Þingsköp Alþingis

Fimmtudaginn 13. desember 2007, kl. 20:32:44 (3314)


135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[20:32]
Hlusta

Frsm. minni hluta allshn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Heimilar undantekningar, það er það sem vantar í þetta. Það er varnaglinn, að við eigum rétt á undantekningu, að við, þingmenn í stjórnarandstöðu, hvort sem er á þessu þingi eða komandi þingum í framtíðinni, þurfum ekki að sæta geðþótta. Við höfum ekki tryggingu fyrir því.

Viljinn til samstarfs um frumvarpið byrjaði aldrei. Hann byrjaði aldrei nokkurn tíma. Ef vilji hefði verið til samstarfs hefði verið skipuð þverpólitísk nefnd úr öllum flokkum. Þingmenn úr öllum flokkum hefðu komið að smíðinni frá hugmynd til frumvarps frá upphafi í stað þess að gera eins og gert var að stilla okkur upp við þegar gerðan hlut. Það var það sem gerðist.