Almannatryggingar o.fl.

Föstudaginn 14. desember 2007, kl. 11:58:26 (3384)


135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[11:58]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, það heyrist nokkuð vel í þingsölum, enda er hv. þm. Ögmundi Jónassyni heitt í hamsi. Við gleðjumst yfir því sem búum í þessu landi að búa við góða heilbrigðisþjónustu. Ég tel að við getum verið mjög stolt af því sem við búum við. Ég veit um fólk sem hefur fengið alvarlega sjúkdóma sem hefur verið mjög kostnaðarsamt að veita lækningu við og þjónustu og það hefur notið þess. Það á að vera markmið íslensks samfélags að fólkið sem býr í landinu fái þessa góðu þjónustu og þeir sem veita hana eiga að gera það á sem bestan hátt.

Hins vegar er spurning mín til hv. þingmanns: Er útilokað að að ríkið geti keypt þjónustu af einstaklingum sem stofna fyrirtæki um einhvern ákveðinn þátt á heilbrigðissviði og afhent hinum sjúku þá þjónustu án þess að þeir þurfi að borga fyrirtækinu sjálfu nema kannski bara það sama og þeir hefðu annars gert til opinberra aðila? Má enginn einkarekstur vera í heilbrigðisþjónustu á Íslandi? Eigum við að loka röntgenstofunni í Domus Medica? Eigum við að loka mörgum ágætum stöðvum sem sjúkraþjálfarar reka? Svona mætti lengi telja. Snýst umræðan bara um að það megi alls ekki vera til einkafyrirtæki? Er það aðalmálið? (Forseti hringir.)