Tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands

Föstudaginn 14. desember 2007, kl. 12:42:56 (3398)


135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[12:42]
Hlusta

Frsm. meiri hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég tek til máls við 3. umr. um þetta þingmál til þess að gera grein fyrir breytingartillögum sem ég hef lagt fram við 3. umr. Um er að ræða sjö breytingartillögur og eru sex þeirra nánast prófarkalestur eða tæknilegar lagfæringar á frumvarpinu vegna breytinga sem áttu sér stað við 2. umr.

Annar töluliður breytingartillagnanna er efnisbreyting en þar má segja að tekið sé inn í texta frumvarpsins ákvæði sem áður var þar og getið var um í nefndaráliti meiri hluta allsherjarnefndar fyrir 2. umr. til að skýra stöðu vatnamælinga eftir breytinguna sem tekur gildi um áramótin.

Þessi breytingartillaga hljóðar svo:

„Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:

Starfsemi vatnamælinga Orkustofnunar lýtur yfirstjórn umhverfisráðherra frá 1. janúar 2008. Umhverfisráðherra skal vinna að sameiningu Veðurstofu Íslands og vatnamælinga Orkustofnunar í eina stofnun eigi síðar en 1. janúar 2009. Orkustofnun annast starfsemi vatnamælinga, undir yfirstjórn umhverfisráðherra, þar til ný stofnun tekur til starfa.“

Þessi breytingartillaga er lögð fram til að ótvírætt sé hver stjórnskipan og staða vatnamælinga verður að samþykktu þessu frumvarpi. Ég legg til að þingið samþykki breytinguna við 3. umr.