Almannatryggingar o.fl.

Miðvikudaginn 12. desember 2007, kl. 10:36:52 (3075)


135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[10:36]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hér er komið til atkvæða frumvarp sem felur í sér miklar breytingar sem varða tilflutning verkefna milli heilbrigðisráðuneytis og félagsmálaráðuneytis sem í sjálfu sér er ekki galið að öllu leyti. Hins vegar er þetta ákaflega flókið mál og að mínu mati og okkar framsóknarmanna hefði verið skynsamlegra að sameina einfaldlega þessi ráðuneyti, heilbrigðisráðuneytið og félagsmálaráðuneytið, en hugsanlega taka ákveðið verkefni út úr félagsmálaráðuneytinu. Það fyrirkomulag sem hér er boðið upp á er eiginlega ekki boðlegt.

Fyrir utan það er málið allt mjög illa undirbúið og í raun alls ekki bært að greiða um það atkvæði í dag en engu að síður stöndum við frammi fyrir því.

Í 18. gr. er kveðið á um nýja stofnun og þá kemur upp í huga manns að einhvern tíma sagði Sjálfstæðisflokkurinn „báknið burt“ en í þessu máli er verið að búa til nýja stofnun. Það sem er mjög sérkennilegt við þessa stofnun er að það á ekki að kosta neitt að reka hana þannig að það er ein spurning frá upphafi til enda hvernig eigi að leysa úr þessum málum. Við höldum því fram að þessi breyting kosti gríðarlega mikla peninga en það kemur hins vegar ekki fram í umsögn fjármálaráðuneytisins um málið. Þetta á allt eftir að koma betur í ljós og við, þingmenn stjórnarandstöðunnar, Framsóknarflokksins, eigum ábyggilega eftir að fá mörg tækifæri til að fjalla um þessi mál þegar fram líða stundir og spyrja áleitinna spurninga.

Þar sem við stöndum að þeirri tillögu sem hér hefur verið kynnt um frávísun vil ég segja að þar sem við reiknum frekar með því að hún verði felld, svona miðað við reynslu, munum við framsóknarmenn sitja hjá við atkvæðagreiðslu um þetta mál nema hvað varðar gildistökuákvæðið. Við greiðum atkvæði gegn því vegna þess að við teljum það algjörlega óraunhæft.