Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 195. máls.
Þskj. 210  —  195. mál.




Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um almannatryggingar,
lögum um félagslega aðstoð, lögum um sjúklingatryggingu,
lögum um heilbrigðisþjónustu, lögum um málefni aldraðra
og lögum um eftirlaun til aldraðra.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




I. KAFLI

Breyting á lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar, með síðari breytingu.

1. gr.

    2. gr. laganna orðast svo:
    Félags- og tryggingamálaráðherra fer með lífeyristryggingar, sbr. 1. gr., og yfirstjórn Tryggingastofnunar ríkisins. Heilbrigðisráðherra fer með slysatryggingar og sjúkratryggingar, sbr. 1. gr. Tryggingastofnun annast framkvæmd lífeyristrygginga samkvæmt lögum þessum.

2. gr.

    Orðin „eftir hverjar alþingiskosningar“ í 1. málsl. 3. gr. laganna falla brott.

3. gr.

    3. málsl. 1. mgr. 4. gr. laganna fellur brott.

4. gr.

    Í stað orðanna „heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu“ í 1. mgr. 25. gr. laganna kemur: ráðherra.

5. gr.

    Orðin „dvalarheimila fyrir aldraða“ í 1. málsl. 2. mgr. 44. gr. laganna falla brott.

6. gr.

    6. mgr. 48. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra ákveður daggjöld dvalarheimila fyrir aldraða með reglugerð. Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að greiða dvalarheimili fyrir aldraða sem ekki er á föstum fjárlögum vistunarframlag allt að því sem á vantar dvalarkostnað í samræmi við lög um málefni aldraðra. Vistunarframlag skal þó aldrei nema hærri fjárhæð en nemur dvalarkostnaði vistmanns eins og hann er ákveðinn af ráðherra hverju sinni skv. 1. málsl.

7. gr.

    Í stað orðanna „Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra“ í 3. mgr. 58. gr. laganna kemur: Ráðherra.

8. gr.

    Í stað orðsins „ráðherra“ í 1. málsl. 1. mgr. 68. gr. laganna kemur: hlutaðeigandi ráðherra.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 70. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Ráðherra“ í 1. málsl. kemur: Félags- og tryggingamálaráðherra eða heilbrigðisráðherra eftir atvikum.
     b.      Í stað orðsins „ráðherra“ í 2. málsl. kemur: hlutaðeigandi ráðherra.

10. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
     9.      Tryggingastofnun ríkisins annast reikningshald og daglega afgreiðslu slysatrygginga og sjúkratrygginga, að undanskilinni 39. gr., í umboði heilbrigðisráðherra, þar til ný stofnun samkvæmt ákvæði til bráðabirgða við lögin um heilbrigðisþjónustu tekur til starfa.
             Hvarvetna í lögum þessum þar sem Tryggingastofnun ríkisins er falið að annast framkvæmd slysatrygginga og sjúkratrygginga skal það gert í umboði heilbrigðisráðherra.

II. KAFLI

Breyting á lögum nr. 99/2007, um félagslega aðstoð.

11. gr.

    Í stað orðanna „Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra“ í 2. mgr. 14. gr. laganna kemur: Ráðherra.

III. KAFLI

Breyting á lögum nr. 111/2000, um sjúklingatryggingu, með síðari breytingu.

12. gr.

    Í stað orðanna „heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra“ í 1. málsl. 1. mgr. 1. gr., 1. málsl. 2. mgr. 10. gr., 2. málsl. 1. mgr. 15. gr. og 1. málsl. 17. gr. laganna kemur: heilbrigðisráðherra.

13. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra“ í d-lið kemur: heilbrigðisráðherra.
     b.      Í stað orðanna „við Tryggingastofnun ríkisins“ í d-lið kemur: á grundvelli 44. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar.

14. gr.

    Í stað orðsins „Ráðherra“ í 21. gr. laganna kemur: Heilbrigðisráðherra.

15. gr.

    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða sem hljóðar svo:
    Hvarvetna í lögum þessum þar sem Tryggingastofnun ríkisins er falið að annast framkvæmd sjúklingatryggingar skal það gert í umboði heilbrigðisráðherra.

IV. KAFLI

Breyting á lögum nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu.

16. gr.

    Í stað orðanna „heilbrigðis- og tryggingamála“ í 2. gr. laganna kemur: heilbrigðismála.

17. gr.

