Þingsköp Alþingis

Fimmtudaginn 13. desember 2007, kl. 21:45:55 (3341)


135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[21:45]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir skemmtilega og uppbyggilega ræðu og mörg áhugaverð sjónarmið sem hann lýsti. Ég get tekið undir mjög margt af því sem hann sagði. Talað var af mikilli reynslu, sérstaklega þegar kom að málþófi því að hv. þingmaður man nú tímana tvenna í því og tilheyrði þá flokki sem var meistari málþófsins hér. Síðasti þingflokkur sem haldið hefur uppi umtalsverðu málþófi var þingflokkur sjálfstæðismanna, sérstaklega í stjórnarandstöðu á árunum 1988–1991.

Ég vil bara biðja menn um eitt, að fara nú varlega í samanburði þegar þeir eru komnir svo langt að þeir eru komnir til Strassborgar og farnir að bera saman 700 manna samkomu Evrópuþingsins þar sem menn hittast fjórum sinnum á ári í nokkra daga í senn. Það eru nú talsvert aðrar aðstæður en á fámennu þjóðþingi okkar Íslendinga og viðfangsefnin jafnframt ólík, menn reyna að vanda sig við lagasetningu og tryggja að mál fari hér ekki of hratt í gegn eða í of miklu óðagoti.

Ég get að mörgu leyti tekið undir með hv. þingmanni að ég sakna ekkert daganna þegar lengstu og mestu ræðuhöldin voru hér og næturfundir endalaust. Meðalhófið er þó stundum vandratað. Spurningin er hvar við eigum að sætta sjónarmiðin sem eru svo margþætt og tengjast ólíkum hlutverkum Alþingis sem er ekki bara lagasetningarstofnun heldur líka umræðuvettvangur, vettvangur skoðanaskipta, spegill kjörinna fulltrúa út í þjóðfélagið o.s.frv. Við þurfum því að hyggja að öllu saman.

Hér talaði nú sá maður sem að mínum dómi hefur haldið uppi einhverju árangursríkasta málþófi sem ég hef nokkurn tímann séð einn mann gera. Það var þegar hv. þingmaður, þáverandi forseti KSÍ, stoppaði af frumvarp til laga um að Öryrkjabandalagið fengi að taka upp talnalottó vegna þess að hann óttaðist að íþróttahreyfingin sæti eftir með sitt talnalottó og kom í veg fyrir að málið hlyti afgreiðslu. Það leiddi til þess að við forustumenn gerðum samkomulag um að taka sumarið í að reyna að sætta Öryrkjabandalagið og íþróttahreyfinguna, það tókst. Þessir aðilar hafa síðan staðið saman að lottóinu með glæsilegum árangri. Hv. þm. Ellert B. Schram er því (Forseti hringir.) talandi dæmi um hvað jafnvel einn maður getur ef hann hefur réttinn til þess.