Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 103. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 275  —  103. mál.




Breytingartillögur



við brtt. á þskj. 265 [Fjáraukalög 2007].

Frá Jóni Bjarnasyni, Guðjóni A. Kristjánssyni og Bjarna Harðarsyni.



Skv. frv.
m.kr.

Breyting
m.kr.

Tillaga
m.kr.

    1.    Liður 47 orðist svo:
              Við 10-211 Rekstur Vegagerðarinnar
             1.11 Styrkir til ferja og sérleyfishafa          343,5     487,0     830,5
               Greitt úr ríkissjóði          0,0     487,0     487,0          2.     Liður 48 falli brott.

Greinargerð.


    Á fjárlögum ársins 2007, 6. gr., undir liðnum 7.9 er heimild til „að selja Grímseyjarferjuna m/s Sæfara og ráðstafa andvirðinu til kaupa eða leigu á annarri hentugri ferju“. Sérstök útgjöld vegna nýrrar Grímseyjarferju hafa hvergi komið inn á fjárlög umfram þessa heimildargrein. Skýrt er kveðið á um í fjárreiðulögum að af hálfu ríkissjóðs má ekkert gjald inna af hendi nema að fyrir liggi samþykki á fjárlögum.
    Ríkisstjórn Íslands veitti á fundi sínum 12. apríl 2005 heimild til að kaupa írsku ferjuna Oileain Áranna sem koma átti í stað Grímseyjarferjunnar Sæfara. Áætlað kaupverð og kostnaður við endurbætur var þá áætlað 150 m.kr. 25. nóvember 2005 undirrita fjármálaráðuneytið og samgönguráðuneytið yfirlýsingu þar sem segir: „ ... ákveðið er að fjármögnun nýrrar Grímseyjarferju verði af ónotuðum heimildum Vegagerðarinnar fram til 2007 og 2008. Hafi Vegagerðin ekki svigrúm til þess að nýta ónotaðar fjárheimildir mun fjármálaráðuneytið heimila yfirdrátt sem þessari vöntun nemur.“
    Þessi vinnubrögð gagnrýnir Ríkisendurskoðun harðlega í sérstakri greinargerð frá í ágúst sl. um kaup og endurnýjun á Grímseyjarferju. Þar segir að nú þegar hafi verið greiddar tæplega 400 m.kr. úr ríkissjóði til verksins, allt án fjárlagaheimildar. „Að mati Ríkisendurskoðunar stenst þessi aðferð á engan hátt ákvæði fjárreiðulaga og getur ekki talist til góðrar stjórnsýslu.“
    Flutningsmenn taka undir þessa gagnrýni ríkisendurskoðanda.
    Meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að millifærðar verði af framkvæmdalið Vegagerðarinnar 487 m.kr. vegna endursmíði Grímseyjarferju inn á liðinn Styrkir til ferja og sérleyfishafa. Með þessari millifærslu er í raun verið að taka lán frá öðrum framkvæmdum Vegagerðarinnar til endursmíði ferjunnar, sem verður fyrr eða síðar að greiðast til baka úr ríkissjóði. Þetta vinnulag hefur Ríkisendurskoðun einmitt gangrýnt.
    Flutningsmenn leggja til að þessum skollaleik með fjárreiðulögin verði hætt og veitt verði nú þegar fjárveiting á fjáraukalögum upp á 487 m.kr. vegna þessa verkefnis og söluandvirði núverandi ferju, þegar þar að kemur, gangi beint til ríkissjóðs.