Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 107. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 107  —  107. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um að fordæma mannréttindabrot og hvetja bandarísk yfirvöld til að loka fangabúðunum í Guantanamo.

Flm.: Katrín Jakobsdóttir, Atli Gíslason, Álfheiður Ingadóttir,


Árni Þór Sigurðsson, Björn Valur Gíslason, Jón Bjarnason,
Kolbrún Halldórsdóttir, Þuríður Backman, Ögmundur Jónasson.


    Alþingi fordæmir ólöglega og ómannúðlega meðferð á föngum í búðum Bandaríkjamanna við Guantanamo-flóa á Kúbu og felur ríkisstjórninni að beita sér fyrir því á alþjóðavettvangi að þeim verði lokað.

Greinargerð.


    Þann 11. janúar 2007 voru fimm ár liðin síðan Bandaríkjastjórn hóf að starfrækja fangabúðirnar í Guantanamo í þeim yfirlýsta tilgangi að vista og yfirheyra meinta hryðjuverkamenn eða hermenn með hugsanleg tengsl við alþjóðleg samtök sem ógnuðu Bandaríkjunum. Flotastöð Bandaríkjanna við Guantanamo-flóa á Kúbu varð fyrir valinu vegna þess að talið var að svæðið stæði utan bandarískrar lögsögu. Þar með þyrfti ekki að virða ýmsar alþjóðlegar skuldbindingar um meðferð á föngum og stríðsföngum sem Bandaríkin gengust undir fyrir löngu, svo sem Genfarsáttmálann. Vistmenn fangabúðanna í Guantanamo voru flestir handteknir í Afganistan eða Pakistan með handahófskenndum hætti og á hæpnum forsendum, t.d. var sá yngsti þeirra þá aðeins 13 ára gamall. Með því að skilgreina þá sem „ólöglega bardagamenn“ (unlawful combatants) eða með öðru álíka loðnu orðalagi átti að skapa lagaleg skilyrði fyrir því að þá mætti beita „óhefðbundnum“ yfirheyrsluaðferðum. Með slíkum aðferðum eru fangar beittir líkamlegum og andlegum kvölum með ýmsu móti, t.d. látnir standa tímunum saman í óþægilegri líkamsstellingu, sviptir svefni, látnir þola mikinn hita eða kulda, stanslausa birtu og hávaða og fleira því um líkt. Á mannamáli eru slíkar aðferðir nefndar pyntingar sem aldrei eru réttlætanlegar og skýlaust brot á alþjóðamannúðar- og mannréttindalögum. Tilraun Bandaríkjastjórnar til að innleiða nýja skilgreiningu um „ólöglega bardagamenn“, sem hvorki njóti verndar sem almennir borgarar né sem stríðsfangar og hægt sé að halda föngnum og jafnvel pynta árum saman án þess að þeim sé birt ákæra og tryggð réttlát málsmeðferð er ósvífin atlaga að allri viðleitni alþjóðasamfélagsins til að tryggja mannréttindi, jafnt á tímum friðar sem ófriðar í heiminum.
    19. júní 2006 úrskurðaði hæstiréttur Bandaríkjanna að umrædd túlkun um að bandarísk lögsaga gilti aðeins að takmörkuðu leyti eða alls ekki í Guantanamo-herstöðinni ætti ekki við rök að styðjast. Í kjölfarið gaf varnarmálaráðuneytið þann 7. júlí út þá yfirlýsingu að Genfarsáttmálinn yrði virtur í Guantanamo. Aðstæður vistmanna í fangabúðunum geta þó ekki talist boðlegar. Má sem dæmi nefna að um 250 föngum er enn haldið föngnum án þess að þeim sé birt nein ákæra, jafnvel eftir fimm ára harðræði.
    Nýleg lagasetning í Bandaríkjunum á í orði kveðnu að tryggja umræddum föngum sömu lágmarksréttindi og öðrum stríðsföngum ber samkvæmt alþjóðlegum sáttmálum. Þegar betur er að gáð reynast lögin þó ekki ná því yfirlýsta markmiði sínu og þykja þau jafnvel grafa undan almennu réttaröryggi í Bandaríkjunum.
    Með lögum sem nefnast „Military Commissions Act“ og staðfest voru 17. október 2006 er það Bandaríkjaforseta að ákveða hvaða yfirheyrsluaðferðir teljist leyfilegar; aðgangur sakbornings er takmarkaður að sönnunargögnum sem gegn honum er beitt og bandarískir dómstólar eru sviptir réttinum til þess að fjalla um kröfur „ólöglegra bardagamanna“ um grundvallarvernd gegn handahófskenndu varðhaldi og pyntingum (sk. habeas corpus).
    Þann 18. janúar 2007 kynnti bandaríska varnarmálaráðuneytið vinnureglur fyrir sérstakan herdómstól í Guantanamo. Þeirri stofnun er þar með heimilt að dæma sakborninga á grundvelli sögusagna og framburðar sem hefur verið þvingaður fram, þ.e. með pyntingum. Verjandi sakbornings situr skör lægra en saksóknari því vilji hann leggja fram leynileg sönnunargögn má saksóknari fá að sjá þau en um sambærileg gögn, sem saksóknari byggir mál sitt á, gildir að verjandi fær ekki að sjá þau.
    Það er því ljóst að Bandaríkjastjórn mætir öllum kröfum um að hún standi við alþjóðlegar skuldbindingar sínar á þessu sviði af sömu þrákelkninni og áður. Ekki þarf að hafa mörg orð um hversu hættulegt fordæmi bandarísku pyntingabúðirnar í Guantanamo eru. Réttarbrotum eða dómsmorðum hefur síst fækkað í meintu stríði Bandaríkjamanna eða Vesturlanda gegn hryðjuverkavá um allan heim. Grundvallarréttindi fólks, sem tryggð eru í alþjóðlegum mannréttindasáttmálum, eru takmörkuð eða numin úr gildi með fáeinum stjórnvaldsaðgerðum. Gagnrýni Bandaríkjastjórnar á mannréttindabrot annars staðar í heiminum hefur öll orðið ótrúverðugri en ella og róðurinn í baráttunni fyrir mannréttindum einungis orðið þyngri. Á þetta hafa fjölmörg ríki bent sem og öll helstu mannréttindasamtök heims, svo sem Amnesty International og Human Rights Watch, allt frá því flogið var með fyrstu fangana til Guantanamo. Það er því full ástæða til þess að Alþingi Íslendinga og ríkisstjórn láti í sér heyra um mannréttindabrotin í Guantanamo með skýrum hætti á alþjóðavettvangi og beiti sér fyrir því að fangabúðunum verði lokað.
    Þar með tekur Alþingi undir kröfu mannréttindasamtakanna Amnesty International sem einnig hafa hvatt bandarísk yfirvöld til að loka fangabúðunum. Það má þó ekki verða til þess að fangarnir verði fluttir annað á sambærilega staði eða í leynifangelsi. Lykilatriði er að virða mannréttindi þeirra fanga sem þarna hefur verið haldið án dóms og laga og tryggja þeim réttláta málsmeðferð samkvæmt alþjóðlegum viðmiðum.