Almannatryggingar o.fl.

Föstudaginn 14. desember 2007, kl. 12:04:56 (3387)


135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[12:04]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það fer pínulítið í pirrurnar á hinni „fint fölende“ Samfylkingu þegar rætt er um heilbrigðismálin og velferðarmálin af nokkurri hugaræsingu sem mér finnst nánast erfitt að sneiða hjá þegar um er að ræða jafnalvarlega hluti og niðurskurð til heilbrigðisþjónustunnar á komandi ári og þær yfirlýsingar sem þaðan berast.

Ég vil ítreka það við hv. þingmann að við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum aldeilis ekkert við stofnanir á borð við SÁÁ, SÍBS og Hrafnistu að athuga, síður en svo, sjálfseignarstofnanir sem lúta þessum almennu reglum.

Málið snýst um það að hvaða marki gera eigi heilbrigðismál að verslunarvöru og að hvaða marki við eigum að innleiða markaðslögmálin inn í heilbrigðiskerfið. Það er nefnilega grundvallarmunur á sjálfseignarstofnun annars vegar, þeirri stofnun sem lætur hverja einustu krónu inn í eigin rekstur, og hins vegar hinu fyrirkomulaginu sem reist er til að skapa eigendum sínum arð. Á þessu er grundvallarmunur.

Um þessa þætti fer fram pólitísk umræða um allan heim og það eru mikil átök um hvert stefna eigi í þeim efnum. Þannig var brotið í blað með stofnun Öldungs ehf. á sínum tíma sem reisti Sóltún og varð til þess að skattgreiðandinn borgar hærra verð þar en hjá öðrum stofnunum og Ríkisendurskoðun skýrði hvers vegna. Vegna þess (Forseti hringir.) að hún þarf að greiða eigendum sínum arð.