Almannatryggingar o.fl.

Föstudaginn 14. desember 2007, kl. 11:51:55 (3381)


135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[11:51]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er alltaf vandmeðfarin umræða. Ef við berum saman fjárframlög til Landspítalans nú og fyrir fimm árum, fyrir tíu árum, ég tala nú ekki um fyrir tuttugu árum, þá eru þau hærri nú að krónutölu en áður var. Sama gildir um menntakerfið o.s.frv. Þjóðinni fjölgar, verkefnum fjölgar. Það sem máli skiptir er raungildið, hvað er að gerast að raungildi. Ríkisendurskoðun hefur bent á það í úttekt sinni að það sem hún kallar framleiðniaukningu hefur átt sér stað á Landspítalanum ár eftir ár frá 1999 og þess vegna er raunframlagið til þeirrar stofnunar að minnka.

Hvernig í ósköpunum get ég talað á þá lund sem ég geri? Ég er að enduróma það sem fram kemur í fjárhagsskýrslum Landspítalans. Ég er að enduróma það sem forsvarsmenn Landspítalans segja. Ég er að enduróma það sem forsvarsmenn heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu segja. Ég er að horfa á raunverulegar tillögur sem frá þeim hafa komið um að skerða heimahjúkrun um 20%, um að draga úr þjónustu upp á 550 millj. kr. til að bregðast við hallarekstri. Að hluta til var brugðist við þessum hallarekstri Landspítalans og hjá heilsugæslunni í fjáraukalögum. Nú erum við að horfa fram á veginn, á næsta fjárlagaár, og þá segja forsvarsmenn þessara stofnana: Við getum ekki veitt óbreytta þjónustu með því framlagi sem við höfum. Og þar á ofan, (Forseti hringir.) hv. þingmaður, þarf að stórbæta kjörin hjá því fólki sem þarna starfar. Það kostar líka peninga.