Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 291. máls.

Þskj. 331  —  291. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 38/2007, um íslenska alþjóðlega skipaskrá.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




1. gr.

    Í stað „1. janúar 2008“ í 15. gr. laganna kemur: 1. janúar 2009.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að gildistöku laga verði frestað um eitt ár eða til 1. janúar 2009. Um er að ræða lög um íslenska alþjóðlega skipaskrá, nr. 38/2007, sem voru samþykkt frá Alþingi þann 17. mars 2007 en lögin skyldu taka gildi 1. janúar 2008.
    Eins og fram kemur í almennum athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 38/2007 er mikilvægt að skráningin sé sveigjanleg, einföld og fljótvirk og að þjónustustigið sé hátt. Þá þurfi að huga vel að því sem kann að vera fylgifiskur slíkrar alþjóðlegrar skrár, svo sem uppbygging tengdrar atvinnustarfsemi og ekki síður áhrif á menntun farmanna.
    Þá kemur þar fram að til að tryggja að vel takist til við stofnun íslenskrar alþjóðlegrar skipaskrár er nauðsynlegt að búa til aðgengilegt lagaumhverfi sem er samkeppnishæft við það sem best gerist erlendis enda mikilvægt að kaupskipaútgerðir, íslenskar sem erlendar, kjósi að skrá skip sín hér á landi og beri traust til starfsumhverfisins alls.
    Nú þegar líður að gildistöku laganna er ljóst að nauðsynlegri undirbúningsvinnu er ekki lokið og er ekki fyrirsjáanlegt að það verði um áramótin þegar lögin taka gildi. Því er lagt til að gildistöku laganna verði frestað um eitt ár og á þeim tíma unnið af fullum krafti í samstarfi við útgerðir, samtök sjómanna og aðra þá sem hagsmuna eiga að gæta um að vel takist til að viðskiptahugmyndinni: „Stofnun íslenskrar alþjóðlegrar skipaskrár: Hvernig förum við að því að laða hingað kaupskipaútgerðir?“



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 38/2007,
um íslenska alþjóðlega skipaskrá.

    Megintilgangur með þessu frumvarpi er að leggja til að gildistöku laga um íslenska alþjóðlega skipaskrá verði frestað um eitt ár eða til 1. janúar 2009 en ljóst þykir að allri nauðsynlegri undirbúningsvinnu fyrir gildistöku laganna verður ekki lokið í tæka tíð.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.