Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 131. máls.

Þskj. 132  —  131. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda,
lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, og lögum nr. 129/1997,
um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða,
með síðari breytingum .

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda,
með síðari breytingum.

1. gr.

    Við 7. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Vinnuveitandi starfsmanna sem ráðnir eru til starfa á grundvelli samnings um útleigu á vinnuafli telst launagreiðandi þeirra samkvæmt lögum þessum hafi starfsmannaleigan ekki skattalegt heimilisfesti hér á landi.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald,
með síðari breytingum.

2. gr.

    Á eftir orðinu „Launagreiðendur“ í 1. mgr. 1. gr. laganna kemur: samkvæmt lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.

III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda
og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum.

3. gr.

    Á eftir orðinu „Launagreiðendur“ í 3. mgr. 6. gr. laganna kemur: samkvæmt lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Hinn 20. september 2007 var kveðinn upp dómur í Hæstarétti í máli nr. 523/2006 gegn íslenska ríkinu.
    Í dómi sínum komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að áfrýjandi, útibú erlends fyrirtækis, sem stundaði starfsemi hér á landi og notaðist við starfsmenn sem ráðnir höfðu verið af erlendum starfsmannaleigum sem síðan leigðu þá út hingað til lands, teldist vera vinnuveitandi hinna útleigðu starfsmanna og starfsmennirnir því skattskyldir hér á landi, sbr. 1. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og Ísland ætti skattlagningarréttinn samkvæmt ákvæðum tvísköttunarsamnings milli Íslands og heimaríkis viðkomandi starfsmannaleigna. Við mat á því hver teldist vinnuveitandi í þessu tilviki leit Hæstiréttur meðal annars til þess hvaða aðili átti rétt til verksins sem til verður við vinnuna og beri áhættu og ábyrgð á því. Við alþjóðlega útleigu á vinnuafli séu þessar heimildir almennt hjá þeim sem unnið er fyrir. Á hinn bóginn væri skyldan til að standa skil á staðgreiðslu samkvæmt lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögð á launagreiðanda eða þann sem annast milligöngu á launagreiðslum og væri hugtakið launagreiðandi þrengra hugtak en hugtakið vinnuveitandi og ekki eins margþætt. Fyrir lægi að við breytingar sem gerðar hefðu verið á tekjuskattslögum árið 1995 hefði verið uppi ráðagerð um að það skyldi vera notandi þjónustunnar en ekki starfsmannaleigan sem teldist launagreiðandi og væri þar með skyldugur til þess að standa skil á staðgreiðslu vegna erlendra útleigðra starfsmanna hér á landi. Þessari ráðagerð hafi hins vegar ekki verið fylgt eftir með breytingu á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Geti ummæli í greinargerð með frumvarpi til breytinga á öðrum lögum en þeim sem gilda um staðgreiðslu opinberra gjalda ekki verið viðhlítandi grundvöllur til að leggja á notendur þjónustu starfsmannaleigna skyldu til staðgreiðsluskila af launum útleigðra starfsmanna. Þurfi til þess skýra heimild í lögum. Samkvæmt þessu taldi Hæstiréttur að það væru hinar erlendu starfsmannaleigur en ekki aðilinn sem nýtti starfskrafta þeirra hér á landi sem almennt teldust launagreiðendur umræddra útleigðra starfsmanna og bæri notanda þjónustunnar því almennt ekki skylda til þess að standa skil á staðgreiðslu vegna launa þessara starfsmanna.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að fylgt verði eftir þeirri breytingu sem gerð var á lögum um tekjuskatt og eignarskatt á sínum tíma með hliðstæðri breytingu á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, þannig að lagastoðum sé skotið undir þá framkvæmd að það skuli vera notandi þjónustunnar en ekki starfsmannaleigan sem teljist launagreiðandi á grundvelli samninga um útleigu á vinnuafli hafi starfsmannaleigan ekki skattalegt heimilisfesti hér á landi. Einnig eru lagðar til breytingar á lögum um tryggingagjald og lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða til að taka af öll tvímæli um það hver sé launagreiðandi við umræddar kringumstæður.
