Tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands

Föstudaginn 14. desember 2007, kl. 13:04:49 (3400)


135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[13:04]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst eins og ég heyrði sömu ræðuna í þriðja sinn, ræðu um vond vinnubrögð í þinginu og þingnefndum. Mér finnst reyndar athyglisvert að þingmaður sem hefur verið hér í um tvo og hálfan mánuð skuli leyfa sér að fella svo þunga dóma um þingmenn, þingstörfin og þingnefndir, eins og gert hefur verið í þessum þremur ræðum sem reyndar eru allar á sama veg.

Þótt ég hafi viljað koma þessum sjónarmiðum á framfæri þá eru þau ekki aðalatriðið. Mig langaði að spyrja hv. þingmann einnar spurningar. Hv. þingmaður hefur talað mikið um þrískiptingu ríkisvaldsins og mikilvægi þess að virða þessa þrískiptingu. Það mál sem við ræðum hér fjallar um verkaskiptingu framkvæmdarvaldsins, þ.e. hvernig framkvæmdarvaldið skiptir með sér verkum. Ríkisstjórnin óskar eftir því við þingið að það samþykki tiltekna breytingu á verkaskiptingu.

Ég verð að segja að um leið og við gerum kröfu til þess að framkvæmdarvaldið komi fram við Alþingi og löggjafarvaldið af virðingu og reisn er eðlilegt að við virðum óskir þess um hvernig það vill haga skipulagi sínu, svo framarlega sem það er innan velsæmismarka og ekki einhver vitleysa. Þess vegna hef ég verið mjög umburðarlyndur gagnvart því hvernig framkvæmdarvaldið skiptir með sér verkum og ef breytingar eru gerðar á ríkisstjórn getur sú ríkisstjórn einnig skipt með sér verkum. (SJS: Fella stjórnarráðslögin niður?) Mér finnst þetta eðlilegt og mér finnst að við eigum að vera umburðarlynd þegar ríkisstjórnin óskar eftir því á Alþingi að fá heimild til að breyta sínu skipulagi í stað þess að finna öllu allt til foráttu án þess að leggja neitt nýtt inn í umræðuna.