bandormsins höfðu greinilega ekki mikla þekkingu á fyrirkomulagi skógræktarmála hjá ríkinu, ekki einu sinni á lögum sem sett voru í fyrra. Ef Skógrækt ríkisins hefði verið höfð með í ráðum hefði hún getað bent á þessi mistök við undirbúning frumvarpsins.“

Enn fremur segir í umsögn frá Landgræðslu ríkisins, frá landgræðslustjóra, með leyfi forseta:

„Undirritaður hefði kosið að landbúnaðarráðuneytið hefði haft mun meira samráð um málefni Landgræðslu ríkisins.“

Hér kemur því fram aftur og aftur að það hefur ekkert samráð verið haft. Ég tel það mjög ámælisvert að í stjórnarfrumvarpi skuli því beinlínis haldið fram að víðtækt samráð hafi verið haft og í vinnu þingsins við frumvarpið kemur það berlega í ljós að þær fullyrðingar standast ekki en þingið verður að geta treyst því að þær upplýsingar sem eru matreiddar með frumvörpum eða málum stjórnarinnar standist skoðun, þær eigi við rök að styðjast.

Hið sama á að sjálfsögðu við um kostnaðarþátt málsins. Hér segir í umsögn fjármálaráðuneytisins að ekki sé gert ráð fyrir að frumvarpið hafi neinn sérstakan kostnað í för með sér. En á það er auðvitað bent í þessari vinnu og m.a. í nefndaráliti minni hlutans að gera má ráð fyrir því að það séu tugir milljóna ef ekki hundruð milljóna kr. sem þessi aðgerð hefur í för með sér. Þá hlýtur maður að gera þá kröfu að það sé sagt satt og rétt frá í greinargerð með stjórnarfrumvörpum, m.a. að því er lýtur að kostnaðarmati, þar verður að segja satt og rétt frá. Maður spyr sig hvort það sé vísvitandi verið að halda þessum upplýsingum frá vegna þess að þær kunni að vera óþægilegar fyrir þá sem leggja málið fram, jafnvel fyrir ríkisstjórn sem hefur svona stóran og mikinn meiri hluta á Alþingi. Þetta finnast mér ekki vera góð vinnubrögð, herra forseti, og harma það að maður skuli upplifa slíkt hér í þinginu að svo sé kastað til höndum við stjórnarfrumvörp sem raun ber vitni í þessu máli.

Ég gæti haldið hér áfram og tala um fleiri þætti. Ég gæti talað um ferðaþjónustuna. Ég er andvígur því að málefni ferðaþjónustunnar eða lögin um skipan ferðamála séu flutt af forræði samgönguráðuneytisins til iðnaðarráðuneytisins og mér finnst það viðhorf líka koma fram í umsögnum. Aðilar ferðamálasamtaka benda á það að eftir sem áður verði stórir og miklir málaflokkar sem varða ferðaþjónustuna eftir í samgönguráðuneytinu og raunar í fleiri ráðuneytum. Ef það væri, eins og segir í greinargerðinni, að menn hefðu verið að tala um að skipa skyldum málum saman, þá hefði að sjálfsögðu átt að taka heildstætt á ferðamálunum og best hefði auðvitað verið að skipa þeim í ráðuneyti með öðrum atvinnuvegum. En eins og hér er bent á í minnihlutaáliti allsherjarnefndar, þá segir þar m.a., með leyfi forseta:

„Fram kom að það eina sem eigi að færa til samkvæmt frumvarpinu séu ekki ferðamálin í heild heldur einungis það sem tilheyri lögum um skipan ferðamála. Lög og lagaumhverfi málaflokksins séu annars á þann veg að bókhald, reikningsskil og upplýsingagjöf ferðaskrifstofa heyri undir samgönguráðuneyti, veitinga- og gististaðir falli undir dómsmálaráðuneyti, lög um skipulag á fólksflutningum með hópferðabifreiðum og lög um fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga, lög um bílaleigur og lög um skip og hafnir falli undir samgönguráðuneyti.“

Síðan á að flytja það sem lýtur að alferðum til viðskiptaráðuneytisins, sem ég tel líka rugl. Þar er vísað til þess að þetta sé neytendamál en það á í raun og veru um svo margt sem er á víð og dreif í kerfinu. Eru matvælamál þá ekki neytendamál líka? Á þá ekki að flytja þau til viðskiptaráðuneytisins með sömu rökum? Mér finnst þessi röksemdafærsla ekki standast og mér finnst bagalegt að ferðaþjónustan sé leikin með þessum hætti, að henni sé skipt upp eins og hér er gert ráð fyrir.

Eins og ég segi, hæstv. forseti, þá væri hægt að fara í fleiri efnisþætti þessa máls. Ég ætla að láta það eiga sig að þessu sinni. Það hefur verið komið inn á mörg þessara mála í máli annarra þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og afstöðu okkar hefur verið vel til skila haldið hvað það snertir.

Í lokin þá harma ég það einungis að ríkisstjórnin hafi ekki vandað betur undirbúning þessa máls, hafi ekki reynt að ná um það góðu samkomulagi, bæði við aðra stjórnmálaflokka vegna þess að skipan Stjórnarráðsins er ekki þannig að hún komi bara þeim sem sitja í ríkisstjórn hverju sinni. Þetta er mál sem allir stjórnmálaflokkarnir eiga að sjálfsögðu að koma að. Ég harma það líka að það hafi ekki verið efnt til breiðara samráðs við þá sem málið varðar sem eru að sjálfsögðu ekki síst það fólk, þeir einstaklingar sem starfa í þessum ráðuneytum og við þær stofnanir sem hér er verið að fjalla um. Það er einu sinni þannig að það er verið að fjalla um — ég vil segja störf fjölda fólks og það er ekki eðlilegt að þau séu tekin og í raun og veru þeim sé skipt upp og kastað til og frá í stjórnkerfinu án þess að um það sé breið og góð samstaða og samráð við þá aðila.

Herra forseti. Ég harma hvernig að þessu máli hefur verið staðið og ég harma sérstaklega að meiri hluti allsherjarnefndar skuli ekki hlusta á þær efnislegu mikilvægu athugasemdir sem koma fram ekki síst að því er varðar landgræðsluna og skógræktina en ég fagna því hins vegar að þau sjónarmið sem báðar þessar stofnanir tala fyrir hafa ratað inn í raðir stjórnarliða og fengið stuðning í þeirra röðum.