Þingsköp Alþingis

Fimmtudaginn 13. desember 2007, kl. 23:31:36 (3357)


135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[23:31]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Atli Gíslason, fulltrúi okkar í allsherjarnefnd, fór fyrr í kvöld vel yfir afstöðu þingmanna í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og kynnti nefndarálit og breytingartillögur sem við leggjum fram í því máli sem við nú ræðum, breytingar á lögum um þingsköp Alþingis.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson, þingflokksformaður okkar, fór yfir aðkomu sína að málinu og síðasti ræðumaður, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, gerði rækilega grein fyrir þeim breytingartillögum sem við leggjum fram. Í sjálfu sér ætti ég því ekki að þurfa að hafa um það mörg orð en sem fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í forsætisnefnd vil ég þó lýsa skoðunum mínum á vinnu forsætisnefndar og forseta þingsins við undirbúning málsins.

Margoft hefur komið fram að árið 1999 var að störfum nefnd sem átti að skila af sér breytingum á þingsköpum Alþingis. Sú nefnd vann að miklu leyti þann grunn sem hér liggur fyrir að frumvarpi til laga sem við fjöllum um. Ekki náðist samkomulag í nefndinni, sem var skipuð fulltrúum allra flokka, og frumvarpið var aldrei lagt fram. Það var kynnt en náði ekki lengra.

Ég tel að undirbúningur að frumvarpinu beri keim af því að ekki var skipuð sérstök nefnd um málið. Gildir þá einu hvort það hefði verið forsætisnefnd, blönduð nefnd eða einhver annars konar nefnd, en skipa hefði átt sérstaka nefnd til að leggja fram hugmyndir eða tillögur að breytingum á þingsköpum Alþingis, ef þingheimur teldi ástæðu til að breyta þeim. Það er ekki eins og mörg ár séu frá því að þingsköpin voru yfirfarin og þeim breytt, í mars síðastliðnum og nú í sumar voru gerðar á þeim breytingar. En á þinginu hafa líka verið að mótast hefðir um þingstörf sem eru á skjön við þingsköpin ef maður les þau bókstaflega, og eins hefur ýmislegt verið að breytast, bæði úti í þjóðfélaginu og hér í þinginu, sem hefur vakið menn til umhugsunar um að ástæða sé til að skoða allt vinnuumhverfið, gera það líkara því sem gerist úti á vinnumarkaðnum eða gera vinnustaðinn a.m.k. fjölskylduvænni bæði fyrir þingmenn og starfsfólk. Það var því vissulega ástæða til að fara í þessa vinnu.

Ég tel að undirbúningurinn hafi verið nokkuð laus í reipunum með þeirri aðferð sem viðhöfð var — hæstv. forseti þingsins hélt utan um vinnuna, lagði frumvarpsdrög fyrir forsætisnefnd og þingflokksformenn, viðraði hugmyndir sínar og leitaði eftir skoðunum annarra. Þrátt fyrir að hæstv. forseti hafi lýst því yfir — og ég trúi því að hann meini það — að hann vilji efla þingið, styrkja það gagnvart framkvæmdarvaldinu og vanda enn frekar til vinnubragða við lagasetningu, náði hann ekki að laða fram margvíslegar hugmyndir sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum farið yfir, bæði í flokkshreyfingunni og eins í þingflokknum, um það með hvaða móti hægt er að styrkja þessa stofnun. Það veitir svo sannarlega ekki af.

Það kom líka strax fram hjá hæstv. forseta að þetta væri allt einn pakki, að styrkja stöðu þingsins með því fjölga starfsmönnum á nefndasviði um þrjá, eins og rætt hefur verið við afgreiðslu fjárlaga, að bæta vinnuskilyrði formanna stjórnarandstöðuflokkanna með aðstoðarmönnum og styrkja starf þingmanna í dreifbýliskjördæmunum — að þessar breytingar væru algjörlega bundnar breytingu á þingsköpunum og þá sérstaklega ræðutíma.

