Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 192. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 207  —  192. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum.

Flm.: Kolbrún Halldórsdóttir, Atli Gíslason, Auður Lilja Erlingsdóttir,


Ágúst Ólafur Ágústsson, Ásta R. Jóhannesdóttir, Katrín Júlíusdóttir,
Siv Friðleifsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Steinunn Valdís Óskarsdóttir.


1. gr.

    Við 206. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 1. mgr., svohljóðandi:
    Hver sem lætur af hendi eða heitir greiðslu eða öðrum ávinningi fyrir vændi skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp sambærilegs efnis hefur nokkrum sinnum verið lagt fyrir Alþingi en aldrei náð fram að ganga. Á 131. löggjafarþingi var málið afgreitt frá allsherjarnefnd en komst ekki til annarrar umræðu. Í frumvarpinu er lagt til að kaup á vændi verði refsiverð, þ.e. lagt er til að Íslendingar fari að dæmi Svía og innleiði „sænsku leiðina“ svokölluðu sem miðast við að það sé hlutverk löggjafans að sporna við sölu á kynlífi, enda sé ekki ásættanlegt að líta á mannslíkamann sem söluvöru. Einnig er gengið út frá því að ábyrgðin af viðskiptunum hvíli á herðum kaupandans en ekki seljandans, enda sé aðstöðumunur þeirra ævinlega mikill. Loks er litið svo á að það sé kaupandinn sem í krafti peninganna hafi eiginlegt val um að kaupa eða kaupa ekki, enda staða hans í langflestum tilvikum miklum mun sterkari en staða þess sem selur aðgang að líkama sínum til kynlífsathafna.
    Sænska leiðin hefur verið til umræðu í nokkur ár hér á landi eða allt síðan tillaga þess efnis kom fyrst fram á Alþingi árið 2000. Fylgi við tillöguna hefur aukist síðan þá og í mars á þessu ári þegar Capacent Gallup kannaði hug landsmanna til kaupa á vændi kom í ljós að 70% þjóðarinnar voru hlynnt eða mjög hlynnt því að sænska leiðin yrði farin hér á landi (sjá mynd). Sömu sögu er að segja af nágrannaþjóðum okkar en í Noregi er komið fram stjórnarfrumvarp um að sænska leiðin verði farin og er það í umsagnarferli.
    Þess má geta að víðtækur stuðningur hefur verið meðal kvennahreyfingarinnar við að kaup á vændi verði gerð refsiverð. Haustið 2003 sendu 14 samtök þingmönnum áskorun um að leiða slíkt bann í lög. Þetta voru Bríet – félag ungra femínista, Femínistafélag Íslands, Kvenfélagasamband Íslands, Kvennaathvarfið, Kvennakirkjan, Kvennaráðgjöfin, Kvenréttindafélag Íslands, Neyðarmóttaka vegna nauðgunar, Stígamót, Tímaritið Vera, UNIFEM á Íslandi, Félag kvenna í læknastétt á Íslandi, Landssamband framsóknarkvenna og V-dagssamtökin. Í greinargerð með áskoruninni var lögð áhersla á tengsl klámiðnaðarins og vændis og tekið undir það sjónarmið að vændi væri kynbundið ofbeldi sem bæri að vinna gegn. Það að gera kaup á vændi refsiverð væri virk leið til varnar.
Niðurstöður úr könnun Capacent Gallup.
    
Dagana 21.–27. mars 2007 gerði Capacent Gallup símakönnun fyrir Ríkisútvarpið um viðhorf fólks til þess að kaup á vændi verði gerð refsiverð. Úrtakið var tilviljunarúrtak úr þjóðskrá. Í því voru 1.210 manns 18–75 ára. Svarhlutfall var 61,7%. Spurt var m.a. eftirfarandi spurningar:

Ertu hlynnt(ur) því eða andvíg(ur) að kaup á vændi verði gerð refsiverð?

    

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.





Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.