Almannatryggingar o.fl.

Föstudaginn 14. desember 2007, kl. 12:26:09 (3395)


135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[12:26]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú misskilningur að ég hafi haldið því fram að einhverjir þingmenn hér, vinstri grænir eða aðrir, beri ekki hagsmuni sjúklinga fyrir brjósti. Það er öðru nær. Ég tel að við hljótum öll að hafa það sameiginlega markmið. En ég biðst undan því að það sé borið á mig og flokk minn og ríkisstjórnina að við höfum ekki hagsmuni þessara aðila að leiðarljósi í því sem við erum að gera.

Það sem er hið óskiljanlega í þessu máli öllu saman og málflutningnum er það, að mönnum er borið það á brýn að vilja ekki veiku fólki, sjúklingum, eldri borgurum, öryrkjum, allt það besta.

Það er óskiljanlegt að hér séu aðilar í þinginu og heill þingflokkur, sem vill ekki leita allra leiða til að veita þessa þjónustu með eins hagkvæmum hætti og hægt er, sem virðist ganga til þessara hluta með þá sýn eina að ný úrræði, nýir möguleikar, nýjar lausnir komi bara aldrei til greina og þetta verði helst að vera í höndunum á ríki og í óbreyttu fari miðað við það sem verið hefur.

Því miður er þetta það sem við manni blasir í málflutningi okkar ágætu vina í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Það er þetta sem ég hef leyft mér að geta athugasemd við, í ræðu sem ég flutti í morgun til að svara fyrirspurnum hv. þm. Ögmundar Jónassonar til mín.