Almannatryggingar o.fl.

Miðvikudaginn 12. desember 2007, kl. 10:39:39 (3077)


135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[10:39]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þingflokkur Frjálslynda flokksins hefur tekið þá afstöðu að styðja þetta frumvarp í öllum meginatriðum og mun greiða því atkvæði sitt. Við erum samþykkir þeirri breytingu sem felst í frumvarpinu um að færa málefni aldraðra til félagsmálaráðuneytisins svo og umsjón með almannatryggingum. Enn fremur teljum við ákvæði í 18. gr. frumvarpsins um breytingar á skipulagi í heilbrigðisþjónustunni á þann veg sem þar er greint frá tímabær og þess virði að reyna þá leið til að bæta þjónustu heilbrigðiskerfisins, hafa frekari stjórn á kostnaði og stjórna gæðum þjónustunnar betur en nú er.

Við höfum hins vegar efasemdir um þá tillögu sem felst í frumvarpinu að færa yfirstjórn hjúkrunarheimila til félagsmálaráðuneytisins og hyggjumst ekki styðja þá breytingu þar sem því verður við komið í atkvæðagreiðslu um frumvarpið. Það er nokkuð óljóst hvernig það verður vegna þess hversu tæknilegs eðlis atkvæðagreiðslan er út frá öðrum sjónarmiðum.

Við munum því, virðulegi forseti, ekki styðja þá frávísunartillögu sem hér liggur fyrir og að henni felldri, ef svo fer, greiða atkvæði með frumvarpinu.