Tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands

Föstudaginn 14. desember 2007, kl. 13:10:52 (3403)


135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[13:10]
Hlusta

Frsm. minni hluta allshn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég upplifi það trekk í trekk þegar ég kem hér upp í ræðustól að fá andsvör af þessu tagi, sem eru algjörlega órökstudd, að ég sé að tala niður til þingsins og að þingið þurfi ekki óvini ef það eigi slíka vini og annað slíkt. Þetta er ekki svaravert. Þetta eru andsvör rökþrota manna.

Það sem stendur upp úr er að ekki hefur verið haft samráð við starfsmenn sem eru í mikilli óvissu um framtíð sína. Þeir eru það. Það er ljóst að ekki hefur verið haft samráð við þá um þessa flutninga. Þetta gagnrýni ég út frá skyldum mínum sem þingmanns. Mér ber að gera það.

Mér ber líka að gagnrýna það að vinnubrögðin eru andstæð stefnumótun ríkisstjórnarinnar um löggjafarstarf. Á ég að þegja yfir því? Vill hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hafa bara eina umræðu um þingmál? Á þingheimur ekki að rísa upp sem ein rödd þegar umsagnir gefa til kynna að í uppsiglingu sé stjórnsýslulegt klúður? Eigum við þá að þegja? Er það markmið þingskapabreytinganna að koma í veg fyrir að við getum með rökstuddum og ítarlegum hætti bent á slík vinnubrögð? Er það kannski markmiðið? Eru raddir okkar — a.m.k. er það svo miðað við andsvör hv. þingmanns — svo óþægilegar að koma eigi í veg fyrir að þær heyrist?