Tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands

Þriðjudaginn 11. desember 2007, kl. 20:13:39 (3038)


135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[20:13]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi beitingu afbrigða fyrr á dögum bendi ég á að margt var með öðrum brag fyrir 1991 eins og hæstv. forsætisráðherra veit og þingsköp gjörólík. Alþingi starfaði þá í tveimur deildum og það eitt og sér tryggði náttúrlega miklu lengri og hægari vegferð frumvarpa, allra annarra en fjárlagafrumvarpa, í gegnum þingið.

Í öðru lagi má rétt vera að ég hafi ekki tjáð mig nógu skýrt í dag þegar ég vitnaði til hinna Norðurlandanna. Hafi mátt skilja mig þannig að ég teldi að þar væri skipan mála innan stjórnarráða föst og lögbundin var alls ekki ætlun mín að orða það svo og það leiðréttist þá hér með. Ég þekki til þess að þar er málum öðruvísi skipað, reyndar líka þannig að þar er miklu stærri pólitísk áhöfn í ráðuneytunum. Ráðuneytisstjórinn er yfirleitt pólitískt ráðinn og mun stærri hópur pólitískra aðstoðarmanna og ráðgjafa kemur inn með ráðherranum.

Það sem ég átti við var að norska Stórþingið t.d. tekur ekki við illa undirbúnum og hráum málum frá framkvæmdarvaldinu og rúllar því í gegnum þingið ef atbeina þarf þingsins við. Þ.e. ef málin eru þess eðlis að þau þurfi lagabreytingar, eins og þau þurfa hér, mundi svona málatilbúnaður og undirbúningur fá falleinkunn hjá hinum sterku þjóðþingum hinna Norðurlandanna, ríkisstjórnin væri send með það aftur heim eða hitt, sem er miklu líklegra að gerðist, að þingið tæki málið í sínar hendur og ynni það upp á nýtt.

Ég þakka fyrir þau svör að ekkert frekar sé afráðið um breytingar á Stjórnarráðinu, það sé nóg í bili og eigi að öðlast einhverja reynslu, verði það gert. Mér þykir miður að reglugerð skuli ekki vera tilbúin eða a.m.k. drög að henni sem hægt væri að skoða. Ég hefði t.d. talið æskilegt að allsherjarnefnd hefði fengið hana og getað haft hana til hliðsjónar áður en hún lýkur afgreiðslu málsins. Fyrir liggur að kostnaðarmat fjárlagaskrifstofunnar er úrelt, því mun fylgja kostnaður. Um samráðsviljann var í raun litlu svarað en þó þætti mér auðvitað miklu betra að svörin yrðu í verki en ekki bara í orðum.