    Í stað orðanna „heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra“ í 7. tölul. 4. gr. laganna kemur: heilbrigðisráðherra.

18. gr.

    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
    Starfrækja skal stofnun undir yfirstjórn heilbrigðisráðherra sem hefur m.a. það hlutverk að annast kaup, greiðslur og samninga um heilbrigðisþjónustu og framkvæmd þeirra málaflokka almannatrygginga sem heyra undir heilbrigðisráðherra.
    Ráðherra skipar forstjóra stofnunarinnar til fimm ára í senn. Forstjóri skal hafa lokið námi á háskólastigi. Forstjóri ræður aðra starfsmenn stofnunarinnar og annast daglegan rekstur hennar.
    Ráðherra skipar fimm menn í stjórn stofnunarinnar og skal einn skipaður formaður stjórnar og annar varaformaður. Ráðherra setur stjórninni erindisbréf.

V. KAFLI
Breyting á lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum.
19. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. tölul. 2. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „heilbrigðis-“ í 1. málsl. kemur: félags-.
     b.      Í stað orðsins „þjónustuþættir“ í 2. málsl. kemur: þjónustuþættir, aðrir en heilbrigðisþjónusta.

20. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Félags- og tryggingamálaráðherra fer með yfirstjórn öldrunarmála samkvæmt lögum þessum. Heilbrigðisráðherra fer með yfirstjórn heilbrigðisþjónustu við aldraða.
     b.      1. málsl. 2. mgr. orðast svo: Félags- og tryggingamálaráðuneytið skal annast stefnumótun og áætlanagerð í öldrunarmálum fyrir landið í heild.

21. gr.

    1. og 2. málsl. 4. gr. laganna orðast svo: Félags- og tryggingamálaráðherra skipar fimm manna samstarfsnefnd um málefni aldraðra. Skal einn nefndarmaður tilnefndur af heilbrigðisráðherra, einn af Landssambandi eldri borgara, einn af Öldrunarráði Íslands, einn af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einn skipaður án tilnefningar og skal hann vera formaður.

22. gr.

    Í stað orðsins „heilbrigðis-“ í 1. tölul. 5. gr. laganna kemur: félags-.

23. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. mgr. 9. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra“ í 1. málsl. kemur: ráðherra.
     b.      Í stað orðsins „heilbrigðis-“ í 2. málsl. kemur: félags-.

24. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „heilbrigðis-“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: félags-.
     b.      Í stað orðsins „heilbrigðis-“ í 2. mgr. kemur: félags-.

25. gr.

    Í stað orðsins „Heilbrigðis-“ í 12. gr. laganna kemur: Félags-.

26. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      Orðin „sem er í höndum starfsfólks heilsugæslustöðva“ í 4. málsl. 1. tölul. falla brott.
     b.      Í stað orðanna „heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra“ í 2. málsl. 4. tölul. kemur: ráðherra.

27. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
     a.      2. mgr. orðast svo:
                  Engan má vista til langdvalar á stofnun fyrir aldraða skv. 2. tölul. 1. mgr. 14. gr. nema að undangengnu mati á vistunarþörf. Heilbrigðisráðherra skipar þriggja manna nefndir til að meta vistunarþörf. Nefndirnar skulu skipaðar lækni með sérmenntun á sviði öldrunar- eða heimilislækninga, hjúkrunarfræðingi með þekkingu á öldrunarþjónustu og félagsráðgjafa með þekkingu á félagslegri þjónustu við aldraða sem tilnefndur er af félags- og tryggingamálaráðherra. Skipa skal þrjá varamenn sem uppfylla sömu menntunarskilyrði og aðalmenn. Nánar skal kveðið á um vistunarmat, fjölda nefnda og starfssvæði þeirra í reglugerð heilbrigðisráðherra.
     b.      4. mgr. fellur brott.

28. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Áður en framkvæmdir hefjast við dagvist fyrir aldraða skv. 3. tölul. 13. gr. eða stofnun fyrir aldraða skv. 14. gr. skal afla framkvæmda- og rekstrarleyfis félags- og tryggingamálaráðherra.
     b.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður sem verður 2. málsl. og orðast svo: Þegar um er að ræða stofnun fyrir aldraða skv. 2. tölul. 1. mgr. 14. gr. skal liggja fyrir leyfi heilbrigðisráðherra til reksturs heilbrigðisþjónustu á slíkum stofnunum, sbr. lög um heilbrigðisþjónustu, áður en framkvæmdaleyfi er gefið út.
     c.      Orðin „sem útbúin eru af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu“ í 2. málsl. 1. mgr. (sem verður 3. málsl.) falla brott.
     d.      Í stað orðsins „heilbrigðis-“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: félags-.
     e.      Í stað orðsins „heilbrigðis-“ í 4. málsl. 2. mgr. kemur: félags-.

29. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 21. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „6. mgr. 43. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: 6. mgr. 48. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar.
     b.      Í stað orðanna „heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skv. 39. gr. laga um almannatryggingar“ í 3. málsl. 1. mgr. kemur: ráðherra skv. 6. mgr. 48. gr. laga um almannatryggingar.
     c.      Í stað orðanna „43. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: 48. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar.
     d.      Í stað orðanna „heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hverju sinni, sbr. 39. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar“ í 3. mgr. kemur: ráðherra hverju sinni, sbr. 6. mgr. 48. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar.

30. gr.

    Í stað orðanna „heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, sbr. 39. gr. laga um almannatryggingar“ í 2. málsl. 1. mgr. 22. gr. laganna kemur: ráðherra, sbr. 6. mgr. 48. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar.

31. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 23. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „heilbrigðis-“ í 3. málsl. 2. mgr. kemur: félags-.
     b.      Í stað orðsins „Heilbrigðis-“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: Félags-.
     c.      Í stað orðanna „39. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar“ í 2. málsl. 3. mgr. kemur: 6. mgr. 48. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar.

32. gr.

    Í stað orðanna „43. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum“ í 24. gr. laganna kemur: 48. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar.

33. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 26. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „64. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: 68. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar.
     b.      Í stað orðanna „11. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar“ í 4. mgr. kemur: 17. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar.
     c.      Í stað orðanna „47. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar“ í 3. málsl. 5. mgr. kemur: 52. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar.
     d.      Í stað orðanna „47. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar“ í 6. mgr. kemur: 52. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar.
     e.      Í stað orðanna „1., 2. og 5. mgr. 50. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar“ í 2. málsl. 8. mgr. kemur: 1., 2. og 5. mgr. 55. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar.
     f.      Í stað orðanna „47. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar“ í 2. málsl. 9. mgr. kemur: 52. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar.

34. gr.


    29. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

VI. KAFLI

Breyting á lögum nr. 113/1994, um eftirlaun til aldraðra, með síðari breytingum.

35. gr.

    Í stað orðanna „Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra“ í 1. málsl. 1. mgr. 17. gr. laganna kemur: Ráðherra.

VII. KAFLI

Gildistaka.

36. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2008. Frá sama tíma fellur brott 3. gr. laga nr. 29/2007, um breytingu á lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Við myndun núverandi ríkisstjórnar var samþykkt að fara gaumgæfilega yfir verkaskiptingu milli ráðuneyta með það fyrir augum að hagræða, einfalda stjórnsýslu og skipa skyldum málaflokkum undir eina stjórn. Var lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969, breytt í þessu skyni á síðasta löggjafarþingi, sbr. lög nr. 109/2007. Í tengslum við þá lagabreytingu voru boðaðar breytingar á verkaskiptingu heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og félagsmálaráðuneytis og nöfnum ráðuneytanna breytt til samræmis við fyrirhugaðan tilflutning verkefna. Frumvarpið sem hér er lagt fram hefur sama tilgang og frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðsins sem forsætisráðherra mælti fyrir og nú er til umræðu á Alþingi. Þetta frumvarp tekur sérstaklega til breytinga sem ákveðnar hafa verið varðandi verkaskiptingu milli heilbrigðisráðuneytisins og félags- og tryggingamálaráðuneytisins frá og með 1. janúar 2008.
    Markmiðið með breyttri verkaskiptingu á þessu sviði er að gera fyrirkomulag heilbrigðis- og tryggingakerfisins auðskiljanlegra og aðgengilegra almenningi. Það verður m.a. gert með því að samhæfa og gera skilvirkara hlutverk ríkisins sem kaupanda heilbrigðisþjónustu gagnvart þeim sem hana veita og einfalda almannatryggingakerfið. Tryggingastofnun mun færast undir félagsmálaráðuneytið en sjúkra- og slysatryggingar, sem eru meðal núverandi verkefna hennar, verða áfram á forræði heilbrigðisráðuneytisins. Jafnframt mun úrskurðarnefnd almannatrygginga færast undir félags- og tryggingamálaráðherra en allar ákvarðanir Tryggingastofnunar verða áfram kæranlegar til nefndarinnar, hvort sem þær varða lífeyristryggingar eða slysa- og sjúkratryggingar. Í kjölfarið verður ráðist í heildarstefnumótun, uppbyggingu og breytingar á hvoru sviði fyrir sig með það að markmiði að bæta og einfalda þjónustu við almenning í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.
    Stefna ríkisstjórnarinnar er að á Íslandi sé veitt heilbrigðisþjónusta á heimsmælikvarða. Leggja á stóraukna áherslu á forvarnir á öllum sviðum og stuðla að heilbrigðari lífsháttum. Leita á leiða til að lækka lyfjaverð og einfalda greiðsluþátttöku hins opinbera. Kostnaðargreina á heilbrigðisþjónustuna og taka upp blandaða fjármögnun á heilbrigðisstofnunum þar sem fjármagn fylgir sjúklingum. Þannig fái heilbrigðisstofnanir fjármagn í samræmi við þörf og fjölda verka. Skapað verði svigrúm til fjölbreytilegri rekstrarforma í heilbrigðisþjónustu, þar á meðal með öflugri hjúkrun aldraðra í heimahúsum, en jafnframt tryggt að allir hafi að henni jafnan aðgang, óháð efnahag. Samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu getur heilbrigðisráðherra veitt stofnunum eða öðrum aðilum heimild til að veita sambærilega heilbrigðisþjónustu og veitt er í hjúkrunarrýmum en ákvæði laga um málefni aldraðra, sbr. einkum ákvæði þeirra um útgáfu framkvæmda- og rekstrarleyfa, skerða ekki umboð heilbrigðisráðherra til að semja um greiðsluþátttöku ríkisins í heilbrigðisþjónustu. Breytingar í þessa átt á heilbrigðissviði eru nú að hefjast og munu taka nokkurn tíma. Með þessu frumvarpi er stigið stórt skref þar sem ákveðið er að sett verði á fót ný stofnun sem heyrir undir heilbrigðisráðherra og mun meðal annars annast kaup, greiðslur og samninga um heilbrigðisþjónustu. Stefnt er að því að hún verði komin í fullan rekstur í síðasta lagi 1. september 2008.
    Hvað varðar almannatryggingar er í stefnu ríkisstjórnarinnar lögð áhersla á að styrkja stöðu aldraðra og öryrkja, m.a. með einföldun almannatryggingakerfisins og að því er nú unnið. Samspil skatta, tryggingabóta, greiðslna úr lífeyrissjóðum og atvinnutekna einstaklinga verði skoðað sérstaklega til að tryggja meiri sanngirni og hvetja til tekjuöflunar og sparnaðar. Vinna við þetta hefur þegar hafist í félagsmálaráðuneytinu og mun strax á næsta ári verða hafist handa við að hrinda breytingum í framkvæmd.
