Þingsköp Alþingis

Föstudaginn 14. desember 2007, kl. 17:42:56 (3463)


135. löggjafarþing — 46. fundur,  14. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[17:42]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Hér er að verða fremur dapurleg niðurstaða að mínu mati í þessu þingskapamáli. Hún er dapurleg vegna þess að mistekist hefur að skapa sátt um undirstöðuleikreglur á þingi, þingskapalögin. Forseta Alþingis hefur mistekist gagnvart þeirri frumskyldu sinni að laða fram samstöðu og skapa andrúmsloft samvinnu og sanngirni í samskiptum hér á staðnum.

Ég hef áhyggjur af stöðu Alþingis. Í samskiptum þess við ágengt framkvæmdarvald sem hefur sífellt verið að færa sig upp á skaftið hin síðari ár og lítur í æ ríkari mæli á Alþingi sem hreina afgreiðslustofnun, sem raðafgreiðslustofnun, sem færiband fyrir mál sín hér í gegn, oftar en ekki með flýtimeðferð. Það getur enginn eða ætti a.m.k. enginn að gleðjast yfir þessari niðurstöðu. Það gerum við ekki, vinstri græn, sem erum ofurliði borin í tilraunum okkar til að verja það sem við teljum vera vígstöðu stjórnarandstöðu, rétt og sjálfstæði þingsins og þingmanna, þar á meðal til ásættanlegs málfrelsis. Þingskapameirihlutinn ætti ekki heldur að gleðjast. Skamma stund verður hönd höggi fegin. Síðastur allra ætti forseti Alþingis að gleðjast.

Það er ef til vill einn sem að minnsta kosti til skamms tíma litið getur vel við unað. Það er ríkisstjórnin, það er framkvæmdarvaldið. Það er þó ekki til þess að gleðja þann aðila sérstaklega sem breyta á þingsköpum. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði munum halda áfram að sækja og verja rétt þingsins, sjálfstæðis þess og fara með það mikilvæga hlutverk sem það hefur að gegna í stjórnskipun landsins.

Við fluttum viðamiklar breytingartillögur á þingskjali í gær sem því miður voru allar felldar í morgun. Hver ein og einasta þeirra hefði verið til bóta fyrir Alþingi, hefði gert það sjálfstæðara og sterkara og tryggt betur stöðu þess gagnvart því hlutverki sem það á að sinna. Við munum halda áfram að tefla þeim sjónarmiðum fram og vinna þeim brautargengi. Ég spái því að við séum ekki komin á neina endastöð í málinu, að ekki muni líða langur tími þangað til skynsemin sem enginn á einkarétt á, hin almenna skynsemi nær yfirhöndinni og menn sjá að hægt er að gera betur en þetta og hafa meiri metnað en þetta fyrir hönd Alþingis Íslendinga.