Þingsköp Alþingis

Fimmtudaginn 13. desember 2007, kl. 23:23:11 (3353)


135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[23:23]
Hlusta

Frsm. meiri hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ræddi í niðurlagi ræðu sinnar um meðgöngutíma máls af þessu tagi. Eins og raunar kom fram í fyrri hluta ræðu hans, og hefur komið fram áður hér við umræðuna, eiga þær tillögur sem er að finna í frumvarpinu sér langan aðdraganda eins og hv. þingmaður þekkir gjörla. Þær tillögur um ræðutíma sem eru settar fram í frumvarpinu eiga sér rætur í frumvarpi sem kynnt var á þingi 1999 og hafa komið upp reglulega síðan í umræðum, þar á meðal á síðasta þingi þegar gerðar voru viðamiklar breytingar á þingsköpum. Á fyrri stigum þess máls var líka verið að ræða ræðutímann en það var ekki inni í hinum endanlegu tillögum.

Allt frá því að þetta mál bar á góma í sumar hefur verið ljóst að verulegur ágreiningur væri um ræðutímamál og þar hefur flokkur hv. þingmanns haft mikla sérstöðu og óþarft að rekja það. En í ljósi þess að málamiðlunartónn hefur heyrst í hv. þingmönnum Vinstri grænna nú á allra síðustu sólarhringum er rétt að rifja upp að svo seint sem þann 3. desember hélt Vinstri hreyfingin – grænt framboð blaðamannafund þar sem höfð voru uppi verulega stór orð í sambandi við takmarkanir á ræðutíma og hrópað hátt um skerðingu málfrelsis, mannréttindi og ég veit ekki hvað. Í yfirlýsingu sem var kynnt á þeim fundi er talað um að þegar sjónarmiðin hafi komið fram, eða (Forseti hringir.) forseti bent á ræðutíma, og málfrelsi skorið niður við trog, eins og segir í tilkynningum vinstri grænna, hafi Vinstri hreyfingin – grænt framboð ekki verið til umræðu (Forseti hringir.) um að afsala sér slíku vopni.