Þingsköp Alþingis

Fimmtudaginn 13. desember 2007, kl. 21:15:29 (3333)


135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[21:15]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg ljóst að í nýja fyrirkomulaginu mun líklega heyra til undantekninga að menn verði hér fram eftir á kvöldin. Af því að við styttum ræðutímann og við höfum þá trú að menn muni ekki stunda málþóf í eins ríkum mæli og hægt er í dag, hlýtur starfsáætlun og dagsáætlun að standast betur. Ég tel ekki eðlilegt að hægt sé að útiloka að forseti geti kallað saman þingfund. (Gripið fram í: Fyrirvaralaust.) Já, fyrirvaralaust, ég tel að ekki sé óeðlilegt að forseti geti kallað saman þing fyrirvaralaust. Upp geta komið aðstæður sem kalla á það. Maður hlýtur að þurfa að hafa þann möguleika fyrir hendi. Ég tel hins vegar að tíðarandinn sé þannig — öðruvísi samsetning á þinginu en áður, fleiri konur komnar á þing og talsvert af ungu fólki sem á ung börn — að ólíklegt sé að forseti muni stunda að skella á fyrirvaralausum fundum, sér og ríkisstjórninni til skemmtunar. Ég hef meiri trú á forseta en það. Ég á ekki von á að forseti muni misbjóða þinginu að þessu leyti, misbeita valdi sínu og setja á einhverja kvöldfundi að óþörfu.