    Í athugasemdum við 1. tölul. 1. gr. laga nr. 145/1995, um breytingu á lögum nr. 75/1981, segir: „Um langt skeið hefur alþjóðleg útleiga vinnuafls leitt til ýmissa vandkvæða í skattframkvæmd. Hér er um það að ræða að rekstraraðili sem óskar eftir því að ráða erlent vinnuafl í skemmri tíma en 183 daga ræður starfskraft í gegnum erlendan millilið. Milliliðurinn gefur sig út fyrir að vera vinnuveitandi og leigir út vinnuaflið til rekstraraðilans. Með breytingunni er gert ráð fyrir að launþegi sem þannig hagar til um verði skattskyldur hér á landi á grundvelli 3. gr. Launagreiðandi hans (hinn innlendi rekstraraðili) ber ábyrgð á staðgreiðslu af launum hans eins og annarra launamanna sem hér starfa tímabundið. Þetta er í samræmi við sambærileg ákvæði tvísköttunarsamninga og er lagt til að tekin verði af tvímæli um að menn sem svo háttar um sem að framan er lýst verði ótvírætt skattskyldir hér á landi.“
    Eins og fram kemur í tilvitnuðum dómi Hæstaréttar takmarkaðist breyting þessi við tekjuskattslögin og taldi rétturinn því að skýra lagaheimild skorti í staðgreiðslulögin nr. 45/1987 til að fylgja eftir í framkvæmd þeim áformum að það skyldi vera notandi þjónustunnar, þ.e. vinnuveitandi útleigðra starfsmanna, en ekki starfsmannaleigan sem teldist launagreiðandi í skilningi staðgreiðslulaga. Með frumvarpi þessu er verið að hnykkja á því að hin almenna skylda til að halda eftir staðgreiðslu af skattskyldum launum og skila í ríkissjóð hvíli þannig á heimilisföstum vinnuveitanda sem telst launagreiðandi í skilningi staðgreiðslulaga við þessar aðstæður. Starfsmannaleiga án heimilisfesti hér á landi teldist þannig ekki almennur launagreiðandi útleigðra starfsmanna í skilningi staðgreiðslulaga nr. 45/1987. Eðli máls samkvæmt verða skyldur launagreiðenda ekki lagðar á aðra vinnuveitendur en þá sem eiga hér á landi skattalegt heimilisfesti skv. 1. og 2. gr. laga nr. 90/2003 og uppfylla að öðru leyti þær skyldur sem almennt eru lagðar á launagreiðendur samkvæmt ákvæðum staðgreiðslulaga, laga um tryggingagjald, laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda auk annarra lögboðinna krafna um skráningu o.fl., þegar svo háttar til að starfsmenn á vegum starfsmannaleigna eru skattskyldir hvort heldur er skv. 1. eða 3. gr. laga nr. 90/2003.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, og lögum nr. 129/1997,
um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða,
með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á þrennum lögum sem allar varða skilgreiningu á hugtakinu launagreiðandi þegar um er að ræða útleigu á vinnuafli og starfsmannaleigan hefur ekki skattalegt heimilisfesti á Íslandi. Markmiðið með því er að fylgja eftir breytingu sem gerð var á lögum um tekjuskatt og eignarskatt á sínum tíma með hliðstæðri breytingu á framangreindum lögum þannig að styrkari lagastoðum verði skotið undir þá framkvæmd að það skuli vera notandi þjónustunnar en ekki starfsmannaleigan sem teljist launagreiðandi á grundvelli samninga um útleigu á vinnuafli hafi starfsmannaleigan ekki skattalegt heimilisfesti hér á landi.
    Ekki er gert ráð fyrir að lögfesting frumvarpsins hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.