Þegar farið var yfir drögin benti ég á að ég teldi að líta ætti á þetta sem tvo aðskilda hluti. Við viðurkenndum það öll að stórlega þyrfti að bæta starfsaðstöðu þingmanna og þingsins sjálfs með því að styrkja nefndasviðið, bæta sérfræðiþjónustuna, sérstaklega hvað varðar fjárlagagerðina, og eins þyrfti vinnustaðurinn að verða fjölskylduvænni. Langeðlilegast hefði verið að byrja á þessu, við gætum tekið hálft kjörtímabilið, eitt til tvö ár, í að koma þessum breytingum á hér innan húss, það hefði ekki kallað á breytingar á þingsköpum. Við hefðum getað tekið þetta í skrefum og séð hvernig sú styrking hefði breytt vinnubrögðunum. Á þeim tíma hefði verið hægt að ná samkomulagi innan þingsins meðal þingflokka um að stefna að markvissari afgreiðslu eða ræðum í þingmálum og reyna að semja um ræðutíma einstakra þingmanna í viðkomandi máli til að reyna að halda betur utan um hlutina, og eins hefði stjórn þingsins getað haft í huga að setja ekki svo mörg mál á dagskrá að töf verði á afgreiðslu vegna þess að ekki tekst að ljúka henni. Það hefur viljað brenna við að dagskráin hefur verið óeðlilega löng miðað við eðlilega umræðu, þannig að það er margt sem hefði mátt skoða án þess að breyta þingsköpunum.

Ef ræðutíminn hefði verið tekinn í skrefum, eins og fram kom í máli mínu í forsætisnefndinni, og sérstaklega með tilliti til þess hvað þingmeirihlutinn er sterkur, hefði verið eðlilegt að byrja á því að takmarka 3. umr. Það gat verið í samræmi við tillögurnar en geyma 2. umr., sjá hvernig mál þróast, hvort við getum ekki reynt að stilla okkur af varðandi 2. umr. Þegar við skoðum ræðutímann, þess vegna mörg ár aftur í tímann, er það í einstaka hitamáli að ræður hafa verið haldnar í einhverja klukkutíma. Það hafa verið mjög umdeild mál, sem hafa verið mjög heit pólitískt og sem mikill ágreiningur hefur verið um bæði innan þings og utan. Í slíkum málum er ótakmarkaður ræðutími eina vörn eða vopn fámenns minni hluta.

Valdahlutföllin í þingsalnum hafa, að því er ég tel, aldrei verið jafnóhagkvæm stjórnarandstöðunni og nú. Samkvæmt þingsköpum og samkvæmt frumvarpinu sem liggur frammi getur þingmeirihlutinn valtað yfir allar þær varnir og girðingar sem eru í þingskapalögum og eiga að hindra að hægt sé að rúlla í gegn umdeildum stjórnarmálum á færibandi. Með svo sterkum þingmeirihluta er líka hægt að veita afbrigði á færibandi. Einmitt við slíkar aðstæður hefði ég talið rétt og sanngjarnt að takmarka ræðutímann í áföngum eftir því sem við hér á þinginu stæðum saman að því að styrkja þingið sem stofnun, og við þurfum að halda áfram að gera það.

Ekkert í frumvarpinu tryggir betur lýðræði innan stofnunarinnar hvað varðar formennsku stjórnarandstöðunnar í nefndum eða meiri aðkomu að stjórn þingsins. Við erum svo óralangt frá starfsumhverfi og lýðræðislegum viðhorfum og vinnubrögðum annarra Norðurlanda að við getum ekki einungis horft á ræðutímann þegar við berum okkur saman við þau. Við þurfum líka að hafa í huga að ekki eru nema 63 þingmenn á íslenska löggjafarþinginu miðað við u.þ.b. 200 þingmenn á hinum Norðurlöndunum. Það segir sig sjálft að á 200–250 manna þingi er meiri þörf á að stytta ræðutímann en á 63 manna löggjafarsamkundu.