    Auk breytinga á verkaskiptingu ráðuneyta á sviði almannatrygginga er í frumvarpinu lagt til að yfirstjórn öldrunarmála færist frá heilbrigðisráðuneyti til félags- og tryggingamálaráðuneytis. Þessi stefnumörkun endurspeglar það viðhorf að öldrun sé ekki sjúkdómur sem kalli á heilbrigðisþjónustu heldur almenna öldrunar- og umönnunarþjónustu. Þjónusta við aldraða önnur en heilbrigðisþjónusta færist til félags- og tryggingamálaráðuneytis frá 1. janúar 2008. Yfirstjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra færist því til félags- og tryggingamálaráðuneytis og er gert ráð fyrir að hvort ráðuneyti skipi einn fulltrúa í samstarfsnefnd um málefni aldraðra og að félags- og tryggingamálaráðherra skipi formann. Fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra verður sem fyrr varið til uppbyggingar öldrunarþjónustu. Framangreindar breytingar eru framkvæmdar með breytingum á lögum nr. 125/1999, um málefni aldraða. Auk þess er gert ráð fyrir breytingum á 44. og 48. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, til samræmis við breytingar á lögum um málefni aldraðra. Með þessum breytingum verður skilið á milli veitingar heilbrigðisþjónustu við aldraða sem heilbrigðisráðuneytið mun áfram sinna og búsetuúrræða og almennrar öldrunarþjónustu sem verður flutt til félags- og tryggingamálaráðuneytis. Ljóst er að nokkurn tíma mun taka að skilja á milli þess sem telst almenn öldrunarþjónusta og þess sem telst heilbrigðisþjónusta við aldraða. Því er gert ráð fyrir að ráðuneytin vinni að því að skilgreina þessa þætti nánar og móta hvernig samskiptum við og greiðslum til öldrunarstofnana verði háttað í framtíðinni. Meðal annars þarf að skipta daggjöldum í tvennt þar sem annars vegar verða daggjöld vegna heilbrigðisþjónustu sem heilbrigðisráðuneyti ákveður og hins vegar daggjöld vegna búsetu- og almennrar öldrunarþjónustu sem félags- og tryggingamálaráðuneytið ákveður. Stefnt er að því að þessari vinnu verði lokið fyrir 1. september nk. Þess má vænta að lagt verði fram frumvarp um frekari breytingar á lögum um málefni aldraðra á vorþingi 2008.
    Með þeim breytingum sem þetta frumvarp boðar næst skýr forgangsröðun verkefna í hvoru ráðuneyti fyrir sig og ráðist verður í umfangsmiklar aðgerðir til þess að bæta þjónustu á báðum sviðum. Heilbrigðisráðherra og félags- og tryggingamálaráðherra munu hvor um sig leggja fram frumvörp á vorþingi þar sem nánar verður gerð grein fyrir hlutverki og skipulagi stofnana sem komið verður á fót á grunni Tryggingastofnunar, en hún verður rekin með óbreyttu sniði til 1. september 2008 eða þangað til ný stofnun heilbrigðisráðherra tekur formlega við þeim verkefnum Tryggingastofnunar sem verða áfram á forræði heilbrigðisráðherra. Lögð verður áhersla á að tryggja réttindi starfsmanna Tryggingastofnunar ríkisins við þær breytingar sem kveðið er á um í frumvarpi þessu.
    Flestar greinar þessa frumvarps fela í sér orðalagsbreytingar sem eru til komnar vegna þess að málaflokkar færast milli ráðuneytanna. Helstu efnislegu breytingarnar eru þær að sett verður á fót ný stofnun undir heilbrigðisráðuneytinu sem sjá mun um sjúkra- og slysatryggingar ásamt kaupum á heilbrigðisþjónustu, en hlutverk hennar verður skilgreint nánar í sérstöku frumvarpi á vorþingi og verður hún komin í fullan rekstur 1. september 2008 eða fyrr.
    Verður nú gefið yfirlit yfir helstu breytingar sem fólgnar eru í frumvarpinu.
    Í I. kafla eru lagðar til breytingar á lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar. Þar er skilgreint í 2. gr. með skýrum hætti hvaða ráðherra fer með sjúkra- og slysatryggingar annars vegar og lífeyristryggingar hins vegar. Í ákvæði til bráðabirgða er hnykkt á því að Tryggingastofnun sjái áfram um framkvæmd ákveðinna mála í umboði heilbrigðisráðherra.
    Í II. kafla er lögð til breyting á lögum nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, í ljósi þess að lögin flytjast undir félags- og tryggingamálaráðuneytið.
    Í III. kafla eru lagðar til breytingar á lögum nr. 111/2000, um sjúklingatryggingu, til þess að samræma lagaákvæði breytingum á nafni heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis í heilbrigðisráðuneyti.
    Í IV. kafla eru lagðar til breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu. Í ákvæði til bráðabirgða er kveðið á um að sett verði á fót stofnun undir heilbrigðisráðuneyti sem hafi meðal annars það hlutverk að annast kaup, greiðslur og samninga um heilbrigðisþjónustu og sinni sjúkra- og slysatryggingum. Eins og fyrr sagði verður nánar kveðið á um skipulag og hlutverk þessarar stofnunar í sérstökum lögum sem lögð verða fyrir á vorþingi.
    Í V. kafla eru lagðar til breytingar á lögum um málefni aldraðra í samræmi við yfirfærslu málaflokksins til félags- og tryggingamálaráðuneytisins og þá verkaskiptingu sem ákveðin hefur verið milli ráðuneytanna er varðar framkvæmd samninga og greiðslna til hjúkrunarheimila.
    Í VI. kafla er lögð til breyting á lögum um eftirlaun til aldraðra vegna flutnings málaflokksins til félags- og tryggingamálaráðuneytis.
    Við undirbúning þessa nýja fyrirkomulags var haft samráð við Tryggingastofnun ríkisins. Tryggt er að þeir aðilar sem skipta við stofnunina daglega muni ekki finna fyrir breytingunum fyrst um sinn þótt þeir ættu að gera það í framtíðinni með bættri þjónustu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


