Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 91. máls.

Þskj. 91  —  91. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 116 10. ágúst 2006, um stjórn fiskveiða,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




1. gr.

    Eftirtaldar breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða IV við lögin:
     a.      Í stað orðanna „og 2007/2008“ í 1. mgr. og 2. málsl. 2. mgr. kemur: 2007/2008 og 2008/2009.
     b.      Í stað orðanna „og 2008“ í 3. málsl. 2. mgr. kemur 2008 og 2009.

2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 20., 21. og 22. gr. skal ekki leggja veiðigjald á veiðiheimildir í þorski sem veittar eru á grundvelli þessara laga fyrir fiskveiðiárin 2007/2008 og 2008/2009. Jafnframt skal Fiskistofa endurgreiða þegar innheimt veiðigjald í þorski fyrir umrædd fiskveiðiár.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarpinu er ætlað að koma til móts við þær útgerðir sem verða fyrir skerðingu veiðiheimilda vegna niðurskurðar aflamarks í þorski. Jafnframt er frumvarpinu ætlað að framlengja undantekningarreglu ákvæðis IV til bráðabirgða sem setur sérstaka reglu hvað varðar úthlutun, veiðar og greiðslu veiðigjalds af aflamarki í úthafsrækju.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Með lögum nr. 42/2006 um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða var ákveðið að til fiskveiðiársins 2007/2008 skyldi veiðigjald vegna úthafsrækju og rækju sem veidd er á Flæmingjagrunni miðast við landaðan afla en ekki úthlutaðar veiðiheimildir. Jafnframt var ákveðið að aflétta veiðiskyldu í þeim veiðum til sama tíma. Var þetta gert til þess að koma til móts við rækjuveiðar og -vinnslu sem áttu við erfiðleika að etja. Hér er lagt til að þessar sérstöku ráðstafanir gildi einu ári lengur eða til loka fiskveiðiárs 2008/2009 enda stendur rækjuiðnaðurinn mjög höllum fæti.

Um 2. gr.

    Frumvarpinu er ætlað að koma til móts við þær útgerðir sem verða fyrir skerðingu veiðiheimilda vegna niðurskurðar aflamarks í þorski úr 193.000 lestum í 130.000 lestir á yfirstandandi fiskveiðiári. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur metið áhrifin þannig að aflaverðmæti þorsks muni dragast saman um 9,2 milljarða kr., útflutningsverðmæti um 16 milljarða kr. og verg landsframleiðsla um 0,8 prósentustig.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að vikið verði til hliðar þeirri reglu laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, að lagt skuli veiðigjald á þær veiðiheimildir sem veittar eru á grundvelli laganna hvað varðar veiðiheimildir í þorski á yfirstandandi fiskveiðiári og næsta fiskveiðiári.
    Sjávarútvegsráðuneytið hefur áætlað að tekjur af álögðu og innheimtu veiðigjaldi á fiskveiðiárinu 2007/2008 nemi um 1.000 millj. kr. og eru tekjur vegna úthlutaðra veiðiheimilda í þorski um 275 millj. kr. þar af. Er því jafnframt lagt til að Fiskistofa endurgreiði þann hluta veiðigjalds fyrir veiðiheimildir í þorski sem þegar hefur verið innheimtur vegna yfirstandandi fiskveiðiárs.
    Gert hefur verið ráð fyrir að ekki verði unnt að auka veiðiheimildir í þorski á fiskveiðiárinu 2008/2009 og er lagt til að veiðigjald vegna veiðiheimilda í þorski fyrir það fiskveiðiár falli því einnig niður.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 116 10. ágúst 2006,
um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er lagt til að ekki skuli lagt á veiðigjald á veiðiheimildir í þorski sem veittar eru á grundvelli laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, fiskveiðiárin 2007/2008 og 2008/2009. Áætlað er að tekjur vegna úthlutaðra veiðiheimilda í þorski verði um 250–275 m.kr. á fiskveiðiárinu 2007/2008 og munu því tekjur ríkissjóðs lækka sem því nemur. Jafnframt er lagt til að Fiskistofa endurgreiði þegar innheimt veiðigjald fyrir veiðiheimildir í þorski á yfirstandandi fiskveiðiári.