Hæstv. forseti. Ég lýsti því yfir við forseta þingsins á síðasta fundi, þegar við ræddum þær tillögur sem þá lágu fyrir, að ég harmaði að leggja ætti málið fram í ágreiningi. Ég tel mikilvægt að við stöndum saman um allt sem snýr að löggjafarvaldinu, að þinginu sjálfu og þingstörfum, að við stöndum saman um að stuðla að góðum vinnubrögðum og efla virðingu okkar gagnvart þinginu og þjóðarinnar gagnvart þinginu. Við ættum að stíga þau skref sem við getum öll gengið og bíða aðeins með þau næstu.

Ég tel mikilvægt að strax í vetur verði sett á laggirnar nefnd innan þingsins, eins og við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði gerum tillögu um, sem geri úttekt á starfsháttum þingsins og starfsaðstöðu, ekki bara þingmanna heldur starfsmanna, og með hvaða hætti hægt sé að styrkja stofnunina enn frekar en nú er gert og með hvaða hætti hægt sé að standa enn betur að vandaðri lagasetningu en nú er.

Ég sé ekki að sterkar girðingar séu settar gagnvart framkvæmdarvaldinu hvað varðar tímasetningar eða framlagningu frumvarpa sem koma inn á þingið, eins og hefur verið, á síðustu stundu, greinilega illa unnin, oft án samráðs við viðkomandi aðila — þingið hefur fengið slík frumvörp til afgreiðslu eftir tilskilinn tíma, afgreitt þau í nefnd með svo stuttum fyrirvara að ekki hefur verið hægt að senda þau út til umsagnar. Ég nefni sem dæmi frumvarp um almannatryggingar, stórt mál sem ekki var hægt að senda út, þar er jafnvel verið að kalla viðkomandi fulltrúa á fund nefndar að kvöldi og um helgar án þess að þeir hafi haft möguleika á að undirbúa sig almennilega eða skila inn skriflegum greinargerðum og umsögnum. Ég sé ekki að neitt í frumvarpinu forði okkur frá vinnubrögðum af því tagi og með svo sterkan meiri hluta sem nú er og ef vilji er fyrir hendi er hægt að veita slíkum frumvörpum afbrigði og rúlla þeim í gegn eins og gert var í sumar.

Ég tel óráðlegt af hæstv. forseta þingsins að leggja svo ríka áherslu á að ljúka afgreiðslu þessa máls fyrir jól, það var líka óráðlegt að setja þetta fram sem einn pakka, hafa breytingar hvað varðar fjölgun starfsmanna á nefndasviði og aðstoðarmenn fastbundnar því að breyta þingsköpum og ræðutíma. Margt í þessum breytingum snýr að nýju og breyttu vinnulagi sem við erum fylgjandi. Við höfum bent á að æskilegt sé að skipta þingtímanum betur upp, að betri tími gefist til þess fyrir þingmenn landsbyggðarkjördæma að komast heim í héruð, að sinna því hlutverki að vera fulltrúar héraða sinna og kjósenda, og að það sé mikilvægt fyrir nefndirnar að hafa betri tíma til vinnu. Við tökum því undir þær tillögur sem fram koma í frumvarpinu um að breyta vinnutíma þingsins. Að öðru leyti hefði verið rétt að fara þá leið sem við óskuðum eftir, að fresta ákveðnum hlutum fram yfir áramótin og reyna til þrautar að ná sátt. Við höfum lagt fram fjölda tillagna um að styrkja þingið enn frekar og við höfum viljað gera það í þessum áfanga, ekki bíða með það, þó að ég telji að styrkja þurfi þingið enn frekar. Ég tel að nýta hefði mátt tímann þar til eftir áramótin til að reyna að ná betri sátt hvað varðar þingsköpin, en því miður fór þetta svona.

Ég hvet eindregið til þess að strax verði sett á fót sérstök nefnd sem hugi að þessum málum og leiti leiða til að styrkja þingið enn frekar í þá átt sem við höfum sérstaklega nefnt og sem lýtur að öðrum þáttum en ræðutíma þingmanna annars staðar á Norðurlöndum.