Þingsköp Alþingis

Fimmtudaginn 13. desember 2007, kl. 21:49:32 (3343)


135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[21:49]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt að ræða hv. þingmanns á sínum tíma var mjög góð og röksemdafærslan prýðileg en það var líka síðasti dagur þingsins og beðið var eftir því að þingið næði að klárast. Þess vegna var nú gert samkomulag hér uppi á pöllunum þar sem við nafnarnir, ég og þáverandi forsætisráðherra, handsöluðum að stuðla að viðræðum íþróttahreyfingarinnar og Öryrkjabandalagsins yfir sumarið og lofuðum Öryrkjabandalaginu því að næðist ekki samkomulag þá skyldi það fá lög sín aftur fyrir jól. Samkomulagið náðist og þar við sat.

Það er alveg rétt, menn koma oft því sem þeir þurfa til skila á sjö mínútum, bæði á Evrópuráðsþinginu og annars staðar. Það er líka stundum þannig, meira að segja á þeirri stóru samkomu að þegar mikið er undir fá menn lengri ræðutíma. Það fékk t.d. Dick Marty þegar hann mælti fyrir sinni merku skýrslu. Sérstakir gestir þingsins fá allt upp í hálftíma þegar þeir fara yfir flókin mál. Það ræðst því allt af aðstæðum.

Þess vegna held ég að það snúist ekki um nein algild sannindi, um mínútur, heldur um sanngirni, um að finna meðalhófið í þessum efnum. Við á Alþingi Íslendinga hefðum betur reynt að (Forseti hringir.) þróa málið í sameiningu í þá átt sem við teljum að það eigi að fara en ekki berja hvert annað í höfuðið með aðferðum af því tagi sem hér hafa verið ástundaðar.