Almannatryggingar o.fl.

Miðvikudaginn 12. desember 2007, kl. 10:34:38 (3074)


135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[10:34]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Um þetta frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar o.fl. er margt gott að segja. Hugmyndin um flutning verkefna milli félagsmálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis í sjálfu sér er góð en það verður að segjast eins og er að undirbúningur þessa frumvarps og undirbúningur þessa verks er afar slæmur og frumvarpið ber það með sér, ekki síður en bandormurinn sem kemur á eftir. Þetta frumvarp er að mati minni hluta heilbrigðisnefndar jafnvel enn verr undirbúið og unnið en bandormurinn og við höfum vakið sérstaka athygli á því sem kallað hefur verið smyglgóssið, 18. gr. þessa frumvarps. Þar er verið að gera tilraun til að setja stjórn og forstjóra í stofnun sem ekki á að ræða á Alþingi fyrr en í vor og á ekki að taka til starfa fyrr en næsta haust.

Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur hins vegar upplýst að hann hyggist, verði þetta bráðabirgðaákvæði lögfest, ráða forstjórann og skipa stjórnina áður en fyrir Alþingi verður kynnt hvert á að vera innihald, tilgangur, skipulag og verkefni þessarar sömu stofnunar. Við höfum eindregið hvatt til þess að þessi 18. gr. verði tekin út úr frumvarpinu eða gildistöku frumvarpsins frestað vegna ónógs undirbúnings. Ekki hefur verið á það fallist enn sem komið er og því flytjum við tillögu að rökstuddri dagskrá um frávísun sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Þar sem frumvarp þetta er afar illa undirbúið og einungis tilkomið vegna ágreinings milli heilbrigðisráðuneytis og félagsmálaráðuneytis leggur minni hlutinn til að málinu verði vísað frá og tekið fyrir næsta mál á dagskrá.“