    Um 1. gr.


    Í 1. gr. frumvarpsins er 2. gr. laganna breytt og lagt til að Tryggingastofnun ríkisins muni heyra undir félags- og tryggingamálaráðherra. Í samræmi við breytta verkaskiptingu ráðuneyta verður ábyrgð og yfirstjórn þeirra málaflokka almannatrygginga sem kveðið er á um í núgildandi lögum um almannatryggingar deilt þannig að félags- og tryggingamálaráðherra fer með lífeyristryggingar og heilbrigðisráðherra fer með slysatryggingar og sjúkratryggingar. Hvor ráðherra um sig hefur þannig vald til setningar reglugerða varðandi þá þætti almannatrygginga sem undir hann heyra.
    Gert er ráð fyrir að starfsemi Tryggingastofnunar verði með óbreyttu sniði fyrst um sinn, eða þar til ný stofnun heilbrigðisráðherra tekur formlega við þeim verkefnum sem verða áfram á forræði heilbrigðisráðherra, sbr. einnig 10. gr. frumvarpsins.
    Að öðru leyti er vísað til almennra athugasemda við frumvarpið.

Um 2. gr.


    Í greininni er lagt til að 3. gr. laganna verði breytt þannig að skipan stjórnar Tryggingastofnunar ríkisins verði ekki bundin við alþingiskosningar. Félags- og tryggingamálaráðherra verður þannig heimilt að skipa í stjórn stofnunarinnar að nýju þegar stofnunin flyst undir yfirstjórn hans.

Um 3. gr.


    Í greininni er lagt til að 3. málsl. 1. mgr. 4. gr. laganna falli brott í samræmi við 28. gr. og 3. tölul. 39. gr. laga nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu, þar sem tilhögun skipanar í samninganefnd ráðherra var breytt frá því sem áður var. Vegna breyttrar verkaskiptingar ráðuneyta er jafnframt gert ráð fyrir að stjórn Tryggingastofnunar komi ekki lengur að skipan í nefnd skv. 40. gr. laganna.

Um 4. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 5. og 6. gr.


    Í samræmi við breytta verkaskiptingu ráðuneyta er gert ráð fyrir breytingu á 2. mgr. 44. gr. þannig að ákvörðun daggjalda dvalarheimila fyrir aldraða verði ekki lengur hjá heilbrigðisráðherra. Ákvæði um ákvörðun þeirra flytjast yfir í 6. mgr. 48. gr. þar sem jafnframt er kveðið á um vistunarframlag.

Um 7. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 8. gr.


    Í greininni er lagt til að ákvæðum 68. gr. laganna verði breytt á þann veg að félags- og tryggingamálaráðherra og heilbrigðisráðherra verði veitt heimild til að semja við erlendar tryggingastofnanir um gagnkvæman rétt til þeirra hlunninda sem almannatryggingar veita. Samningsheimild hvors ráðherra um sig mundi þannig ná til þeirra málaflokka sem undir þá heyra, þ.e. félags- og tryggingamálaráðherra hefði samningsheimild varðandi lífeyristryggingar og heilbrigðisráðherra varðandi slysa- og sjúkratryggingar.

Um 9. gr.


    Í samræmi við breytta verkaskiptingu ráðuneyta er gert ráð fyrir breytingu á 70. gr. laganna þannig að félags- og tryggingamálaráðherra beri ábyrgð á setningu reglugerða um lífeyristryggingar en heilbrigðisráðherra beri ábyrgð á setningu reglugerða um slysa- og sjúkratryggingar.

Um 10. gr.


    Í ákvæði til bráðabirgða er kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins annist áfram reikningshald og daglega afgreiðslu slysatrygginga og sjúkratrygginga eins og verið hefur, en í umboði heilbrigðisráðherra, þar til ný stofnun heilbrigðisráðherra samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu tekur við þeim verkefnum, nema um annað sé samið.
    Í núgildandi lögum um almannatryggingar er Tryggingastofnun ríkisins víða falið beint hlutverk varðandi framkvæmd almannatrygginga. Í ákvæði til bráðabirgða er hnykkt sérstaklega á því að Tryggingastofnun annist framkvæmd slysa- og sjúkratrygginga í umboði heilbrigðisráðherra til 1. september 2008 eða fyrr.

