Tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands

Föstudaginn 14. desember 2007, kl. 13:08:57 (3402)


135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[13:08]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum ekki að tala um fjárlögin, ekki að tala um fjárveitingavaldið, heldur verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins. Fjárveitingavaldið er hjá Alþingi og Alþingi lætur það vald ekki frá sér fara.

Ég benti á að við ættum að vera umburðarlynd gagnvart ríkisstjórninni varðandi það hvernig hún vill skipta verkum, hvaða verk hún vill láta vinna í hvaða herbergi, hvaða ráðherrar sinna þeim. Við eigum að sýna framkvæmdarvaldinu virðingu hvað þetta varðar um leið og við eigum að gera eðlilega kröfu til þess að framkvæmdarvaldið virði þingið. Við eigum að virða þrískiptinguna í þessum efnum og það á að ganga í báðar áttir.

Ég vildi draga þetta fram í þessari umræðu varðandi þær ræður sem hv. þingmaður hefur flutt. Hann flutti sömu ræðuna hér í 2. umr. og 3. umr. Ég veit ekki hvort það eru vönduð vinnubrögð að flytja alltaf sömu ræðuna, það getur vel verið að það sé ný skilgreining á vönduðum vinnubrögðum, að flytja alltaf sömu ræðuna. En ég vildi draga þetta fram. Ég tel að við eigum að sýna umburðarlyndi gagnvart verkaskiptingunni svo framarlega sem hún er innan velsæmis.

Ég vil líka segja að í þessari umræðu hefur talsvert verið rætt um virðingu þingsins. Þegar hv. þingmenn, eins og hv. þm. Atli Gíslason hefur gert trekk í trekk, talað til þingsins, vinnubragða og verkefna þess á þann hátt sem hv. þingmaður gerir þá verð ég að segja að þing sem á svona þingmenn þarf ekki óvini þegar kemur að því að draga virðingu þingsins niður.