Þingsköp Alþingis

Fimmtudaginn 13. desember 2007, kl. 17:40:48 (3292)


135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[17:40]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit að hv. þm. Birgi Ármannssyni, formanni allsherjarnefndar, var kunnugt um að Vinstri hreyfingin – grænt framboð, þingflokkur okkar, hafði óskað eftir því að þetta mál yrði ekki tekið fyrir fyrr en klukkan sex, eða þegar fyrir lægju breytingartillögur okkar og greinargerð með þeim.

Síðustu gögn fóru frá okkur fyrir um klukkutíma og okkur er tjáð á nefndasviði að 10–15 mínútur séu í að gögnin berist. Mat okkar á því hvenær líklegt væri að nauðsynleg gögn lægju fyrir þinginu hefur að öllum líkindum staðist. Var hv. þingmanni og formanni allsherjarnefndar kunnugt um að gögnin voru ekki komin þegar hann hóf mál sitt?