    Um 11. og 12. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um 13. gr.


    Fyrri efnisliður greinarinnar þarfnast ekki skýringar. Í b-lið greinarinnar er lögð til breyting á orðalagi 9. gr. laganna til samræmis við breytt fyrirkomulag samninga við sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn með gildistöku laga nr. 154/2001, um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu og lögum um almannatryggingar, og núgildandi lög nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu.

Um 14. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 15. gr.


    Í núgildandi lögum um sjúklingatryggingu er Tryggingastofnun ríkisins víða falið beint hlutverk varðandi framkvæmd sjúklingatryggingar. Lagt er til að með ákvæði til bráðabirgða verði hnykkt sérstaklega á því að Tryggingastofnun annist framkvæmd sjúklingatryggingar í umboði heilbrigðisráðherra til 1. september 2008 eða fyrr.

    Um 16. og 17. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um 18. gr.


    Í greininni er lagt til að kveðið verði á um í ákvæði til bráðabirgða að sett verði á fót stofnun sem heyri undir heilbrigðisráðherra og hafi m.a. það hlutverk að annast kaup, greiðslur og samninga um heilbrigðisþjónustu og sinni sjúkra- og slysatryggingum. Gert er ráð fyrir að nánar verði kveðið á um skipulag og hlutverk þessarar stofnunar í sérstöku frumvarpi sem lagt verði fram á vorþingi árið 2008.
    Að öðru leyti vísast til almennra athugasemda við frumvarpið.

    Um 19. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 20. gr.


    Lagðar eru til breytingar á 3. gr. laganna sem fela í sér að félags- og tryggingamálaráðherra fari með faglega yfirstjórn, fjármögnun, ákvörðun daggjalda og samskipti við stofnanir vegna annarrar öldrunarþjónustu en heilbrigðisþjónustu. Heilbrigðisráðuneytið annist áfram heimahjúkrun, rekstur hjúkrunarrýma hjá heilbrigðisstofnunum ríkisins og faglega yfirstjórn, fjármögnun, ákvörðun daggjalda og samskipti við stofnanir vegna heilbrigðisþjónustu. Til heilbrigðisþjónustu í þessu sambandi telst meðal annars heilbrigðisþáttur heimaþjónustu og heilbrigðisþjónusta á dagvistun aldraða, sbr. 13. gr. laganna, ásamt hjúkrunarþjónustu, læknisþjónustu og endurhæfingu í hjúkrunarrýmum, sbr. 14. gr. laganna. Vistunarmat skv. 15. gr. laganna heyrir áfram undir heilbrigðisráðherra, sbr. 27. gr. frumvarpsins.

Um 21. gr.


    Í greininni er lagt til að félags- og tryggingamálaráðherra skipi samstarfsnefnd um málefni aldraðra og formann nefndarinnar. Tilnefning nefndarmanna er óbreytt að því undanskildu að nauðsynlegt er að heilbrigðisráðherra eigi aðild að nefndinni og tilnefni einn mann. Ástæða þessa er að þrátt fyrir að málefni aldraðra flytjist til félags- og tryggingamálaráðherra mun veiting heilbrigðisþjónustu við aldraða á hjúkrunarheimilum og í hjúkrunarrýmum áfram heyra undir heilbrigðisráðherra, sbr. ákvæði laga um heilbrigðisþjónustu. Gert er ráð fyrir að skipun ráðherra í nefndina verði ekki bundin við alþingiskosningar. Félags- og tryggingamálaráðherra verður þannig heimilt að skipa í samstarfsnefndina að nýju þegar málaflokkurinn flyst undir yfirstjórn hans.

Um 22.–25. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um 26. gr.


    Í fyrri lið greinarinnar er lögð til breyting á orðalagi 4. málsl. 1. tölul. 13. gr. laganna en samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu er heilbrigðisþáttur heimaþjónustu ekki afmarkaður við heilsugæslustöðvar. Síðari liður greinarinnar þarfnast ekki skýringar.

Um 27. gr.


    Í greininni er lögð til breyting á 2. mgr. 15. gr. laganna í samræmi við 3. gr. laga nr. 29/2007, um breytingu á lögum um málefni aldraðra, með síðari breytingum. Hér er gert ráð fyrir að vistunarmat nái einungis til hjúkrunarrýma og hjúkrunarheimila enda er fyrst og fremst um að ræða mat á hjúkrunarþörf. Heilbrigðisráðherra skipar þriggja manna nefndir til að meta vistunarþörf og félags- og tryggingamálaráðherra tilnefnir einn nefndarmann. Reglugerðarheimildir 2. mgr. og 4. mgr. 15. gr. eru sameinaðar í 2. mgr. og 4. mgr. felld brott. Að öðru leyti vísast til skýringa með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 29/2007.

