Þingsköp Alþingis

Fimmtudaginn 13. desember 2007, kl. 17:46:32 (3296)


135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[17:46]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það kom fram í máli formanns allsherjarnefndar Alþingis að að hans mati væru flest rök komin fram í þessu máli og var svo að skilja á málflutningi hans að þess vegna væri óhætt að hefja umræður um málið þótt breytingartillögur okkar, þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, væru ekki formlega komnar fram og ekki sú greinargerð sem við birtum máli okkar til stuðnings. Þetta er athyglisvert sjónarmið. Ég óska eftir því að hæstv. forseti Alþingis tjái sig um þetta mál, hvort honum hafi verið kunnugt um það þegar málið var sett á dagskrá eða ákveðið að hefja umræðu að breytingartillögur okkar og greinargerð voru ekki komin fram í málinu.

Þar sem við erum að ræða núna um fundarstjórn í þinginu fyndist mér einnig æskilegt og mikilvægt að heyra álit verkstjóra ríkisstjórnarinnar og verkstjóra stjórnarmeirihlutans á Alþingi, heyra hæstv. forsætisráðherra Geir H. Haarde tjá sig um þetta mál. Finnst honum þessi vinnubrögð vera sæmandi fyrir Alþingi Íslendinga?