Um 28. gr.


    Í greininni er kveðið á um að félags- og tryggingamálaráðherra veiti þau framkvæmda- og rekstrarleyfi sem fjallað er um í 16. gr. laganna. Þegar um er að ræða stofnun fyrir aldraða skv. 2. tölul. 1. mgr. 14. gr. skal liggja fyrir leyfi heilbrigðisráðherra til reksturs heilbrigðisþjónustu á slíkum stofnunum, í samræmi við VI. og VII. kafla laga nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu, áður en framkvæmdaleyfi er gefið út.

Um 29.–33. gr.


    Í 29.–30. gr., c-lið 31. gr. og 32.–33. gr. eru lagðar til breytingar á tilvísunum 21., 22., 23., 24. og 26. gr. laganna í lög um almannatryggingar í samræmi við endurútgefin lög nr. 100/ 2007, um almannatryggingar, og breytingar á þeim sem lagðar eru til í 5. og 6. gr. þessa frumvarps. A- og b-liður 31. gr. þarfnast ekki skýringa.

Um 34. gr.


    Í greininni er lagt til að í 29. gr. laganna verði kveðið á um að ráðherra setji með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laganna en ekki er talin þörf á að telja upp efnisatriði er skuli vera í reglugerðinni.

    Um 35. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

    Um 36. gr.


    Gert er ráð fyrir að lögin öðlist gildi 1. janúar 2008. Einnig er gert ráð fyrir að 3. gr. laga nr. 29/2007 um breytingu á lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum, falli brott í samræmi við 27. gr. frumvarpsins.



Fylgiskjal.
                   

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar,
lögum um félagslega aðstoð, lögum um sjúklingatryggingu,
lögum um heilbrigðisþjónustu, lögum um málefni aldraðra
og lögum um eftirlaun til aldraðra.

    Með frumvarpinu er lögð til breyting á verkaskiptingu ráðuneyta á sviði almannatrygginga og öldrunarmála. Gerir frumvarpið ráð fyrir að Tryggingastofnun færist undir félagsmálaráðuneyti en sjúkra- og slysatryggingar verði áfram á forræði heilbrigðisráðuneytis. Jafnframt mun úrskurðarnefnd almannatrygginga færast undir félagsmálaráðuneyti þótt allar ákvarðanir Tryggingastofnunar verði áfram kæranlegar til nefndarinnar. Þá gerir frumvarpið ráð fyrir að þjónusta við aldraða önnur en heilbrigðisþjónusta færist til félagsmálaráðuneytis frá 1. janúar 2008 ásamt yfirstjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra. Í athugasemd með frumvarpinu segir að ljóst sé að nokkurn tíma taki að skilja á milli þess sem telst almenn öldrunarþjónusta og þess sem er heilbrigðisþjónusta við aldraða og má vænta frumvarps um frekari breytingar á lögum um málefni aldraðra á vorþingi. Samhliða þessum breytingum verður nöfnum ráðuneytanna breytt til samræmis við tilflutning verkefna í félags- og tryggingamálaráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti.
    Í meginatriðum felur frumvarpið fyrst og fremst í sér orðalagsbreytingar sem tengdar eru flutningi málaflokka á milli ráðuneyta og er því ekki gert ráð fyrir auknum kostnaði við framkvæmd verkefna heldur eingöngu færslu fjárheimilda á milli ráðuneyta. Helstu efnisbreytingar eru þær að sett verður á fót ný stofnun undir heilbrigðisráðuneyti sem mun sjá um sjúkra- og slysatryggingar ásamt kaupum á heilbrigðisþjónustu. Verður hlutverk hennar skilgreint nánar í sérstöku frumvarpi á vorþingi, sem verður kostnaðarmetið þegar það verður lagt fram. Fram til þess tíma að sú stofnun tekur til starfa verður Tryggingastofnun rekin með óbreyttu sniði. Gert er hins vegar ráð fyrir að rekstrarkostnaður sjúkratrygginga sem Tryggingastofnun mun annast í umboði heilbrigðisráðherra verði áfram hjá heilbrigðisráðuneyti.